Af skotvopnaeign landsmanna

Hafsteinn Sigurbjörnsson

Talið er að mikil aukning hafi orðið á skotvopnaeign landsmanna og er það að mínu mati slæm þróun. Skotvopn eru svo til eingöngu notuð til að drepa. Allskonar skotvopn; riflar, skammbyssur, haglabyssur og jafnvel hríðskotabyssur eru að verða algengar eignir landsmanna. Þessi þróun er varhugaverð og verður að stöðva.

Íslendingar hafa verið stoltir af því að vera eina þjóðin í heiminum sem ekki hefur her eða hermenn sem stjórnað er af stofnunum stjórnvalda landsins. Við erum því vopnlaus þjóð í þeim skilningi og eftir því sem ég best veit eina sjálfstæða og fullvalda ríkið í veröldinni sem svo er.

En hvernig á að stöðva þessa óhugnanlegu þróun á vopnaeign landsmanna? Það eru nokkrar leiðir til þess. Í fyrsta lagi skal krafist þess að allir eigendur skotvopna skuli skrá eign sína hjá löggæslu landsmanna, sem er samkvæmt lögum skylda að gera. Í öðru lagi að eigendur skotvopna sem selji vopnið tilkynni viðkomandi yfirvöldum kaupanda þess. Í þriðja lagi að framleiðsla á skotvopnum hér á landi verði bönnuð.

Ég veit að þetta yrði bann á frelsi manna til að eignast ákveðna hluti en það er líka bann á fleiri skaðlegum efnum, þ.e. vímuefnum.

Það er engin nauðsyn að almenningur eiga skotvopn. Byssuleyfi eru enn í fullu gildi og það eru skýr ákvæði í lögum hverjir geta fengið byssuleyfi og hvaða skyldur eru því samfara. Það ætti því ekki að vera vandi að stöðva þessa þróun.

Þar sem lögreglustjóri landsins er tengdur byssusala og innflytjanda skotvopna þá verður núverandi lögreglustjóri að víkja. Almenningur á að láta í sér heyra þegar svona stórmál koma upp. Ef ekki á illa að fara í náinni framtíð þá skora ég á Alþingi að blanda sér í þetta mál, því að hér er verið að brjóta lög um byssuleyfi og ýmislegt annað tengt þessu máli.

Gæti það ekki skeð hér að bilaður einstaklingur næði í skotvopn t.d. hríðskotabyssu og ryki inn í skóla eða samkomuhús og dræpi börn og fleiri manneskjur? Þetta gerist oft á ári erlendis, sérstaklega í Bandaríkunum þar sem skotvopnaeign almennings er mest.

Hafsteinn Sigurbjörnsson