Ákall heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni

Bjarni Jónsson

Eitt fyrsta verk Alþingis eftir að það hafði fengið bæði löggjafar- og fjárveitingarvald með Stjórnarskránni 1874 var að stofna læknaskóla og síðan að stofna læknishéruð og senda lækna út um allt land. Eru til margar sögur um hetjudáðir og afrek héraðslækna við að ná til sjúklinga og kvenna í barnsnauð. Góð heilbrigðisþjónusta er náði til allra landsmanna var talin ein af forsendum þess að Íslendingar gætu kallað sig sjálfstæða þjóð og jafnframt skyldu vegleysur né ófærð ekki standa í vegi fyrir aðgangi fólks að læknisþjónustu.

Þjóðin hefur haldið áfram að efnast og sex ára hagvaxtarskeið hefur nú skilað verulegum tekjuafgangi í ríkissjóð en samt er eins og ráðamenn dragi lappirnar þegar kemur að því að styðja við innviði í heilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega á landsbyggðinni.

 

Heilbrigðisþjónustuna til fólksins

Áður var það talið forgangsmál að koma með þjónustuna til fólksins þar sem héraðslæknarnir á landsbyggðinni komu í vitjanir heim til fólks. Síðar með því að byggja sjúkrahús og heilsugæslustöðvar þar sem fólkið bjó. Sjúkrahúsið á Akranesi, St. Franciskusspítalinn í Stykkishólmi, Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði og Héraðshælið á Blönduósi, svo dæmi séu nefnd, voru einmitt byggð og rekin til að koma læknis- og spítalaþjónustunni til fólksins. Þessar stofnanir minna á þann stórhug sem einkenndi uppbyggingu heilbrigðisþjónustu hérlendis á tuttugustu öld. En um leið og þjóðarhagur tók að vaxa var það forgangsmál að byggja upp heilbrigðiskerfið um allt land.

Nú hefur dæmið snúist við og virðist stefnt leynt og ljóst að því að fullmektug heilbrigðisþjónusta verði í raun aðeins í boði á einum stað á landinu – í Reykjavík. Þangað verða allir landsmenn að sækja óháð búsetu, hvort sem er vetur eða sumar, ófærð eða stórviðri. Það tala allir um nýjan Landsspítala, gott og vel, en hvað um að efla gott starf á Sjúkrahúsinu á Akranesi eða sérhæfða þjónustu, meðferð og enduhæfingu við sjúkrahúsið í Stykkishólmi?

 

Ljósmóðirin eina á Vestfjörðum

Nýleg frétt á BB á Ísafirði er því miður táknræn fyrir það sem íbúar í heilum landshlutum standa frammi fyrir. En aðeins ein ljósmóðir sinnir nú fæðingaþjónustu á Ísafirði fyrir alla Vestfirði. En þeir hafa verið sameinaðir í eina stofnun á Ísafirði, þótt vegir séu lokaðir innan fjórðungsins mánuðum saman að vetri. Afleysingamanneskja verður að kom að sunnan en flugsamgöngur geta verið stopular til og frá Ísafirði eins og fjölmörg dæmi sýna. Samkvæmt sömu frétt þurfa verðandi mæður jafnvel að fara í ómskoðun til Reykjavíkur vegna þess að tækið sem notast er við á Heilbrigðisstofnuninni á Ísafirði „er bæði gamalt og lélegt og mikil þörf á endurnýjun,“ eða vantar sérhæfða ljósmóður. Þótt ferðakostnaður sé niðurgreiddur að einhverju frá Tryggingastofnun er ljóst að mikill kostnaður, vinnutap og óöryggi fylgir því að þurfa sækja alla þessa þjónustu suður til Reykjavíkur.

 

Landsbyggðin kallar

Mér er það fullljóst að það er ekki hægt að hafa hámenntaða sérfræðilækna á hverjum stað né heldur að hægt sé að framkvæma flóknar læknisaðgerðir á mörgum stöðum. Hins vegar skiptir máli að fólk hafi aðgang að ákveðinni grunnþjónustu þar sem það býr – ella getur það ekki búið þar. Þetta á við um þjónustu sem fólk þarf á að halda með reglubundnum hætti til þess að geta notið fullra lífsgæða, svo sem hjá þeim sem glíma við einhverja fötlun eða ýmsa króníska kvilla sem vilja oft safnast upp eftir því sem ævin lengist. En einnig læknisþjónustu í viðlögum – hjálp sem fólk þarf á að halda með stuttum fyrirvara, svo sem vegna slysa eða skyndikvilla eða fæðingarhjálp. Hver kannast ekki við að hafa setið yfir veiku barni og velt því fyrir sér hvort nauðsyn sé til þess að kalla til lækni eða ekki.

 

Tökum upp kyndilinn

Aðgangur að heilbrigðisþjónustu er einn lykilþátturinn í því að tryggja búsetu um landið allt. Jafnframt er það staðreynd að landsbyggðin hefur látið yfir sig ganga að innviðir þjónustunnar hafa molnað niður eða einfaldlega verið lokað í nafni hagræðingar. Þessu verður hins vegar að snúa við og það ætti að vera forgangsmál hjá þingmönnum landsbyggðarkjördæma. Uppbygging – eða kannski öllu heldur endurreisn – heilbrigðisþjónustunnar er það framfaramál sem brennur á þjóðinni. Málið snýst um að kjörnir fulltrúar taki upp kyndillinn og beri hann áfram.

 

Bjarni Jónsson.

Höfundur gefur kost á sér í 1. sæti á lista VG í forvali í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar