Áhyggjulaust ævikvöld?

Ingi Hans Jónsson

Þegar maður hefur ekki nóg að gera eru mestar líkur á að maður geri einhverja bölvaða vitleysu. Eins og ýmsir hafa sjálfsagt tekið eftir hef ég ákveðið að gefa kost á mér í forvali Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi. Nú er það ekki svo að von mín um að hljóta þingsæti ráði þar för. Enda svo sem ekkert líklegt að svo muni fara, hreppi ég þriðja sæti listans. Ásetningur minn snýst miklu heldur um tækifæri til að taka þátt í umræðunni og geta sett mark mitt á hana.

Það ríkir upplausn í íslenskum stjórnmálum og margt sem bendir til þess að mörg þeirra kerfa sem ríkt hafa séu að brotna upp. Og við megum ekki óttast breytingar heldur miklu heldur að reyna að taka þátt í þeim og leggja þar með breytingum lið. Allar þessar hræringar verða með einhverjum hætti að gerast í sátt sem er grundvölluð á upplýstri umræðu. Eða með öðrum orðum, við verðum að tala saman, deila skoðunum og reyna að komast að sanngjarnri niðurstöðu.

Margt er viðfangsefnið og víða mætti drepa niður fæti. Mér er þó efst í huga sú alvarlega staða sem blasir við eldra fólki. Þjóðin er að eldast og margir þeirra sem bætast munu í þann hóp á næstu árum verða mjög illa staddir við þær aðstæður sem nú eru. Verðtryggða kynslóðin er að verulegu leiti eignalaus og við blasir að það félagslega kerfi sem nú er, mun ekki nægja og nægir ekki í dag. Þó hjón geti í dag hugsanlega skrimt við núverandi aðstæður má fátt útaf bregða. Og getum við sætt okkur við það að við fráfall maka blasi nánast gjaldþrot við þeim sem eftir lifir? Þetta er eitt af þeim málefnum sem ég vil leggja áherslu á. Er það svona sem efndir kynslóðanna eru gagnvart kjörorðinu „Áhyggjulaust ævikvöld“?

Ekki get ég neinu lofað um að gagn verði af minni þátttöku en ég mun láta rödd mína heyrast.

Með kærri kveðju,

Ingi Hans Jónsson.

Fleiri aðsendar greinar