Akranes – gamli bærinn og sagan

Ólafur Páll Gunnarsson

Í vikunni sem leið birtist í Skessuhorni og á Skagafréttir.is grein eftir stjórnarfólk úr Miðbæjarsamtökunum Akratorg um fyrirhugað niðurrif á gömlum húsum á Akranesi. Greinin vakti nokkra athygli og ýmsir hafa tjáð sig um málið – ég leyfi mér að bæta við undir eigin nafni.

Ég varð eiginlega alveg óvart mikill áhugamaður um gömul hús og sögu þeirra við gera upp húsið sem ég bý í við Akratorg. Húsið heitir Sunnuhvoll og var byggt 1910. Ég fékk ekki mikinn meðbyr frá mínu nánasta umhverfi þegar ég keypti húsið og hóf að gera það upp. Pabbi minn heitinn, sem var húsasmíðameistari, bað mig til dæmis strax um að gleyma þessu – þetta væri afspyrnu slæm hugmynd sem myndi ekki borga sig.
En ég þrjóskaðist við, fékk álit frá óháðum smið, keypti húsið og byrjaði. Ég fékk dálítinn styrk frá Minjastofnun Íslands því ég fylgdi tilmælum hennar um að fara „alla leið“ við uppgerð hússins, sem er viss skuldbinding. Allt tók þetta tíma og kostaði sitt en ég sé alls ekki eftir því í dag. Ég fékk viðurkenningu frá umhverfis- og skipulagsráði árið 2016 fyrir hvernig til tókst og ég sé jafnvel ferðafólk á Akratorgi staldra við og taka myndir af húsinu mínu.

Á Akranesi hafa mörg hús á undanförnum áratugum verið rifin eða flutt burtu, auk þess sem nokkur hafa orðið eldi að bráð. Mér finnst það eiginlega vera ríkjandi viðhorf frekar en hitt að það sem er gamalt og lúið eigi að víkja – fyrir nýju! Og það skipti í raun ekki máli hvað kemur í staðinn, bara að þetta gamla og lúna víki. Ég hef verið að vona að tími niðurrifs á gömlum húsum í eldri hluta Akraness væri liðin tíð, að við værum búin að læra af reynslunni og hætt þessum æfingum. En nú stendur til að fjarlægja og rífa lúin hús við Suðurgötuna, eins og kom fram í greininni fyrir viku, og einnig gamla leikfimihúsið við Vesturgötu (Búkolluhúsið) sem er vissulega gamalt og lúið og ljótt eins og það er í dag. Flest er hins vegar hægt að laga, með góðum vilja.

 

Ég hef verið að lesa bókina Litbrigði húsanna eftir Guðjón Friðriksson þar sem hann rekur sögu húsafriðunar á Íslandi og þar kemur berlega í ljós að húsafriðun og uppgerð gamalla húsa hefur langt í frá gengið þrautalaust fyrir sig. Það gerðist til dæmis alls ekki af sjálfu sér að Bernhöftstorfan í Reykjavík fékk að standa. Áratugum saman stóð til að rífa það allt saman og byggja einhvers konar steinsteypuskrímsli þar sem gömlu húsin fallegu standa enn.

Ég hef líka eins og mörg ykkar haft mjög gaman af þáttum Egils Helgasonar; Bæir byggjast, og þar skín alltaf það sama í gegn. Það er hópur „sérvitringa“ sem oftar en ekki er kallaður „Fúaspýtufélagið“ eða eitthvað slíkt sem vekur máls á því að það sé nú kannski þess virði að bjarga þessu eða hinu húsinu, það þurfi að passa upp á sögu bæjarins og götumynd. Þessar skoðanir eru yfirleitt ekki meginstraumur fyrr en árangurinn fer að líta dagsins ljós, oft mörgum árum eða áratugum eftir að farið er af stað.

