Afrísk þunglyndislyf í litríku fataformi

Geir Konráð Theódórsson

Lífið mitt hér í Níamey í Níger er búið að vera frekar furðulegt en þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég farinn að venjast því, þrátt fyrir stuttan tíma og alvarleg veikindi kærustunnar. Í pistlinum í síðustu viku fagnaði ég batnandi heilsu kærustunnar aðeins of snemma, því daginn eftir að blaðið fór í prentun var hún greind með alvarlega lungnabólgu og við tóku erfiðir dagar á sjúkrahúsinu. En núna, ég banka þrisvar í borðið á meðan ég skrifa þetta, er hún blessunarlega orðin mun betri og heilsan batnar með hverjum degi. Hópur lækna og sérfræðinga frá Sameinuðu þjóðunum stóðu hérna yfir okkur á sjúkrahúsinu, kinkandi kolli á meðan þeir fóru yfir niðurstöðurnar úr blóðprufunni, og sögðu að hún yrði vonandi útskrifuð í dag.

En ég vil ekki bara deila með ykkur sjúkrasögum eða mála áfram framandi mynd í huga ykkar með fleiri sögum úr stjórnlausu umferðinni hérna í borginni, samt langar mig pínu að segja ykkur frá því þegar ég var stoppaður af lögreglunni og síðar af hernum, en það má bíða betri tíma. Það er svo margt annað hérna sem er jákvætt og áhugavert, eins og til dæmis það sem ég tel vera eins konar þunglyndislyf í litríku fataformi.

Þeir sem þekkja til mín í Borgarnesi og víðar vita að ég á það til að klæða mig í litrík föt, sérstaklega á veturna. Fjölskyldumeðlimir og fleiri hafa ýjað að því að klæðaburður minn í gegnum tíðina sé mögulega nær því að vera trúðslegur, og boðandi von um að sirkus setji aftur upp tjöld í bænum, frekar en mínar eigin glæstu hugmyndir um að vera brautryðjandi í innlendri fatatísku. Hvað sem öðrum finnst þá þykir mér bara voða gott að klæða mig í þægileg og skemmtileg föt, en ég tel það líka vera mér bara lífsnauðsynlegt fyrir andlegu heilsuna á myrkum vetrardögum. Mér þykir svo gott að fá bara smá lit og gleði í umhverfið mitt. Auðvitað eru þunglyndismál mun flóknari og alvarlegri en mitt blaður um litrík föt gefur kannski til kynna, en af eigin reynslu tel ég þetta geta hjálpað smá til í bland við allt annað sem þarf til að viðhalda góðri andlegri heilsu.

Hérna í höfuðborginni í Níger er ég svo sannarlega á meðal fólks sem kann að meta litríkan fatnað og hér hefur enginn kallað mig trúð. Það er erfitt að koma orðum að því hve mikið það gleður mig að ganga um markaði hérna og skoða fataefnin. Litirnir og mynstrin eru svo fjölbreytt og dáleiðandi og þau draga mig ávallt nær og nær, kóngabláar mandölur í bland við fjólublá og gul augu sem Salvador Dalí gæti hafa dreymt um, ég verð bara að leyfa augunum að njóta. Áður en ég veit af hef ég keypt marga metra af hamingju í fataformi og er gangandi að næsta verslunarbás alveg skælbrosandi.

Þetta er einmitt einn af stóra muninum á verslunarháttum hér í Níger miðað við heima á Íslandi. Í Niamey er auðvitað hægt að fara út í búð til að kaupa föt, en hérna fer stór hluti af fólki frekar á opnu markaðina og kaupir í staðinn fataefni sem það notar til að sauma sín eigin föt. Þrátt fyrir að hafa elskað fatahönnunartímana í Grunnskólanum í Borgarnesi þá fór Husqvarna saumavélin hennar mömmu ekki með mér hingað í ferðatösku. Kærastan er nefnilega búin að vera hérna í þó nokkra mánuði og komin með gott tengslanet, svo gott tengslanet að við erum með okkar eigin klæðskera. Hann Akim er algjör meistari og sjaldan hef ég upplifað jafnmikið fatatengt dekur og kvöldið þegar hann kom til okkar í heimsókn. Við drukkum ískaldan engifersafa og ræddum um lífið í Níger og komandi kosningar, ég tala auðvitað ekki frönsku enn sem komið er, en kærastan þýddi, og svo var málbandið dregið fram og við mæld fram og tilbaka. Heilu metrunum af hinu og þessu dásamlega og litríka efni var stillt upp og við lýstum hugmyndunum okkar um klæðnað á meðan hann skrifaði og skissaði. Ég vildi svo margt en ég varð að stilla hugmyndum mínum í hóf og átta mig á að Akim var bara mennskur, hann getur bara saumað ákveðið mikið á einni viku. Það bíða mín núna buxur, tvær skyrtur og einhverskona kyrtill og Akim er líka að búa til kjól, buxur, skyrtu og pils fyrir kærustuna. Mennskur er hann kannski en mér þykir samt undravert og dásamlegt að hann geti afkastað svona miklu á svona stuttum tíma.

Ég mun koma heim til Íslands í desember til að njóta jólanna með fjölskyldunni og ég verð að játa að ég hlakka mikið til að koma heim í myrkrið, líklegast skínandi í nýju fötunum eins og lifandi jólaskreyting í allri minni tilvonandi litadýrð. Sum ykkar munu kannski sjá mig og brosa og jafnvel kalla mig trúð, en ég vona að það bros létti líka lundina. Hver veit, kannski mun draumur minn um að verða brautryðjandi í innlendri fatatísku loksins verða að veruleika, kannski mun dökki og grái vetrarklæðnaðurinn hjá fleirum en bara mér fá að víkja fyrir léttum litum sem lýsa upp myrkrið, og kannski lundina líka. Kannski getur undramennið Akim jafnvel farið að sérhanna, senda og selja litrík föt til Íslands, hver veit?

Geir Konráð Theódórsson

Höfundur er borgneskur, litríkur ævintýramaður sem elti ástina til Níger.

Fleiri aðsendar greinar