
Ágæta sóknarfólk í Borgarsókn á Mýrum!
Einar Óskarsson
Ég hef nú gegnt starfi sóknarnefndarformanns og kirkjugarðsvarðar að Borg um árabil og reynt að gera það svo vel sem mér hefur verið fært. Starfinn er svosem ekki ýkja erfiður eða mikill en samt fylgir alltaf eitthvað amstur og fyrirhöfn svosem við útfarir og slíka vinnu og ýmis smáhandtök í kringum kirkju og garð.
Nú sækir á Elli kerling og maður verður seinfær og værukær með aldrinum svo nú er kominn tími til að yngri kynslóðin taki við ef halda á áfram sama formi og verið hefur frá u.þ.b. árinu 1000.
Ég vil helst ekki blanda mér mikið í framhaldsmálin enda styttist í að ég fái minn framhaldsbústað í eilífðinni svo rétt er að þeir sem lengra eigi í þann stað fái að koma fram með ný tök á málunum og gera þær ráðstafanir sem þurfa þykir.
Aðalsafnaðarfundir í Borgarsókn hafa gjarna verið haldnir að vori og því kannski heppilegast að viljugur aðili sem fengist í starfann muni taka við á slíkum fundi þó ekki sé það svosem skilyrði.
Ég vona að einhver sé tilbúinn til að taka starfann að sér og jafnvel reyna að leggja í þann slag að setja einhvern kraft í að fá þessu rúmlega 1000 ára fyrirkomulagi breytt til samræmis við nútímann en vil ekki blanda mér í það enda finnst mér ekki við hæfi að gera það nú eftir allan þennan tíma í starfanum en ekki hreyft mig að ráði í þá veru enn.
Ég reyndi raunar einu sinni að fá sveitarfélagið að málum þarsem Borg er grunnurinn að byggð hér í Borgarfirði en það var slegið eftirminnilega á fingurna á mér með það erindi svo ég hreyfði því ekki meira.
Persónulega finnst mér að rekstur grafreita sé samfélagsmál en ekki trúarlegt líkt og fæðing okkar er samfélagsleg en sjaldnast trúarleg enda er dauðinn ákaflega eðlilegt framhald lífs líkt og verið hefur frá upphafi. Ég vona samt að minn eftirmaður muni standa sig betur í þessu en ég og enn frekar vona ég að einhver sé tilbúinn til að koma og takast á við þetta starf. Ég að minnsta kosti er kominn að mínum leiðarlokum í þessum starfa og þakka fyrir mig enda hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa gott fólk með mér og sveitungar mínir verið drjúgir í að vinna með mér.
Ég sendi hér semsagt út áskorun á ykkur sóknarfólk í Borgarsókn og veit að margir eru vel færir um þetta starf og gætu vel verið í framlínu framfara í sóknarstarfi. Ég veit ekki hver muni vera „rétta“ leiðin í svona ferli en vona að enginn taki þessu illa upp þó ég fari þessa leið í gegnum okkar ágæta fjölmiðil sem flestir lesa.
Bestu kveðjur til ykkar allra,
Tungulæk 31.07.2023
Einar Óskarsson