Áframhaldandi vegtollar í Hvalfjarðargöngum?

Jens B. Baldursson

1) Margir bæjarbúar á Akranesi fengu áfall þegar bæjarstjórn Akraness fagnaði því nú í des. 2018 að aftur yrðu lagðir á vegtollar líkt og verið hefur í Hvalfjarðargöngum undanfarin 20 ár. Í ályktuninni er talað um flýtigjöld en ekki vegtolla en jafnframt vitnað í reynslu Spalar af innheimtu veggjalda þannig að bæjarstjórnin hvetur líklega til hliðstæðrar gjaldtöku áfram. Ég leyfi mér að efast um að meirihluti bæjarbúa sé fylgjandi áframhaldandi gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum eða annars staðar á leiðinni til höfuðborgarsvæðisins. Alla vega hef ég ekki heyrt af neinum utan bæjarstjórnarinnar.

2) Nú eru Hvalfjarðargöngin uppgreidd og ekki lengur innheimt veggjöld eins og lofað var í upphafi. Enda óþarfi að greiða margfalt fyrir sömu framkvæmd. Það stóð þó tæpt, margir vildu halda gjaldtökunni áfram. Fyrir síðustu Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar mátti heyra ýmsa stjórnmálamenn hér á Akranesi og í Norðvesturkjördæmi ympra á ágæti þess að halda áfram gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum. Þær raddir hljóðnuðu fyrir kosningar og bæjarstjórn Akraness ályktaði gegn gjaldtöku. Þess vegna er nýleg ályktun bæjarstjórnar Akraness um að taka upp gjaldtöku algjört sjokk fyrir okkur kjósendur.

3) Ég og flestir sem ég hef heyrt af hér á Akranesi fögnuðum því þegar Hvalfjarðargöng voru tekin í notkun. Og samþykktum að greiða veggjöld í 20 ár því ljóst var að annars yrði ekki lagt í þessa fínu framkvæmd. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi töldu t.d. að margar aðrar framkvæmdir væru miklu mikilvægari en að grafa göng undir Hvalfjörðinn. Veggjöld eru því ekki algerlega útilokuð þó þau beri að forðast nema við mjög sérstakar aðstæður og alls ekki samþykkja nein slík gjöld nema eftir langa og ítarlega umfjöllun þar sem almenningi gefst kostur á að tjá sig. Helst þarf að kjósa í millitíðinni áður en veggjöld eru samþykkt á einhverjum vegum. Alls ekki má rasa um ráð fram og taka slíkar ákvarðanir með viðlíka flumbrugangi og nú er í gangi.

4) Framsetning veggjaldasinna eða flýtigjaldasinna (eða frekar vegtollasinna) á hugmyndum sínum er afar margbreytileg og flaustursleg. Ljóst er að málið er fullkomlega vanreifað. Spurðu þrjá fylgjendur gjaldtöku og þú færð þrjú mismunandi svör um hvaða vegi eigi að leggja með veggjöldum. Yfirleitt eru það samt vegir til og frá höfuðborgarsvæðinu sem vegtollasinnar vilja leggja á vegtoll. Ekki vegir innan höfuðborgarsvæðisins og aldrei heyrir maður um vilja til að leggja á vegtolla á Vestfjörðum, Norðurlandi eða Austurlandi. Varla er ymprað á hugmyndum um veggjöld í öðrum göngum en Hvalfjarðargöngum. Harðsvíruðustu vegtollasinnar nefna raunar gjaldtöku á öllum vegum á landinu, að manni skilst með myndatökum eða guð má vita hvernig.

5) Stundum er sagt að nauðsynlegt sé að leggja á vegtolla vegna þess að tekjur af eldsneytisgjöldum fari minnkandi. Til að leysa það þarf ekki rándýrt og ósanngjarnt vegtollakerfi. Einföld og margreynd skattlagning á bíla er að lesa af kílómetramælum. Þetta var gert við minni díselbíla áður fyrr en einnig var mögulegt að greiða fastan skatt en sleppa álestrinum.

