
Af sterkri stöðu ríkissjóðs?
Guðsteinn Einarsson
Í Skessuhorni þann 14. desember síðastliðinn var grein þingmanna Framsóknarflokksins undir nafninu; „Verja þarf sterka stöðu ríkissjóðs í fjárlögum 2023.“
Það er nokkuð sérstakt að halda því fram að með fjárlögum fyrir árið 2023 hafi „sterk“ staða ríkissjóðs verið varin. Hallinn á fjárlögum 2023 er áætlaður um 200 milljarðar króna sem bætist við uppsafnaðan halla síðustu ára. Þennan halla á að lækka með einskiptisaðgerð sem felst í sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Þeir 80 milljarðar sem þannig eiga að fást verða ekki nýttir aftur. Ef til vill ættu þingmenn Framsóknar að athuga að meirihluti þjóðarinnar treystir þeim, Sjálfstæðismönnum og VG ekki til þess að selja eignarhlutinn og vill reyndar ekki selja hann skv. skoðanakönnunum.
En með þessu er hallinn sagður enda í 120 milljörðum. Framsóknarþingmennirnir minnast ekkert á þá staðreynd að einn stærsti útgjaldaliður fjárlaga er ca. 100 milljarða vaxtakostnaður ríkissjóðs sem mun líklega fara vaxandi því ekki er gert ráð fyrir hallalausum fjárlögum fyrr en árið 2027 – og vaxtakjör ríkisins hafa farið versnandi.
Það eru margar leiðir til þess að leysa vanda ríkissjóðs og í raun styrkja stöðu hans:
- Láta stórútgerðina, sem græðir á tá og fingri með nýtingu sjárvarauðlindarinnar, greiða auðlindagjald.
- Láta laxeldið sem nú er að stórum hluta í eigu Norðmanna greiða auðlindagjald, eins og í Noregi. En hvorugt má, því Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa bannað það og ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hlýða að sjálfsögðu æðstu yfirvöldum.
- Með því að láta hátekjufólk sem nú rekur sig í gegnum einkahlutafélög og skammtar sér lág laun, en tekur út hagnað með fjármagnstekjuskatti án útsvars greiða sitt, greiði tekjuskatt og útsvar af öllum tekjum.
- Með því að fjármagnstekjur verði skattlagðar með sama hætti og aðrar tekjur sem og að setja útsvar á fjármagnstekjur sem þá um leið lagar stöðu sveitarfélaga.
En ekkert af þessu má þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ver þá sem mest eiga og þá sem mest og best hafa það. Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn vilja ekki styggja stórútgerðina sem nú veit ekki hvað hún á að gera við fjármunina og er að kaupa upp Ísland.
Og VG sem nú er hvorki Vinstri né Græn er föl fyrir þrjú ráðherraembætti og gerir því ekkert til þess að styggja ekki hina tvo flokkana.
Og ekki má taka á útbólgnu Stjórnarráði. Tólf ráðherrar með tugum aðstoðarmanna, fjölmiðlafulltrúa og annarra aðstoðarmanna, er fáránleiki hjá 376 þúsund manna þjóð. Hvergi sést vitleysan betur en í því að Forsætisráðuneytið telji sig þurfa 1200 fermetra viðbótarhúsnæði til að koma sínu fólki fyrir.
Undir forystu Sjálfstæðisflokksins, með dyggum stuðningi VG og Framsóknar, bólgnar kerfið út, margs konar gæluverkefni eru í forgangi, á meðan heilbrigðismálin, skólamálin, lögreglan og aðrar grunnstoðir eru sveltar.
140 milljarða lántökur ríkissjóðs fyrir þetta ár verður velt yfir framtíðina, með skuldabréfaútgáfu. Líklega verður það hlutverk barna okkar og barnabarna að greiða þá milljarða!
Vandséð er að með fjárlögum fyrir árið 2023 hafi staða ríkissjóðs verið styrkt. Að láta það frá sér fara að staða ríkissjóðs hafi verið varin með því að gjöld séu 200 milljörðum umfram tekjur lýsir ótrúlegri sjálfsblekkingu og/eða vanþekkingu á fjármálum.
Eitt er víst, kjörorð næstu þingkosninga verður: „Er ekki bara best að gleyma Framsókn!“
Borgarnesi, 3. janúar 2023.
Guðsteinn Einarsson, Borgarnesi.