Af hverju get ég ekki lært það sem ég vil?

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

Nám er ansi stór hluti af lífi allra. Eftir grunnskóla vilja mörg ungmenni prófa eitthvað nýtt og jafnvel flytja að heiman til þess að stunda nám í framhaldsskóla. Þó að foreldrum þyki oft erfitt að sleppa taki af börnunum sínum þá skilja þau það líka að þetta er mikilvægur tími í lífi þeirra til þess að þroskast og mörgum hefur dreymt um að komast í ákveðinn skóla í mörg ár. Um helmingur framhaldsskóla landsins eru á höfuðborgarsvæðinu svo eðlilega stefnir hugur margra þangað. En því miður hafa mörg ungmenni lent í miklum vandræðum því það er ekkert húsnæði í boði fyrir þennan aldursflokk. Fólk berst um hvern einasta fermeter sem er í boði á leigumarkaðinum og leiguverðið hækkar endalaust. Þar sem nemendurnir og foreldrar eiga oftast ekki efni á því að leiga íbúð þá reyna nemendurnir oft að komast að hjá ættmennum og vinafólki.

Margir nemendur hætta nauðugir í því námi sem þeim hefur dreymt um eða komast aldrei í það vegna forgangsleysis í húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Til þess að reyna að leysa þetta vandamál er nauðsynlegt að komið verði á heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir aðflutta framhaldsskólanema.

Ég fékk tækifæri til þess að setjast á Alþingi í fyrsta sinn nú í byrjun mánaðarins. Þann 12. desember vakti ég athygli á nauðsyn þess að koma á fót heimavist fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma lögðum við í Framsókn fram þingsályktunartillögu um efnið.

Þetta er bæði jafnréttismál og öryggismál. Það eiga allir rétt á að stunda nám, óháð búsetu.

 

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Höf. er varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF).

Fleiri aðsendar greinar