6) Allur kostnaður við vegaframkvæmdir mun rjúka upp þar sem vegtollar verða lagðir á. Í versta falli margfaldast ef vegirnir verða í eigu einkafyrirtækja sem munu þurfa að greiða eigendum sínum sífellt meiri arð að viðbættum háum fjármagnskostnaði og hvað þau nú heita aukagjöldin og sporslunar sem einokunarfyrirtæki geta lagt á „vöru“ sína. Maður heyrir fáa tala um einkavegi en samt eiga fyrirtæki eins og Spölur að sjá um framkvæmdir. Sannið til, einhver fjármálaöfl munu eignast vegina og græða á okkur hinum. Við sjáum af Hvalfjarðargöngunum að aðeins hluti veggjaldanna fór í vegaframkvæmdir, annað í alls konar gjöld og sporslur. Hluti af gjaldtökunni vegna Hvalfjarðarganga fór t.d. í að greiða virðisaukaskatt auk þess sem þurfti að greiða stjórn og starfsmönnum. Kannski ekki óhófleg gjöld, ekki veit ég það, en þó verða gjöldin örugglega mun hærri í framtíðinni þegar gróðaöflin verða yfirgangssamari á þessu sviði eins og öðrum í okkar samfélagi.

7) Umræður um vegtolla eru sannast sagna á köflum ansi hrollvekjandi, sérstaklega fyrir okkur Skagamenn. Einn Garðbæing sá ég á Facebook berjast ötullega fyrir því að haldið yrði áfram gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum til að hægt væri að fjármagna fína vegi og jarðgöng á Vestfjörðum! Meira að segja stjórnmálamenn sem vildu áframhaldandi veggjöld voru ekki svo ósvífnir, þeir héldu því fram að tvöfalda þyrfti Hvalfjarðargöng og því ætti að halda áfram gjaldtöku. Flestir vegtollasinnar voru þó með svipaðar hugmyndir , „ríka“ þéttbýlið á suðvesturhorninu á að greiða vegtolla, ekki aðrir landsmenn sem eiga að fá göng og fína vegi ókeypis. Sérstaklega virðist það vera hugsjón margra að kvelja okkur íbúa í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

8) Verst af öllu við þessar hugmyndir um vegtolla er að stjórnmálamenn vilja innheimta tekjur áður en ljóst er í hvað tekjurnar fara og áður en fram hafa farið ítarlegar umræður um málið. Munu fjármálaöfl og ríkir einstaklingar fá einokunarstöðu til að féfletta almenning í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur?  Íslenskum stjórnmálamönnum í dag er því miður alls ekki treystandi, þeir virðast fyrst og fremst hugsa um eigin hag og að gæta hagsmuna hinna ríku og sterku í samfélaginu. Og það ástand á eftir að versna, rétt fyrir þinglok samþykktu þingmenn stóraukin framlög til eigin þingflokka sem mun styrkja stöðu þeirra gegn heiðarlegu fólki sem vill bjóða sig fram gegn þeim.

9) Hér hefur aðeins verið tæpt á nokkrum atriðum sem mæla gegn vegtollum, þessari gamaldags innheimtuaðferð sem víða tíðkaðist á lénstímanum. Þó ekki megi alfarið útiloka slíka innheimtu þá held ég að stjórnmálamönnum sem nú ráða á Alþingi sé ekki treystandi til að nota vegtolla skynsamlega og af sanngirni (ef það er þá hægt). Og þeir munu ótilneyddir aldrei leggja nein gjöld af þó búið sé að greiða framkvæmdina upp að fullu. Almenningur verður því að standa saman gegn öllum flausturslegum hugmyndum um ósanngjarnar álögur.

 

Jens B. Baldursson.
Höf. er Akurnesingur á eftirlaunum.