
Af sköttum og gjöldum í Borgarbyggð
Guðsteinn Einarsson.
Nú nýverið var fasteignaeigendum birt álagning fasteignagjalda og fasteignatengdra gjalda fyrir árið 2023.
Eins og oft áður þá hækka gjöldin í Borgarbyggð mikið á milli ára, enda virðist það stefna sveitarstjórnar að vera með hæstu fasteignagjöld og fasteignatengda skatta sem þekkjast á landinu. Nú er hækkun fasteignagjalda 27% og hækkun lóðaleigu um 20% frá árinu 2022.
Hafa þarf í huga að verðbólga á sama tíma er 9,9%. Skv. þessu er sveitarstjórn að hækka gjöld á fasteignaeigendur langt umfram þróun verðlags.
Það er forvitnilegt að bera saman fasteignagjöld í Borgarbyggð annars vegar og Reykjavík hins vegar.
Ég bar saman gjöld á mínu húsi og húsi í Reykjavík.
Niðurstaðan er þessi:
Af mínu húsi í Borgarnesi sem er að fasteignamati 57% af fasteignamati hússins í Reykjavík þarf að greiða fasteignagjöld sem eru kr. 413.525 á meðan gjöldin af húsinu í Reykjavík eru 281.830 kr. Gjöldin í Borgarnesi eru því 47% hærri en í Reykjavík.
Síðan reiknaði ég út hver fasteignagjöldin af mínu húsi væru, ef taxtar fasteignagjalda og lóðaleigu væru þeir sömu í Borgarbyggð og eru í Reykjavík.
Niðurstaðan er þessi:
Ef húseignin í dæminu væri á Reykjavíkur töxtum þá væru fasteignagjöld og þ.h. kr. 183.150 í staðinn fyrir 413.525, eða 230.375 krónum lægri auk þess sem vatn-og fráveita væri 83.487 krónum lægri en í Borgarnesi.
Þessi skattheima er lítið annað en aðför að fjárhag heimila og fyrirtækja í Borgarbyggð og er neikvæð fyrir þá sem velja Borgarbyggð til búsetu.
Nær væri að stilla skattlagningu í hóf og taka á rekstri sveitafélagsins. Þannig væri Borgarbyggð betri búsetukostur, bæði fyrir gamla og nýja íbúa.
Borgarnesi, 3. febrúar 2023.
Guðsteinn Einarsson.