Af söfnum og hillum þeirra á landsbyggðinni

Guðlaug Dröfn og Hollvinasamtök Pakkhússins

Hvað er safn? Er það hús þar sem safnað er gömlu dóti sem við tímum ekki eða jafnvel þorum ekki að henda? Gamla harmonikkan hennar ömmu Soffíu eða lýsislampinn sem afi kveikti næstum því í eldhúsinu með, við sýnikennslu fyrir barnabörnin ein jólin. Myndlist, handverk, óáþreifanlegur menningararfur og nytjamunir. Allir þessir munir eiga sér sögu en segja líka jafnframt oft sögu þjóðar og hópa hennar. Já, safn getur verið hús þar sem sumt þetta gamla dót fær heimili og loforð um varðveislu til framtíðar, komandi kynslóðum til fræðslu og skemmtunar. Söfn eru nefnilega líka fræðslustofnanir. Til þess að geta sinnt fræðslu sem skyldi þarf safnkosturinn að búa við viðunandi aðstæður, hvort sem er á sýningum eða í þar til gerðum varðveislurýmum. Því ef að gamla dótinu er ekki hlíft við utanaðkomandi mengunarvöldum eins og dagsljósi, ryki og skordýrum, styttist efnisleg tilvera þess töluvert mikið.

Sumar safnastofnanir og sýningar búa við það að hafa ekki faglært fólk til að sinna varðveislu sem best skyldi. Ekki allar, en margar og þá oftar á landsbyggðinni. Orsakir þessa hef ég ekki rannsakað sérstaklega og sleppi því að koma með tilgátur um það.

Ýmislegt er þó hægt að gera sem leikmaður til þess að bæta aðstæður hjá safnkosti sínum til framtíðar. Þjóðminjasafnið gaf til að mynda út handbók um varðveislu safnkosts í tveimur bindum. Það fyrra árið 2011 og það seinna árið 2018. Handbókin er eingöngu til á netinu og er öllum opin til niðurhals. Á vef Safnaráðs segir m.a. „Handbókin er ætluð öllum sem starfa við varðveislu menningararfsins, þar á meðal safnmönnum, skjalavörðum, fornleifafræðingum, prestum og staðarhöldurum, en nýtist einnig háskólanemum í þeim fræðigreinum sem tengjast menningararfinum.“

Í starfi mínu sem sérfræðingur og sýningarstjóri hef ég fengið að sjá og starfa með mjög fjölbreyttan safnkost og sýningar – og söfn. Sumar sýningar telja sig vera söfn, en það er efni í aðra grein. Þetta eru jafn ólík rými, efnistök og aðstæður og þau eru mörg. En þó eru margir fletir þeirra sameiginlegir. Undantekningarlaust glíma þau öll við varðveisluvanda. Hvort sem um er að ræða stórar opinberar stofnanir eða minni sýningar og söfn. Varðveisluvandinn er mis augljós og að mínu mati mis meðvitaður hjá eigendum viðkomandi safnmuna. Seinni staðhæfing mín kemur að mestu úr reynslu minni við að starfa fyrir sveitarfélög og menningarminjar þeirra. Vandinn felst oftast í óviðunandi húsakosti þ.e. plássleysi og umhverfisstýringu, aðstæðum á sýningum og aðbúnaði.

 

Leikföng og bómullarkjóll á sýningunni Börn í 100 ár. Sýningin var komin til ára sinna og ástand munanna bar þess augljós merki.

 

Sumarið 2022 var mér falið að taka niður fastasýninguna Börn í 100 ár í Safnahúsi Borgarfjarðar, sem þá hafði staðið óhreyfð í um 15 ár. Sýningin var hönnuð og sett upp af leikmyndahönnuðinum Snorra Frey Hilmarssyni. Á henni gaf að líta endurprentanir af ljósmyndum, bæði úr héraði en líka frá Ljósmyndasafni Akraness, og eiginlega muni úr safneign Byggðasafns Borgarfjarðar. Sýningin var aðgengileg og skemmtileg. Eftir þessi ár voru samt flestir munanna á sýningunni orðnir skemmdir. Skemmdirnar stöfuðu af ryki en ekki síst af efninu sem notað var í uppsetninguna. Til dæmis hafði óvarið timbur og krossviður sýrt og skemmt muni úr bómull. Það má sjá betur á meðfylgjandi mynd. Pappírsmunir brugðust við á svipaðan hátt og textíllinn. Þetta verkefni og umsýsla er þó líklega efni í enn aðra greinina.

