Ágæta stuðningsfólk!

Bjarni Jónsson

Snarpri kosningabaráttu er lokið. Við í Norðvesturkjördæmi getum verið stolt af góðum árangri Vinstri grænna. Hreyfingin fékk 18,1% atkvæða sem hefði að öllu eðlilegu átt að skila okkur tveimur þingmönnum. Flokkurinn jók fylgi sitt á landsvísu í 15,9% og er útkoma okkar í þeim samanburði glæsileg. Þetta er önnur bestu útkoma flokksins í kjördæminu frá stofnun hans en árið 2009 fékk hann 22,8% og þrjá menn kjörna.

Skoðanakannanir höfðu sýnt allt kjörtímabilið að flokkurinn átti í vök að verjast í kjördæminu miðað við fylgi hans á landsvísu og kannanir síðastliðið vor bentu til þess að fylgi flokksins yfir landið væri hvað lakast í NV kjördæmi. Við fundum fyrir miklum meðbyr síðustu vikur og í kosningunum á laugardaginn ríflega tvöfaldaðist fylgið frá síðustu kosningum, sem er jafnframt helmingi meiri aukning en hjá hreyfingunni á landsvísu og kjörfylgið hér er nú talsvert yfir kjörfylgi flokksins yfir landið.

Við vissum öll að 2. sætið var baráttusæti og gæti farið á báða vegu. Ég viðurkenni fúslega að hafa lagt mig allan fram, hef farið um allt kjördæmið, ekið vegina holótta og skrikkjótta og veit hvað þar brennur á fólki. Ég hef hitt og kynnst fjölda fólks víðsvegar um kjördæmið og fyrir það er ég þakklátur. Annað sætið er nú varaþingmannssæti og ég vænti þess að fá tækifæri til að koma málefnum kjördæmisins á framfæri á Alþingi en einnig að vinna að innra starfi hreyfingarinnar í kjördæminu.

Ég vil þakka öllu stuðningsfólki fyrir það traust og hvatningu sem það hefur sýnt okkur í baráttunni. Á framboðslista okkar voru öflugir einstaklingar og baráttusveit sem bæði í krafti hugsjóna, reynslu og metnaðar vilja gera vel fyrir íslenskt samfélag. Hópur sem í sameiningu vann góðan kosningasigur í NV kjördæmi. Meðframbjóðendum á listanum þakka ég gott samstarf og skemmtilega kosningabaráttu.

Bjarni Jónsson

Fleiri aðsendar greinar