Agnarsmá veröld með einsetumunkum

Geir Konráð Theódórsson

Núna þrái ég ekkert meira en að upplifa ferst og kalt íslenskt vor! Ég sit hér heima í Níger á skuggsælum stað og vona að hleðslan á tölvunni dugi til að skrifa pistilinn. Það er 44°C hiti, rafmagnið er farið af hverfinu og ég horfi með löngunaraugum á loftkælingarapparatið sem virkar ekki. Mér líður ögn furðulega og mér finnst eins og ég sé að ofhugsa allt.

Kannski líður mér svona af því að ég hef verið að berjast við matareitrun í rúma viku, og bara svo að við getum öll haft þessa lexíu á bakvið eyrað – sama hvað þú ert leiður á því að elda heima þá er heimsendur matur frá vafasömum veitingastað í vanþróaðasta landi í heimi ekki góð hugmynd. Mögulega er þetta bara matareitrunin en ég held að viðhorfsbreytingin mín sé líka sprottin upp úr þessari félagslegu einangrun. Erum við ekki kannski öll eins og einhver einsetumunkur á miðöldum þessa dagana, afsíðis og frjáls frá amstri samfélagsins, með ofgnótt af tíma fyrir höndum til að íhuga tilgang lífsins?

Ó þvílík blessun, rafmagnið virkar aftur. Best að faðma loftkælingarapparatið!

Jæja, núna þegar mér líður ögn betur og hugsa mig um þá er þetta kannski bara bull í mér, kannski er munkatilfinningin ekki yfirgnæfandi ef nútíma þægindi virka og maður hefur til dæmis aðgang að Netflix til að dreifa huganum. Vandinn er að hérna í Níger er ekkert Netflix, hérna hef ég rétt svo betri aðgang að internetinu en einhver munkur á miðöldum. Ég tek internetinu ekki lengur sem sjálfsögðum hlut. Þegar rafmagnið virkar og ég næ að tengjast netinu þá er litla svarta raftækið í höndunum mínum orðið allt í einu að glugga að uppsafnaðari þekkingu mannkyns, ásamt þeim möguleika á að tala við milljarða af fólki hvar sem er á Jörðinni. Ég upplifi þetta sem dýrmæta stund sem ber að fara vel með. Núna þegar ég er tengdur þá er eitt á internetinu sem ég veit að lætur mér líða betur, myndbandið Pale Blue Dot á Youtube.

Árið 1990 var könnunargeimfarið Voyager 1 á ferð framhjá Satúrnusi og ákveðið var að snúa geimfarinu þannig að hægt væri að taka mynd af Jörðinni, en Jörðin er þar svo langt í burtu að hún sést bara eins og fölur blár punktur á myndinni. Eftirfarandi hugrenningu, sem ég hef lauslega þýtt hér yfir á íslensku, skrifaði stjörnufræðingurinn Carl Sagan þegar hann sá þessa fjarlægustu mynd sem hingað til hefur verið tekin af Jörðinni okkar:

,,Frá þessum fjarlæga sjónarhóli virðist Jörðin ekkert sérstaklega áhugaverð. En fyrir okkur mannfólkið er þetta öðruvísi. Horfðu aftur á þennan punkt. Þetta er hér. Þetta er heimilið okkar. Þarna erum við. Þarna hafa allir sem þú elskar, allir sem þú þekkir, allir sem þú hefur nokkurn tíma heyrt um, hver einasta manneskja sem til hefur verið, eytt ævi sinni.

Samanlögð gleði og sorg okkar allra, þúsundir af sjálfsöruggum trúarbrögðum, hugmyndafræðum og efnahagslegum kenningum, hver einasti veiðimaður og safnari, hver einasta hetja og heigull, hver einasti skapari og tortímandi siðmenningar, hver einasti konungur og kotbóndi, hvert einasta ástfangið ungt par, hver einasta móðir og faðir, vongott barn, uppfinningamaður og landkönnuður, hver einasti siðfræðispekingur, hver einasti spillti stjórnmálamaður, hver einasta stórstjarna, hver einasti æðsti leiðtogi, hver einasti dýrlingur og syndari í sögu mannkyns lifði lífi sínu þarna – á rykkorni sem svífur um í ljósgeisla.

Hugsaðu þér blóðsúthellingarnar af völdum allra þessara hershöfðingja og keisara svo þeir gætu, í dýrðarljóma og sigurvímu, orðið tímabundnir valdsherrar á brotabroti af punkti. Hugsaðu þér alla þá endalausu grimmd sem íbúar eins hornsins á þessum punkti beita öðrum vart aðgreinanlegum íbúum einhvers annars horns, hve oft þeir misskilja hver aðra, hve áfjáðir þeir eru um að drepa hver aðra, hve ákaft hatur þeirra er.

Okkar sýndarmennska, okkar ímyndaða mikilvægi, okkar sjálfsblekking um að við gegnum einhverri forréttindastöðu í alheiminum, er í algjörri andstöðu við þennan punkt á bláu ljósi. Hnötturinn okkar er einmanna ljósblettur umlukinn hinu mikla myrkri geimsins. Við erum sannarlega smávægileg, og í allri þessari víðáttu þá er enginn vísbending um að hjálp muni berast annars staðar frá, til að bjarga okkur frá okkur sjálfum.

Hingað til er Jörðin eini hnötturinn sem við vitum um þar sem lífið nær að þrífast. Hvergi annars staðar, að minnsta kosti í náinni framtíð, gætum við sem mannkyn flutt búferlum. Heimsótt, já. Setjast að, ekki strax. Á þessu augnabliki, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá er Jörðin sá staður þar sem við stöndum eða föllum.

Það hefur verið sagt að stjörnufræði sé uppbyggjandi reynsla og geri mann auðmjúkan. Ef til vill sýnir ekkert betur hvað sjálfumgleði mannkyns er hrokafull en þessi mynd af fjarlægri og agnarsmárri veröld okkar. Fyrir mér undirstrikar þessi mynd ábyrgð okkar að hugsa betur hvort um annað og varðveita og vernda föla bláa punktinn, eina heimilið sem við eigum.”

Þó að maður sé afsíðis eins og einsetumunkur, þó ég þrái ferskt og kalt íslenskt vor og þó að maginn sé slæmur og hitinn sé steikjandi – þrátt fyrir allt þá nær þessi hugrenning um okkar agnarsmáu veröld einhvern veginn að fá mig til að íhuga tilgang lífsins með þakklæti og bros á vör.

 

Geir Konráð Theódórsson í Níger.

Fleiri aðsendar greinar