Í þessari grein vil ég hinsvegar fjalla í stuttu máli um safnkost Pakkhússins í Ólafsvík, einu elsta húsi Ólafsvíkur en þangað hef ég komið reglulega síðan árið 2023 og unnið fyrir Hollvinasamtökin. Hollvinasamtök Pakkhússins starfar í sjálfboðavinnu, með varðveislu og miðlun á sögu Pakkhússins og sögu Ólafsvíkur fyrir brjósti. Í Pakkhúsinu hefur safnkostur verið til sýnis á tveimur hæðum í formi uppstillinga; sumt um og í yfir 30 ár.

Hollvinasamtök Pakkhússins hefur þrisvar sótt um styrki til þessa í Uppbyggingasjóð Vesturlands og fengið tvisvar. Sjóðurinn tengdi samtökin við mig og í kjölfarið hef ég síðan tekið út aðstæður á varðveislu og sýningum. Ég hef skrifað skýrslur um aðstæður sem sendar hafa verið eigendum minjanna í Snæfellsbæ en líka hreinsað og endurraðað hluta sýningar sem er í húsinu.

 

Varðveislurými fyrir hluta safnkosts Snæfells- og Hnappadalssýslu. Þar má finna sambland safnmuna, verkfæra áhaldahússins, skólagagna og fleira.

 

Safnkostur menningarminjasafns Snæfellsbæjar er geymdur að hluta til á sýningu í Pakkhúsinu í Ólafsvík og að hluta í geymsluhúsnæði á Hellissandi. Pakkhúsið í Ólafsvík er ekki viðurkennt safn, skv. Safnalögum (sjá reglugerð um viðurkenningu safna nr. 900/2013, í samræmi við heimild í safnalögum nr. 141/2011). Einhver samstarfssamningur var á tímabili milli Norska hússins í Stykkishólmi, sem er viðurkennt safn, og Snæfellsbæjar um skráningar safnkostsins í Sarp en virðist ekki gilda lengur. Sarpur er menningarsögulegt gagnasafn, opið öllum á vefslóðinni www.sarpur.is. Sýningin, sem byggir á munum úr safnkostinum, segir sögu húsbúnaðar, heimilishalds, bústarfa, útgerðar og margs annars í héraðinu. Hún var opin samhliða skemmtilegri hönnunarverslun, sem var líka með léttar veitingar, á jarðhæð Pakkhússins. Rekstri var hætt fyrir nokkrum árum og ekki hefur enn fundist nýr rekstraraðili á jarðhæð Pakkhússins, þrátt fyrir auglýsingar. Á meðan er engin starfsemi í Pakkhúsinu í Ólafsvík og því lokað almenningi.

Úttekt mín á sýningarrými Pakkhússins í Ólafsvík ásamt punktum um „safngeymslu“ á Hellissandi var unnin í maí árið 2023 og svo aftur sumarið 2024 að beiðni Hollvinasamtaka Pakkhússsins. Ég set hér viljandi gæsalappir við hugtakið geymsla. Nafnorðið „geymsla“ hefur orðið til þess að safnkostur hefur oft liðið fyrir þann misskilning að hann þarfnist ekki meiri aðhlynningar en það sem geymt er í samnefndum rýmum, á heimilum og öðrum stofnunum almennt. Við safnafólk viljum því mun fremur nota orðið varðveislurými og undirstrika með því sérhæfðar þarfir og umhverfi safna, sem hafa lítið að gera með hefðbundnar heimilisgeymslur.

Ég náði að skoða varðveislurými á Hellissandi í frekar stuttan tíma en þar voru þrátt fyrir það mörg atriði sem var augljóslega ábótavant. Þau voru m.a. eftirfarandi:

Engin umhirðuáætlun var til staðar og hafði ekki verið þrifið í rýminu í mjög langan tíma. Hreinlætisstig var því alls ekki viðunandi. Meindýravarnir vantaði og einnig hita- og rakamæli. Í hillur vantaði stamt undirlag og fallvarnir í tilfelli jarðskjálfta eða þess háttar.

Ummerki voru í millirými hjá pappír og málverkum um mikinn utanaðkomandi vatnsleka úr rörum í loftinu. Munir og myndir lágu undir skemmdum vegna ryks og drullu en ekki síst vegna þessa leka. Efni til sérhæfðar pökkunar, sýrufríar öskjur og silkipappír, var að miklu leiti ónýtt eftir að hafa lent undir lekanum.

