Áfram veginn

Halla Signý Kristjánsdóttir

Nú er kjörtímabilið hálfnað og tvö ár frá því ég var kjörin fyrst á Alþingi. Fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að fá þetta tækifæri og hafa þessi tvö ár verið bæði skemmtileg og fjölbreytt.

Ég hef fengið tækifæri til að vinna með frábæru fólki, kynnst málefnum og fengið að vinna að mikilvægum málum inn á þingi og úti í kjördæminu. Ekki síst hefur verið frábært að vinna með ríkistjórn sem komið var á eftir kosningar. Þetta er sú ríkisstjórn sem þurfti að koma á til ná fram félagslegum, efnahagslegum og pólitískum stöðugleika í landinu. Þegar kjörtímabilið er hálfnað má þegar sjá að ríkisstjórnin sem spannar hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri hefur náð að slá nýjan tón, eins og segir í markmiði í stjórnarsáttmála hennar og náð að setja á fót lykilverkefni sem þjóðinni var mikilvægt eftir óreiðu síðasta ártugar.

Öflug liðsheild

Framsóknarflokkurinn kom átta þingmönnum að í síðustu kosningum, þar af fimm konum. Þessi hópur hefur staðið þétt saman og liðsheildin er sterk. Ráðherrar okkar hafa unnið að mikilvægum málum og ekki bara staðið í embættum, heldur bætt og blásið í seglin svo tekið hefur verið eftir. Lífskjarasamningarnir sem náðust síðasta vetur voru skýrt merki um samvinnu milli verkalýðsfélaganna og ríkistjórnarinnar. Þáttur Ásmundar Einars félagsmálaráðherra var þar mikilvægur en hann vann ötullega að sátt og niðurstöðum sem allir aðilar gátu skrifað undir. Vinna Ásmundar Einars í húsnæðis-, fjölskyldu- og barnamálum hefur einnig vakið athygli og þar hafa litið dagsins ljós hugmyndir sem skipta máli.

Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur Lilja Dögg lyft grettistaki og boðað stórsókn í menntamálum. Unnið er að viðurkenningu á störfum kennara, eflingu á faglegu sjálfstæði þeirra og áhersla lögð á skólaþróun á öllum skólastigum. Einnig hefur verið unnið að því að fjölga nemendum í kennslufræði, t.d. með tillögum um launað starfsnám, námsstyrki og styrki til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn. Lilja Dögg hófst þegar handa við að endurskoða námslánakerfið þar sem áherslan er lögð á jafnrétti til náms, skilvirkni og námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd.

Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hefur Sigurður Ingi unnið að samgönguáætlun sem lögð var fram á síðasta þingi og verður hún lögð fram endurbætt á Alþingi um miðjan nóvember. Þetta er í fyrsta sinn sem samgönguáætlun er í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun.  Það ber vott um ný vinnubrögð sem sýnir í verki raunverulegan vilja stjórnvalda til að efla samgöngur um allt land. Ávinningur af samgönguáætluninni er aukið öryggi, stytting vegalengda og efling atvinnusvæða. Auk þess var mikilvægum áfanga náð þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu náðu að koma sér saman um stórsókn í samgöngubótum í samvinnu við ráðuneytið nú í haust. Þingsályktunartillaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins hefur verið lögð fram en þar má finna stórtækar tillögur í átt að sameiningu sveitarfélaga í landinu. Þó sumar þeirra séu umdeildar er ég sannfærð um að Sigurður Ingi muni vinna að farsælli lausn með víðtækri samvinnu.

Samvinna að leiðarljósi

Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur unnið að mikilvægum málum í þeim nefndum sem hann starfar í. Við höfum unnið eftir þeirri sannfæringu að best sé að horfa fram á veginn í samvinnu við samstarfsflokka okkar og leita lausna sem allir geta sætt sig við. Má þar nefna nokkur mál eins og afgreiðslu fiskeldisfrumvarps á síðasta þingi og svo ekki sé minnst á hrákjötsmálið sem skilaði sameiginlegri niðurstöðu sem allir flokkar unnu að fyrir utan Miðflokkinn, svo var einnig um afgreiðslu á heilbrigðisstefnu. Í þeirri vegferð einblíndum við á lausnir en ekki vandamál. Í síðustu kosningabaráttu hafði Framsóknarflokkurinn samvinnu að leiðarljósi, en ekki sundrung sem fráfarandi flokksmenn virðast hafa tekið með sér í baráttuna um framtíðina í nýjum flokki.

Á miðri leið er gott að líta yfir farinn veg og gleðjast yfir þeim árangri sem náðst hefur – hlaða sig af endurnýjanlegri orku sem skilar okkur áfram veginn. Geta ekki allir verið sammála um það?

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höf. er 7. þingmaður NV kjördæmis

 

 

 

Fleiri aðsendar greinar