
Afmælis – Horn
Ingibjörg Pálmadóttir
Það þarf djörfung og dug til að koma á fót héraðsfréttablaði og enn meiri seiglu og þrjósku til að halda það út í öll þessi ár á tímum fjölda frétta sem renna í gegnum miðlana.
Mér er minnisstætt þegar Gísli Einarsson kom til mín fyrir rúmum 25 árum til að segja mér frá þeim áformum sínum að setja nýtt blað á laggirnar. Ég var mjög hugsi því ýmislegt hafði nú verið reynt á þessu sviði. Þetta var einmitt um það leyti sem svo mörg blöð voru ýmist búin að leggja upp laupana eða voru um það bil í andarslitrunum.
En Gísli er ákafur maður og trúir pottþétt á líf eftir dauðann. Þegar hann sagði að blaðið ætti að heita Skessuhorn þá sá ég ljósið, því Skessuhorn er eitt allra besta útsýnisfjall Borgarfjarðar.
Föðuramma mín var frá Horni í Skorradal þannig að ég fékk fljótt einhverja notalega tengingu við blaðið. Ekki man ég til að hafa orðið Gísla að liði, nema að allar götur síðan hef ég verið fastur áskrifandi blaðsins. Þegar þessar línur eru ritaðar þá er blaðið, enn einu sinni, að detta inn um lúguna hjá mér og ég er farin að brosa að skopmyndinni hans Bjarna Þórs.
Blaðið færir okkur fréttir af nærsamfélaginu og sameinar á vissan hátt Vestlendinga. En fyrst og fremst er ómetanlegt að skrá söguna og tryggja varðveislu hennar til komandi kynslóða. Á þessum aldarfjórðungi í sögu blaðsins hafa verið tekin urmull viðtala við fólk sem segir frá lífi sínu, störfum, örlögum og ævintýrum; myndir og minningar sem blaðið varðveitir.
Ég þakka Magnúsi Magnússyni fyrir úthaldið og ástríðuna sem hann hefur til að bera. Það sýnir hann og sannar með áhugaverðu og innihaldsríku blaði í hverri viku. Innilega til hamingju öll ykkar sem lagt hafa hönd á plóg.
Húrra! húrra! – fyrir ykkur, og gangi ykkur allt í haginn.
Ingibjörg Pálmadóttir.