Akranes – allir með!

Valgarður Lyngdal Jónsson

Í bæjarstjórnarkosningum á Akranesi býður Samfylkingin fram sterkan hóp félagshyggjufólks. Við erum jafnaðarmenn, við erum drifin áfram af ósk um betra og réttlátara samfélag og við bjóðum okkur fram til að starfa af krafti og heilindum í þágu Akurnesinga. Við viljum halda áfram að byggja Akranes upp sem samfélag sem býður upp á jöfn tækifæri og jöfn lífsgæði fyrir alla.

 

Fjölbreyttur framboðslisti

Á listanum okkar má finna fólk á öllum aldri með fjölbreytta reynslu og þekkingu. Í okkar hópi eru iðnaðarmenn, verkamenn og almennir launþegar sem vita hvað það er að þurfa að leggja mikið á sig og vinna hörðum höndum til að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða. Við viljum að raddir þessa fólks fái að hljóma við stjórn bæjarins.

Í okkar hópi eru einnig ungir og kraftmiklir frambjóðendur sem komið hafa með nýja sýn og ferskar hugmyndir inn í stefnumótun okkar. Þetta er vel menntað fólk og þrátt fyrir ungan aldur býr það yfir mikilli og fjölþættri reynslu. Þetta eru einnig ungir foreldrar sem vita hvað það er að nýta þjónustu leikskóla og grunnskóla bæjarins og taka þátt í íþrótta- og frístundastarfi með börnunum sínum. Þetta er fólk sem er einmitt núna að ala upp börnin sín á Akranesi og við viljum að þetta fólk fái að hafa áhrif á það hvernig bæjarfélaginu er stjórnað.

 

Venjulegir Skagamenn

Frambjóðendur Samfylkingarinnar á Akranesi ganga fram með skýra sýn fyrir kosningarnar næstkomandi laugardag. Við viljum forgangsraða verkefnum í anda jafnaðarstefnunnar og við ætlum að sjá til þess að bætt fjárhagsstaða bæjarins skili sér til þeirra framkvæmda sem hafa þurft að bíða og til þeirrar þjónustu sem skera þurfti niður þegar skóinn kreppti.

Fyrst og fremst erum við öll venjulegir Skagamenn, við erum stolt af bænum okkar og okkur þykir vænt um þetta góða, hlýlega og skemmtilega samfélag sem við erum svo heppin að búa í. Við bjóðum okkur fram sem fulltrúar venjulegra Skagamanna við stjórn bæjarins og óskum eftir þínum stuðningi.

 

Valgarður Lyngdal Jónsson

Höfundur skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akranesi til bæjarstjórnarkosninga í vor.

Fleiri aðsendar greinar