Af mistökunum skulið þér læra það!

Finnbogi Rögnvaldsson

Það er vissulega gott að geta dregið lærdóm af eigin mistökum. Mörg okkar vita innst inni að okkar verstu bommertur hefðum við aldrei þurft að gera ef við hefðum lagt við hlustir þegar við okkur var talað eða haft augun opin fyrir því sem við þeim blasti. En það er eins og það er.

Sem þjóð hefur okkur ekki alltaf lánast að draga lærdóm af því sem aðrir höfðu lært á undan okkur. Það er að sumu leyti skiljanlegt, við erum fá og íslenskt samfélag hefur farið hratt frá því að vera frumstætt bændasamfélag til þess sem það er í dag, land sem stærir sig af allskonar heimsmetum á höfðatölu þegar kemur að fánýti og nýungum í bland. Skólakerfið er ungt, heilbrigiðskerfið sömuleiðis og við höfum í rúm 100 ár reynt að byggja upp nýjar atvinnugreinar til hliðar við sjávarútveg og landbúnað. En það er eins og við getum aldrei skipulagt nokkurn hlut af viti! Minkaræktin sem hér var reynd í skötulíki í byrjun 20. aldar var kannski fyrirboði þess sem koma skyldi. Síðar komu allra handa kerfisbreytingar með stórauknum afskiptum ríkis og sveitarfélaga af atvinnurekstri og inn- og útflutningi og margar nýjar atvinnugreinar komu og fóru. Nær alltaf með fjárhagslegu tapi fyrir þjóðarbúið. Það er kannski snúið að sjá hvernig staða nýrra atvinnuvega verður eftir 10-20 ár en það eru samt vísbendingar um að við séum að finna upp hjólið í t.d. ferðaþjónustu aftur og aftur og takist einhvern veginn að hafa þau þrístrend eða ferhyrnd löngu eftir að aðrar þjóðir vissu hvernig hjól ættu að vera í laginu.

Ég fór til Bandaríkjanna síðasta sumar og ferðaðist um Minnisota með heimafólki í nokkra daga. Við fórum meðal annars í þjóðgarða í fylkinu sem er vel að merkja helmingi stærra en fósturjörðin og þjóðgarðar í Bandaríkjunum eru vel skipulagðir og allt þar sem þarf að vera í þjóðgörðum. Kamrar og göngustígar þar sem minnst er umleikis en stórar byggingar með sýningum og kaffihúsum og flísalögðum salernum og hver veit hvað þegar best lætur. Þarna var Chevrolet pallbílnum lagt í stæði og fyrir það greiddir 35$. Í þeim díl var hinsvegar falin árs áskrift að öllum þjóðgörðum í fylkinu. Allt innifalið nema það þurfti að borga meira fyrir að fá að tjalda. Síðan Ögmundur Jónasson þáverandi þingmaður kastaði sér í Geysi til að bjarga íslenskri aðlþýðu frá því að þurfa að borga fyrir aðgang að svæðinu hefur íslenska ríkið tekið að innheimta bílastæðagjöld af ferðamönnum í kappi við landeigendur eins og menn vilji tryggja það og geirnegla að hér verði bílastæðagjöld ekki bara þau hæstu í heimi reiknað á hvern íbúa landsins heldur verði hvergi rukkað meira á flatareiningu lands! Engar reglur, engar áætlanir – ekkert plan nema fokdýr bílaplön sem oft eru varla fullgerð.

Árið 1991 hóf ríkisstjórn Íslands átak í sameiningu sveitarfélaga. Það átak stendur enn og fjöldi sveitarfélaga hefur sameinast, nærri lætur að fjöldi þeirra sé helmingur af því sem þá var. Af hverju þetta átak stendur yfir er hinsvegar nokkuð málum blandið, í tilraunum manna til að fá íbúa sveitarfélaga til að samþykkja sameiningartillögur hafa verið settar fram ófáar kenningar um af hverju sé verið að standa í þessu. En skýr markmið eru ekki til. Ef þau eru til eru þau í það minnsta hulin sjónum mínum. Hvaða sýn hefur Alþingi á þetta stjórnsýslustig? Hvaða hlutverki eiga sveitarfélög að gegna, hvaða tekjustofna að hafa og hver eiga mörk þeirra að vera?

Það væru öfugmæli að ætla sér að hefja Ísland aftur til vegs og virðingar. Glæst fortíð lands og þjóðar er í besta falli hugarburður þó hér hafi verið skrifaðar skemmtilegar sögur. Enda kannski ekki það sem veröldin þarf á að halda. Hér mætti hinsvegar huga oftar að ferðaplönum þegar lagt er af stað í löng ferðalög. Væri til dæmis ekki lag að halda áfram með Vestmannaeyjagöngin til Færeyja?

 

Finnbogi Rögnvaldsson