
Af Listfélagi Akraness
Smári Jónsson form. Listfélags Akraness
Nýtt starfssár Listfélags Akraness hófst með aðalfundi 20. mars síðastliðinn. Ein breyting varð á stjórn félagsins. Cathrine Sofía Guðnadóttir vék úr stjórn vegna þess að hún er á leið í nám erlendis, en í hennar stað var kosin Hanna Þóra Guðbrandsdóttir. Aðrir stjórnarmeðlimir voru endurkjörnir og er þá stjórn félagsins skipuð eftirfarandi: Smári Jónsson formaður, Erna Hafnes ritari, Guðný Ása Degan Guðmundsdóttir gjaldkeri, Lára Magnúsdóttir meðstjórnandi, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir meðstjórnandi og varamenn eru Tinna Rós Þorsteinsdóttir og Ole Jacob Volden.
Mikill hugur er hjá félagsmönnum á nýju starfsári, margt er í farvatninu á næstunni og ýmsir viðburðir fyrirhugaðir. Fyrsta verk var að halda fyrirlestur um myndlist í Stúkuhúsinu 16. apríl síðastliðinn. Fyrirlesari var Jón B K Ransú myndlistarmaður og kennari við Myndlistaskóla Reykjavíkur. Þetta var mjög fræðandi og skemmtilegur fyrirlestur.
Fleiri fyrirlestrar eru fyrirhugaðir og hyggst stjórn prófa að hafa fyrirlestra opna almenningi og bjóða alla velkomna að sitja þá og fræðast um listir og annað sem boðið verður upp á.
Annað sem er á döfinni er að stefnt er á að vera með viðburð á Írskum dögum á Akranesi. Nánar um það síðar, en núna á næstu dögum, nánar tiltekið 3. maí næstkomandi, verður hleypt af stokkunum í samstarfi við Kallabakarí verkefni sem nefnist Listamaður mánaðarins.
Verkefnið gengur út á það að á einum vegg í anddyri Kallabakarís verður kynntur einn listamaður í félaginu í hverjum mánuði, opnun verður alltaf fyrsta laugardag í hverjum mánuði. Með þessu viljum við kynna fyrir almenningi félaga og alla þá fjölbreytni listgreina og listamanna sem starfa innan félagsins. Að sjálfsögðu eru allir velkomnir að sækja opnun á Listamanni mánaðarins.
Við verðum að sjálfsögðu með á Vökudögum næskomandi haust með samsýningu myndlistarmanna og sviðslistafólk félagsins ætlar að endurtaka Menningarstrætó sem sló rækileg í gegn í fyrra.
Við hlökkum mikið til að gleðja bæjarbúa með því að auðga menningarlíf á Akranesi með okkar starfi og framlagi til listalífs á Akranesi. Við viljum einnig benda á facebook síðu félagsins sem heitir einfaldleg Listfélag Akraness og öllum er opin og frjálst að fylgja eftir. Þar munum við vera dugleg að segja frá starfi félagsins, flytja fréttir og kynna þau verkefni sem eru á döfinni.
Við viljum einnig nota tækifærið í þessari grein og þakka Skessuhorni fyrir velvilja í okkar garð að flytja fréttir og birta greinar um þau verkefni sem við vinnum að. Skessuhorn auðgar menningarlíf í bænum með því að birta fréttir og umsagnir um listviðburði, takk fyrir okkur og vonandi eigum við gott samstarf eftir sem áður í framtíðinni.
Smári Jónsson
Höf. er formaður stjórnar Listfélags Akraness