
Áfangastaðurinn Grundarfjörður
Pálmi Jóhannsson
Í byrjun janúar 2022 bauðst okkur fjölskyldunni spennandi tækifæri. Flytja úr borginni í Grundarfjörð. Við höfðum rætt þetta í nokkurn tíma, breyta til, flytja í rólegra umhverfi, á stað þar sem börnin okkar gætu alist upp við meira frelsi en gengur og gerist í borginni. Tækifærið kom og við ákváðum að stökkva á það. Tveimur vikum eftir að við tókum ákvörðunina stóðum við fyrir utan nýja heimilið okkar og bárum innbúið okkar inn. Ég viðurkenni það að ég var stressaður, mjög stressaður. Konan mín á ættir að rekja til Grundarfjarðar og þekkir nokkuð til en ég þekkti ekki nema fjóra. Í ofanálag var ég á leið í fjarvinnu þannig að ég bjóst allt eins við að eyða dögunum einn á skrifstofunni og eiga í erfiðleikum með það að kynnast fólki. En annað kom á daginn. Ég hef aldrei vitað um samfélag sem býður nýja íbúa eins velkomna og Grundfirðingar. Á fyrsta degi var bankað upp á og börnin boðin velkomin og þeim boðið út að leika. Nokkrum dögum seinna fékk ég boð um að koma að vera með í vikulegum fótbolta og svona hefur þetta verið allar götur síðan. Ég er ítrekað spurður hvernig flutningarnir hafi gengið, hvernig það hafi gengið að aðlagast og fólk hlustar af miklum áhuga.
Grundfirðingar vilja að nýjum íbúum líði vel í bænum sínum. Þegar samband var haft við mig og ég spurður að því hvort ég hefði áhuga á að vera á framboðslista Samstöðu í næstkomandi sveitarstjórnarkosningum þá hugsaði ég mig ekki tvisvar um. Þarna var mitt tækifæri til þess að gefa til baka, leggja til málanna og halda áfram að byggja upp þetta frábæra samfélag sem tók svona ótrúlega vel á móti mér og fjölskyldu minni.
En hvað hefur strákur sem ólst upp í Reykjavík og flutti til Grundarfjarðar fyrir nokkrum mánuðum til málanna að leggja er eðlilegt að fólk spyrji sig. Ég tel það einn af mínum kostum að vera nýr í bænum og geta séð hlutina frá öðru sjónarhorni. Sett mig í spor tilvonandi íbúa, talað þeirra máli þegar kemur að þeim tækifærum og hindrunum sem felast í flutningum í Grundarfjörð. Tækifæri bæjarins eru mörg, við búum svo vel að vera með myndaðasta fjall landsins. Kirkjufellið eitt og sér laðar að sér fjöldann allan af ferðamönnum á hverjum degi. Ferðamönnum sem í langflestum tilfellum keyra í gegnum bæinn okkar, stoppa hjá Kirkjufellinu, taka myndir, njóta útsýnisins og halda svo áfram. Fyrir mér eru gríðarleg tækifæri fólgin í því að gera Grundarfjörð að áfangastað en ekki áningarstað. En hvernig gerum við Grundarfjörð að áfangastað? Við þurfum að hvetja og styðja við bakið á heimamönnum jafnt sem aðkomumönnum sem sýna því áhuga að hefja starfsemi í Grundarfirði. Við verðum að vera til staðar sem leiðbeinandi afl sem stendur ekki í vegi fyrir uppbyggingu heldur hjálpar til við að taka hana á næsta stig. Bærinn þarf líka að vera aðlaðandi staður fyrir fjárfesta að horfa til í uppbyggingu á alls kyns starfsemi. Við þurfum að vera tilbúin þegar kallið kemur, taka við með opnum hug og sjá hvernig hægt er að byggja upp til framtíðar.
En það sem vantar til þess að hægt sé að gera þessar hugmyndir að veruleika er húsnæði, bæði íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Varðandi íbúðarhúsnæði þá er mjög mikilvægt að hér rísi minni íbúðir til leigu. Það sem hræðir ungt fólk oft í að taka skrefið og flytja út á land er vöntun á leiguíbúðum. Það er nauðsynlegt að bjóða nýju fólki tíma til að koma og prófa að búa hér án þess að þurfa að kaupa sér húsnæði. Þegar það kemst svo inn í samfélagið er ég handviss um að þessar fjölskyldur vilja hvergi annars staðar búa!
Varðandi atvinnuhúsnæði, þá er húsnæði hér í bænum sem hægt væri að nýta en það þarf einnig að horfa til framtíðar. Bærinn þarf að mynda sér stefnu í uppbyggingu og nýtingu húseigna bæjarins út frá þeirri framtíðarsýn.
Með því að setja X við L í komandi sveitarstjórnarkosningum þá ert þú að setja X við áframhaldandi uppbyggingu þeirra frábæru verkefna sem hafa verið í gangi en þú ert einnig að setja X við spennandi framtíð. Framtíð sem býður upp á fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri. Framtíð sem vill dreifa eggjunum í fleiri körfur en þær flottu körfur sem við erum með í dag!
Pálmi Jóhannsson
Höf. skipar 4. sæti L-lista Bæjarmálafélagsins Samstöðu í Grundarfirði.