Hvað getum við lært af öðrum sveitafélögum eins og Seyðisfirði, Ísafirði, Stykkishólmi, Siglufirði og Akureyri? Hvað virkaði vel fyrir þessi sveitafélög og hvað hefði betur mátt fara? Fólkið sem sækir þessa bæi heim er ekki að koma fyrir blokkirnar og úthverfin, heldur elsta hluta bæjanna. Hingað gæti það líka komið vegna hafnarinnar og gömlu húsanna sem okkur Akurnesingum er svo mikið í mun að fjarlægja sem flest. Var nauðsynlegt að rífa Axelsbúð svo þar gæti verið … ekkert í dag? Þurfti að gefa Bjargarstein í Grundarfjörð svo hægt væri að geyma tjaldvagna á malarplaninu sem þar er í dag? Þurfti gamla Haraldarbúð að víkja svo hægt væri að hafa þar … gras? Það er reyndar langt síðan hún fór og þekking fólks á þessum málum ekki eins mikil og í dag.

Hvað hefði Bíóhöllin þurft að verða mikið lúin til að bæjaryfirvöld hefðu ákveðið að senda gröfurnar á hana? Það munaði ekki miklu að gamla Stúkuhúsið yrði jarðýtum að bráð fyrir 18 árum síðan. Því var bjargað á síðustu stundu. Og hvers vegna þurfti það að fara af sínum gamla stað þar sem það var byggt við Háteig árið 1916? Þar er í dag … ekkert.

Á undanförnum árum og áratugum hafa mörg hús úr gamla bænum fengið að fjúka sem væri gaman fyrir Akurnesinga að eiga í dag – þau nefnilega vantar í götumyndina. Hús eins og Geirsstaðir (Skólabraut) sem var flutt á safnasvæðið og bjargað þannig en mætti flytja aftur á sinn stað, Mörk (Skólabraut) sem brann 1989, Frón (Vesturgata) sem var rifið, Röst (Vesturgata) sem var rifin, Vindhæli (Vesturgata) flutt í Borgarfjörð, Sigurhæð (Bárugata) rifin, Hvítanes og húsin þar í kring á Kirkjubrautinni rifin, gamla Axelsbúð rifin, húsin fyrir neðan Bíóhöll sem sum voru rifin og önnur brunnu, Böðvarshús (Bakkatún) rifin og þannig má halda áfram að telja.

Það er ekki sjálfgefið að fólk sjái tækifæri í því sem er gamalt og ljótt. Við erum alin upp við að losa okkur við það sem við metum sem rusl og drasl. Fyrsta skrefið er kannski að fólk sé opið fyrir tækifærum og geti séð í gegnum þetta ljóta. Sum bæjarfélög hafa verið heppnari en önnur varðandi þetta. Stundum vegna þess að ekki var eftirspurn eftir lóðum þessara gömlu húsa og stundum vegna þess að fólkið sem hafði ákvarðanir um þessi mál í hendi sér ákvað að leyfa gömlu húsunum að njóta vafans.

Það þarf að verða hugarfarsbreyting eða vitundarvakning um að varðveita það gamla sem enn stendur og hlúa að umhverfinu og sögunni.

Ég legg til að við byrjum á að hætta við öll áform um að rífa gamla leikfimihúsið við Vesturgötu, elsta íþróttamannvirki Akurnesinga, hús sem Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði og Akurnesingar byggðu í sjálfboðavinnu. Það eru engin áform um að byggja neitt þar sem húsið stendur heldur einfaldlega hafa þar … ekki neitt. Kannski kyrrstæða bíla stundum, tjaldvagna eða kannski báta?

Er nóg að skrifa bækur um söguna og taka ljósmyndir? Eða er betra að geta gengið um söguna?

Mér finnst að það sé komið nóg af því rífa gömul hús í gamla bænum á Akranesi.

Hvað finnst þér?

Ólafur Páll Gunnarsson
Akurnesingur og formaður miðbæjarsamtakanna Akratorgs.