Afsakaðu ef ég kalla þig snilling

Steinunn Eva Þórðardóttir

Yfirmaður eða kennari sem er stjórnsamur og treystir þér ekki til að gera sjálf það sem þú átt að gera, dregur úr starfsgleði og eykur líkur á kulnun. Það að treysta fólk til að vinna vel er hvetjandi og að sýna áhuga og stuðning er miklu áhrifaríkara en að fylgjast með og gagnrýna eða stjórna nákvæmlega, samkvæmt kenningum um sjálfsákvörðun (Self-Determination Theory, eða SDT).

Hól er vissulega gott en það skiptir miklu máli hvernig það er gefið. Ekki segja: „Þú ert snillingur að fá svona hátt á prófinu,“ eða; „þessi ritgerð er frábær.“ Heldur vera nákvæm og heiðarleg: „Mjög skemmtileg byrjun á ritgerð”, eða „Það borgaði sig hjá þér að læra svona vel fyrir prófið og fá 8.“ Skemmst frá að segja ströglar undirrituð við að tileinka sér þetta, bið fólk innilega að afsaka ef ég segi það snillinga, en ekki bara er ég alin upp við að það eigi alls ekki að hæla fólki, heldur þegar ég frétti loksins að það væri sniðugt, fylgdi þetta með nákvæmnina ekki með. En svo lengi lærir sem lifir og ég ekki bara reyni að læra og æfa nýjungar heldur deili með mér því sem ég læri. Talandi um nám þá er það best fyrir nemendur að líða eins og þau geti gert það sem ætlast er til af þeim daglega. Það að nemendur hafi verkefni sem hæfir getu, er gríðarlega mikilvægt. Ef verkefni er of létt læra þau ekkert, en ef það er of þungt eru þau hræðilega fljót að læra vonleysi og bjargleysi sem leiðir til þess að þau hætta að reyna sem þýðir að kvíði og depurð storma að. Sem gamalreyndur kennari tel ég að nemendur séu upp til hópa búnir að tileinka sér einhverskonar bjargleysi á framhaldsskólaaldri, þó að þeir séu ekki í sama mæli raunverulega þunglyndir. Skólinn og námið á bara að vera erfitt og leiðinlegt sama hvað! Lært hjálparleysi er reyndar notað sem annað orð yfir þunglyndi þó að þetta séu kannski ekki alveg samheiti.

En það eru fleiri atriði sem hafa áhrif á þunglyndi. Unglingar sem leggja meira uppúr efnahagslegum gæðum frekar en að vera í góðum félagslegum tengslum eru í aukinni hættu á þunglyndi. Krakkar sem eru duglegir að hjálpa til eða vinna sjálfboðastörf eins og í björgunarsveit finna þar hinsvegar margt sem verndar og er uppbyggilegt. Það helsta er óeigingirni, jákvæð tengsl og merking. Tilgangur björgunaraðgerða er oftast morgunljós, annað en t.d. þetta með að læra algebruna. Það að vinna að þeim með samstilltum, faglegum hópi án þess að hafa af því annan hag en að gera gagn er sem betur fer afar heilsusamlegt fyrir fólk.

Hamingja kemur þegar grunnþörfum er sinnt og við höfum sjálfræði og óeigingjörn markmið í lífinu, segir dr. Ingibjörg Kaldalóns sem er mikil hugsjónkona varðandi nám og að fólk tileinki sér SDT.

 

Með kveðju,

Steinunn Eva Þórðardóttir