
Ákall um lagfæringar á Sólmundarhöfða
Hafsteinn Sigurbjörnsson
Það er til skammar hve bæjaryfirvöld hér á Akranesi láta sig litlu varða gamlar minjar í eigu bæjarins. Á Sólmundarhöfða fyrir neðan dvalarheimilið Höfða eru gamlar minjar sem Akranesbær á og eru yfir hundrað ára gamlar. Þetta eru hlaðnir steinveggir og gömul hús og samfallinn brunnur rétt sunnan við það eina hús sem eftir stendur af þeim þremur býlum sem þarna voru. Sólmundarhöfði 1 stóð yst og vestast á höfðanum. Þar má sjá grasi gróinn hrygg sem var um kartöflugarð þess býlis. Sólmundarhöfði 2 er það hús sem enn stendur og Sólmundarhöfði 3 stóð syðst á höfðanum við suðurendann á hlaðna steinveggnum, þar sem nú stendur Höfðagrund 14 D.
Það er mikil gangandi umferð um gangstíginn fram með Langasandsbökkum og inn í Leyni og er þá farið framhjá þessum minjum.
Ég á heima á Höfðagrund 14 sem er ofan við stíginn inn á Leyni og geng oft þennan gangstíg og mæti þá fjölda fólks eins og gefur að skilja. Margir sem ég mæti á göngu minni fram hjá þessum minjum gefa sig á tal við mig og hneykslast á lélégri umhirðu um þessi verðmæti, svo ég er ekki einn um það.
Síðasti ábúandi á þessum gömlu býlum hét Sigursteinn og átti hann heima á Sólmundarhöfða 2. Hann var sérstakur og sérsinna og er hér skemmtileg staðfesting á því: Þegar bæjaryfirvöld og heilbrigðisstofnun fengu hann til að samþykkja að fara á Dvalarheimilið Höfða ákvað bærinn að kaupa húsið af honum. Mig minnir að Gísli S Einarsson hafi verið bæjarstjóri þegar þetta var og var honum falið að semja við Sigurstein um kaupin og mátti kaupverðið ekki vera meira en þrjár milljónir. Gísli ákvað að bjóða honum fyrst 2,5 milljónir en Sigursteinn sagði nei við því. Síðan voru boðnar 3 milljónir. Sigursteinn sagði aftur nei og spurði þá Gísli hvað hann vildi fá fyrir húsið; og þá kom svarið: 2 milljónir.
Það er mikil gangandi umferð um gangstíginn fram með Langasandsbökkum og inn á Leyni og er þá farið framhjá þessum minjum, ég er ekki einn um það. Þessi stutta grein er ákall til yfirvalda bæjarins.
Hafsteinn Sigurbjörnsson