Mikið magn var af óviðkomandi dóti í rýminu frá öðrum stofnunum í bænum m.a. grunnskólanum, áhaldahúsi og fleirum. Umgangur virtist töluverður um húsið og samnýting með annarri starfsemi sveitarfélagsins. Það gerði þessa geymslu óviðunandi sem varðveislurými fyrir menningarminjar, list eða annað sem þar átti að vera. Í varðveisluhúsnæði er nauðsynlegt að lágmarka umgengni eins og hægt er til að minnka álag og umhverfisáhrif á safnkostinn.

 

Gluggakista í Pakkhúsinu í Ólafsvík.

Í Pakkhúsinu og sýningum þess á annarri hæð fór mestur tími í að þrífa muni og umhverfi. Gluggar voru óþéttir og flugur og umhverfismengun (ryk) í rýminu.

Það vakti athygli mína að á meðan ég vann að verkefnum mínum í húsinu var stöðug aðsókn frá ferðafólki sem vonaðist til að getað séð eitthvað um sögu staðarins og menningu. Það þurfti frá að hverfa, enda ekki opið yfirhöfuð. Pakkhúsið er fallegt hús og reisulegt, á besta stað í bænum, og því skiljanlegt að það hafi þótt augljós áfangastaður.

Sumarið 2023, að frumkvæði Hollvinasamtaka Pakkhússins, samþykkti bæjarfélagið gluggaskipti í Pakkhúsinu. Styrkur fékkst til verksins og tilboð fengin í það. Vonast var til að það yrði unnið fyrir veturinn en það hefur tafist. Mælt var með að sett yrði UV filma í öll gler í leiðinni. Það er mjög góð leið til verndar safnkosti á húsasýningum eins og í Pakkhúsinu. UV filma er gegnsæ plastfilma sem tekur allt að 99% útfjólublárra geisla úr dagsbirtunni í gluggaglerjum. Hún ver viðkvæma list og muni fyrir skaðlegum áhrifum sólarinnar. Þetta er sérlega gagnlegt fyrir varðveisluaðstæður í húsasýningum og þar sem munir standa í einhvern tíma. Vonir standa nú til þess að sjá nýja glugga í húsinu fyrir veturinn 2025.

Það er alltaf þess virði að hugsa vel um menningarminjar. Bæði menningarsögulega en ekki síður fjárhagslega séð. Staðir á landsbyggðinni eru mikið heimsóttir af ferðafólki og því eru tækifæri fólgin í því að hafa sem flesta, fjölbreyttasta og áhugaverða áfangastaði. Slíkir áfangastaðir geta jafnvel dregið að fólk og skapað tekjur. Fólk dvelur þá lengur á staðnum og nýtir betur þjónustuna sem þar er til staðar.

Sjálfsmynd samfélags endurspeglast í menningarminjum þess og meðferð og varðveislu þeirra á eigin sögu og menningararfi. Í vestrænum heimi hefur undanfarna mánuði verið sótt meira að sanngildi og sögu en áður. Dæmi um slíkt er til dæmis að finna í söfnum Smithsonian í Washington en nýlega hætti listakonan Amy Sherald við að sýna þar verk sín vegna ritskoðunartilburða Bandaríkjastjórnar.

Söfn og sýningar hafa dagskrárvald og það er þeim en ekki síst eigendum þeirra í sjálfvald sett að nýta þá ábyrgð og forréttindi eins og mögulegt er.

 

Örsýning um Jóhann Jónsson skáld hangir uppi á jarðhæð Pakkhússins um þessar mundir. Húsið hefur verið lokað almenningi síðan rekstri verslunar þar var hætt fyrir nokkrum árum.

 

Mér finnst ákaflega gaman að kynnast menningu, mat og list samfélaga. Hvort sem það er á Hellissandi eða einhversstaðar á Indlandi. Man lærir mikið og dýpra um hópana sem þar búa og getur fengið tilfinningu fyrir mannlífinu, lifibrauði og lífinu þar yfirhöfuð. Það er nákvæmlega það sama og ferðafólkið sækir í sem bankar upp á í Pakkhúsinu í Ólafsvík þegar það sér ljósglætu þar inni.

Í sumar var sett upp örsýning á jarðhæð Pakkhússins á þeim örfáu munum sem tengjast skáldinu Jóhanni Jónssyni. Sú sýning stendur enn og hvet ég Snæfellinga og alla aðra sem eiga leið um að kíkja á hana, ef húsið er opið.

 

Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir, safnafræðingur

Hollvinasamtök Pakkhússins í Ólafsvík