Akranes á betra skilið

Vilhelm Jónsson

Fátt virðist geta bjargað þjóðinni, almenningur þvargar og þvargar árum saman um að hann sé rændur sameiginlegri sjávarauðlind. Fleiri þúsund manna byggðarlag og forsvarsmenn væla eins og stunginn grís að HB Grandi ætli að taka lífsbrauðið þeirra og afkomu. Bæjarbúar ásamt öðrum landsmönnum hafa ekkert viðhafst þegar afkomu hefur verið kippt af sjávarbyggðum víðsvegar um landið og kallað hagræðing af útgerðafélögum, nú er komið að Akranesi.

Forstjóri HB Granda hefur Akranesbæ að leiksoppi með ögrunum og óbilgjörnum kröfum.

Hvorki HB Grandi eða stjórnvöld mega sín mikils rísi byggðarlagið upp af fyllstu hörku og láti ekki hvað sem er yfir sig ganga. Bæjaryfirvöld í þessu tilviki Akranesbær verður að þora að vera í fararbroddi og virkja samfélagið til að rísa upp gagnvart fyrirtæki sem hrifsa til sín aflaheimildir eins og um einkamál sé að ræða í boði stjórnvalda sem er lítið annað en þjófnaður á kostnað almennings.

Verkefnið er mun auðveldar en ætla mætti þar sem stærripartur af þjóðinni vill ekki núverandi fiskveiðastjórn sem ber að uppræta.

Blóð hefur runnið af minna tilefni en að lífsafkomu sé kippt undan heimilum og fyrirtækjum og útvaldir geti endalaust skammtað sér arðgreiðslur og hagsæld á kostnað almenning.

Akraneskaupstaður á ekki að semja við HB Granda um eitt eða neitt enda ekkert þangað að sækja nema sameiginlega sjávarauðlind. Bærinn þarf og verður að virkja sitt fólk og gera það sem hefði átt að vera búið fyrir mörgum árum að stöðva þjóðarglæp af illa hugsandi sérhagsmunaseggjum sem eru í engum tengslum við neitt nema eigin græðgi.

Þjóðin vill ekki núverandi fiskveiðastefnu og það ber að stöðva. Það eru ekki svo fáar fjölskyldur búnar að missa viðurværi og jafnvel allt sitt ásamt lífshamingju eða bundnir átthagafjötrum vegna verðlausra fasteigna.

Það er ansi hart að réttlætiskennd almennings skuli vera svo brengluð að augljós misskipting sé ekkert tiltökumál verði þeir sjálfir ekki fyrir henni.  Verði hagræðingar þörf til minnkunar í Grindarvik, Neskaupstað, Akureyri, Vopnafirði eða Vestmanneyjum mun örugglega hrikta víða í framantöldum sjávarbyggðum.

Íbúar á þessum stöðum munu ekki skilja fyrr hversu fiskveiðakerfið er glæpsamlegt og óréttlátt í boði stjórnvalda sem verður að uppræta.

Stjórnvöld bera höfuð ábyrgð hvernig komið er og hafa ekki pólitískan kjark til að fara gegn auðvaldinu, sægreifum og bankamafíunni þar sem ofsahagsmunir eru í gangi og krosstengslin mikil.

Fleiri aðsendar greinar