Af sjálfhverfum lyddum og fegurðardýrkun

Axel Freyr Eiríksson

Sigmundur Davíð ákvað að rísa úr fylgsni sínu og koma með smá realtalk á flokksráðsfundi Miðflokksins á Akureyri fyrr í þessum mánuði. Það sem ég tók úr þeirri ræðu, sem orsakaði það að þingmaður Sjálfstæðisflokksins kallaði hann sjálfhverfa lyddu, var ekki hversu mikill eldklerkur hann er í augum flokksmanna Miðflokksins. Hann er eitthvað annað. Þegar ég var búinn að hugsa vel og lengi um hliðstæður Sigmundar í heimssögunni small það loksins. Hann er eins og diet-útgáfan af Cato eldri. Þú veist sá sem sagði alltaf eftir ræður sínar í öldungarráði Rómar: „Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.“ Geggjaður.

Líkindin eru sláandi. Cato kom úr fjölskyldu alþýðufólks sem hafði hlotið nokkurn frama, grísk áhrif á rómverska menningu voru Cato eitur í beinum. Hann kynnist Valerius Flaccusi sem hafði miklar mætur á honum. Flutti til Rómar og gerðist að lokum ræðismaður. Sigmundur kemur úr fjölskyldu alþýðufólks sem hafði hlotið nokkurn frama, erlend áhrif á íslenska menningu eru Sigmundi eitur í beinum. Hann kynnist Tryggva Agnarssyni sem hefur miklar mætur á honum (hann stofnar Miðflokkinn og gefur Sigmundi). Líkt og Cato elskaði landbúnað gerir Sigmundur það líka. Róm var í hnignun á þessum tíma að mati Cato og ekki hjálpuðu ófærir stjórnmálamenn til með það, sama segir Sigmundur og hans fólk. Ég gæti haldið áfram með hve líkindin á milli Sigmundar og skikkjusveipaðs ræðismannsins Cato en blaðið þarf að hafa pláss fyrir aðrar fréttir og pistla. Við skulum bara segja að sagan eigi það til að endurtaka sig.

Að lokum. Ein af mínum sakbitnu sælum er að bíða eftir helginni á instagram sem DV tekur saman. Mér er reyndar skítsama um alla áhrifavaldana þar sem virðast ekki gera neitt annað en að lyfta, standa á strönd/fjallstoppi/auglýsa föt og borða ekkert annað en brunch og auglýsa smoothies. Ég bíð eftir myndunum hans Rúriks því ég verð að viðurkenna að þegar hann tekur hárið sitt upp í snúð og setur upp Wayfarer-inn sinn í 66° úlpunni sinni þá kikna ég í hnjánum. Þær hliðstæður sem mér dettur í hug til að lýsa áhrifamiklum líkamsburðum hans eru bara að finna í grískri goðafræði; Narcissus, Achilles og Adonis. Ég kýs að líkja honum við Adonis, hann var elskhugi Afródítu. Hann var yfirgengilega myndarlegur maður sem elskaður var af guð. Líkt og Rúrik er elskaður af meirihluta kvenpenings, ég meina karlpenings heimsins. Annað eins eintak hefur ekki sést síðan Olaf Mellberg stjórnaði vörninni með örugglega vöxnu skeggi sínu og bláum augum. Allavega, ég fæ ekki nóg af instagramminu hans Rúriks. Hvort sem hann er á sundlaugarbakkanum eða í viðtali með slegið hár. Borgnesingar ættu að monta sig meira af því að eiga hlut í honum.

Kveðja,

Axel Freyr Eiríksson

 

Fleiri aðsendar greinar