Áfram Hvalfjarðarsveit!

Frambjóðendur Á-lista; Áfram Hvalfjarðarsveit

Áfram-listinn er skipaður öflugum og reynslumiklum hópi einstaklinga, fólki sem hefur mikinn áhuga á málefnum Hvalfjarðarsveitar. Við, frambjóðendur Áfram-listans, höfum á undanförnum árum öðlast þekkingu og reynslu af starfsemi og innviðum samfélagsins, meðal annars setið í sveitarstjórn, tekið þátt í nefndarstörfum og unnið við stofnanir sveitarfélagsins.

 

Fjármálin skipta máli

Hvalfjarðarsveit er ungt sveitarfélag og hefur frá stofnun verið lagt mikið í nauðsynlega innviðauppbyggingu sem gekk nokkuð nærri sveitarsjóði. Áhersla undanfarinna ára hefur því verið á að koma fjármálum Hvarfjarðarsveitar á réttan kjöl sem hefur tekist vel. Rekstarafgangur ársins 2017 var 67,5 milljónir kr. og ef ekki hefði verið fyrir lífeyrisskuldbindingar þá 95,3 milljónir kr. en þær voru að fullu gjaldfærðar í ársreikningi 2017. Við teljum því að fjárhagsstaða sveitarfélagsins bjóði núna upp á að lækka álögur á íbúa en á sama tíma getum við haldið uppbyggingu áfram og veitt íbúum góða þjónustu.

Lækkun á fasteignaskatti er eitt af því sem Áfram-listinn ætlar að koma til framkvæmda. Sú aðgerð nýtist öllum eigendum íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Í dag er útsvarsprósentan í Hvalfjarðarsveit 13,14% sem er sú fjórða lægsta á Íslandi og viljum við standa vörð um að hún verði ekki hækkuð.

Heilbrigt og nútímalegt sveitarfélag

Á-listinn vill vinna ÁFRAM að framþróun samfélagsins í Hvalfjarðarsveit. Við höfum þá framtíðarsýn að með því að bæta mikilvæga innviði í sveitarfélaginu muni það styrkjast og eflast og verða enn álitlegri valkostur til búsetu.

Á-listinn Áfram ætlar að hefja strax undirbúning að því að bæta íþróttaaðstöðu í sveitarfélaginu. Við álítum að núverandi íþróttahús sem byggt var árið 1967 og þarfnast orðið margþætts viðhalds, sé löngu úrelt og standist engan samanburð við þá aðstöðu sem íbúar í nágrannasveitarfélögum og sveitarfélögum af svipaðri stærð hafa aðgang að.

Með nýbyggingu íþróttahúss, af hóflegri stærð, á Heiðarskólasvæðinu viljum við gera góða aðstöðu fyrir nemendur og aðra íbúa sveitarfélagsins til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar og samveru. Þannig viljum við styrkja skólastarfið, bæta lýðheilsu íbúa, efla samfélagsandann í sveitarfélaginu og auka lífsgæði.

Íþróttahúsið yrði ætlað til viðburða, æfinga og tómstunda fyrir alla aldurshópa utan skólatíma en rannsóknir hafa ítrekað sýnt að öflugt íþrótta-, félags- og tómstundastarf er heilsubætandi og hefur mikið forvarnargildi.

 

Veitu- og orkumál

Á-listinn Áfram mun greina kosti og möguleika á lagningu hitaveitu og annarra kosta við húshitun í sveitarfélaginu. Sú greining mun sýna fram á hvar hagkvæmt er að leggja hitaveitu og hvar aðrir kostir geti nýst til húshitunar. Þannig geta varmadælur verið góður kostur á ákveðnum stöðum.

Mikil varmaorka beint út í andrúmsloftið frá framleiðslufyrirtækjum á Grundartanga, en við höfum áhuga á samvinnu við fyrirtæki á svæðinu til þess að virkja þennan glatvarma og nýta til húshitunar. Okkur finnst mjög spennandi að skoða þennan kost hjá okkur en aðferðin er vel þekkt erlendis.

Tekist hefur að ganga frá samningum um kaup á vatnsmannvirkjum í landi Saurbæjar sem í eigu Fjarðarskeljar ehf. Á- listinn ætlar að vinna það mál áfram þannig að nærumhverfið þar njóti góðs af og vatnsskortur á því svæði heyri sögunni til.

Við munum standa vörð um hagsmuni íbúa varðandi lagningu raflína í sveitarfélaginu þar sem umhverfis- og sjónræn viðmið verða höfð í fyrirrúmi. Lögð verður áhersla á að strengir verði sem víðast lagðir í jörð eða sjó.

 

Hugum að mannlífinu

Það eru íbúarnir sem mynda samfélagið og ber okkur sérstaklega að styðja við og hlúa að yngstu og elstu meðlimum samfélagsins okkar. Við viljum ÁFRAM vera stolt af tómstundastarfi eldri borgara og munum standa vörð um að opið hús og sundleikfimin fái að dafna og styrkjast í Hvalfjarðarsveit.

Við leggjum til að á haustönn 2018 hækki tómstundaávísanir barna og ungmenna úr 40.000 kr. í 60.000 kr. Þessi styrkur er stuðningur fyrir foreldra barna svo að þau geti stundað íþróttir á jöfnum grundvelli óháð efnahag. Við teljum að fjárfesting til hreyfingar og félagslegra athafna barna og ungmenna sé góð forvörn og fjárfesting til framtíðar.

 

Framtíðarsýn Áfram-listans

Við horfum björtum augum til framtíðar í Hvalfjarðarsveit þar sem mannlíf og byggð stendur á tímamótum. Fyrirsjáanleg er fjölgun íbúa og því mikilvægt að efla og styrkja grunnþætti í þjónustu sveitarfélagsins, t.d. við leik- og grunnskóla, veitukerfi og almenna þjónustu við íbúana.

Hvalfjarðarsveit er einstaklega vel staðsett sveitarfélag með kröftugu atvinnulífi og dugmiklu fólki. Áfram-listinn er þess fullviss að öll tækifæri séu til staðar til að veita góða þjónustu við alla íbúa.

 

Allar upplýsingar um Áfram-listann má finna á www.facebook.com/xafram/
Kjósum Á.listann Áfram laugardaginn 26. maí.

 

Áfram Hvalfjarðarsveit!

 

Íbúar eru hvattir til að koma ábendingum á framfæri með því að hafa samband beint við frambjóðendur eða með því að senda póst á netfangið aframlistinn@gmail.com

 

 

Fleiri aðsendar greinar