
Aflátsbréf
Finnbogi Rögnvaldsson
Sumum lætur vel að „skaffa“ pening eins og sagt er. Eitt þekktasta dæmi átaks í fjáröflun er trúlega sala páfagarðs á aflátsbréfum til að fjármagna byggingu Péturskirkjunnar í Vatíkaninu. Lykillinn að sölunni var að sá sem hafði bréfið undir höndum slapp framhjá hreinsunareldinum þegar lífið var gert upp í lokin. Í sjálfu sér einfalt.
Koldíoxíðmengun
Í nútímanum fer fram sala annarskonar aflátsbréfa en í grunninn má segja að hún byggi á því sama. Raunveruleg vandamál eru formuð í kerfi sem síðan fer á markað.
Auðvelt er að sýna fram á beint samband milli vaxandi styrks koldíoxíðs (CO2) í lofthjúpi jarðar og bruna á jarðefnaeldsneyti. Efnahvörfin sem lýsa þessu eru tiltölulega einföld og mælingar á styrk CO2 falla sæmilega að losuninni. Þannig hægði á vexti CO2 í lofthjúpnum í Covid, samhliða minni eldsneytisnotkun. Afleidd áhrif af vaxandi styrk CO2 í lofthjúpi jarðar eru svo súrnun hafanna og breytingar á loftslagi. Þar flækjast málin hinsvegar all verulega og erfitt að búa til líkön sem herma eftir þeim breytingum einfaldlega vegna þess að kerfin sem líkja þarf eftir eru flóknari en svo að menn geri af þeim nákvæm líkön. Sístækkandi tölvur hafa þó gert mönnum kleift að spá fyrir um veður með sífellt meiri nákvæmni og flókin líkön herma nú þegar eftir hafstraumum og dreifingu efna í sjó.
Einföld leið til að draga úr losun koldíoxíðs er að hætta að brenna jarðefnaeldsneyti. Gallinn við hana er hins vegar sá að jarðefnaeldsneyti er megin orkuuppspretta nútímasamfélaga og notkun þess vex jafnt og þétt – þrátt fyrir ótal milliríkjasamninga um hið gagnstæða. Og þar með verður til viðskiptatækifæri!
Kolefnisbinding og losunarheimildir
Ef einhver gæti fundið leið til að draga koldíoxíðið úr lofthjúpi jarðar væri tryggt að neikvæð áhrif aukins styrks kæmu ekki fram. Þetta er hins vegar meira en að segja það því þó að efnið sem um ræðir sé gas er massinn sem draga þyrfti úr loftinu gríðarlegur og snúið að aftra því að hann fari fljótt aftur þangað sem hann var sóttur. Engu að síður hafa menn stigið fram á sjónarsviðið og boðið fram aðferðir til að binda CO2 – draga það úr andrúmsloftinu – en þiggja gjald fyrir. Þeir sem borga geta þá sagt við viðskiptavini sína að varan sem þeir falbjóði sé „umhverfisvæn“, hafi verið „kolefnishlutleyst“ eða eitthvað í líkum dúr, og náð þannig peningnum til baka og jafnvel gott betur. „Allir græða“ á vandamálinu – að minnsta kosti meðan raunveruleg lausn finnst ekki á því.
Í ljósi þess að styrkur CO2 vex eftir sem áður ár frá ári er því kannski ráð að bjóða sífellt nýjar og ferskar aðferðir, engin hátíska er eilíf.
Nýju fötin
Dæmisagan um ný föt keisarans sem ekki sætti sig við neitt annað en það alfínasta og barnið sem ekki hafði vit á að þegja um nekt hans á kannski að einhverju leyti við um sölu svokallaðra losunarheimilda. Barnið er að vísu hvergi sjáanlegt og keisarinn oftar en ekki ill sýnilegur líka en fötin sem engin eru ganga kaupum og sölu sem aldrei fyrr. Og við græðum á endaleysunni eins og alltaf. Það er hins vegar spurning hvort ekki sé hægt að komast framhjá því að láta „saumakonurnar“ sitja við vélarnar næturnar langar fyrst enginn er þráðurinn, spila þá frekar hvininn í vélunum af segulbandi ef það þarf að líta út eins og þar sé saumað nokkurt plagg.
Finnbogi Rögnvaldsson