Af hverju áhugamál?

Bergur Þór Jónsson

Hugleiðingar um af hverju okkur vantar nauðsynlega mótorkrossbraut í Borgarbyggð

Ég hef oft velt því fyrir mér hvers vegna fólk er ekki hlynnt hinum og þessum áhugamálum annarra. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að hver og einn réttlæti sitt áhugamál og sé sáttur við sitt, hversu dýrt, tímafrekt, plássfrekt, hávært eða hættulegt það kann að vera.

Mér finnst áhugamál nauðsynleg fyrir alla og held að allir eigi sín áhugamál þó sumir vilji kalla þau öðrum nöfnum. En hvers vegna þurfa svona margir að vera mótfallnir áhugamálum annarra? Ég skrifaði þetta að sjálfsögðu með það í huga að þú skalt aldrei gera öðrum það sem þú vilt ekki að aðrir geri þér. Þannig útiloka ég ólöglega og ósiðlega hluti frá því að falla undir þau áhugamál sem um ræðir.

Snúum okkur þá aftur að umfjöllun um áhugamál.

Ég hef kannski ekki alla mína ævi virt öll möguleg áhugamál, en með árunum og síauknum áhuga á manneskjum og sálfræði þá hef ég sífellt verið að bæta við skilning, þekkingu og virðingu fyrir nánast öllum mögulegum manneskjum og þeirra áhugamálum. Og þannig er í raun komið fyrir mér, að ég hef nánast áhuga á öllu! En stærstu áhugamál mín tengjast samt alltaf mótorsporti og nú langar mig að telja upp töluvert margar ástæður fyrir því að fólk ætti almennt að virða mótorsport sem áhugamál en ekki líta eingöngu á það sem hávært og hættulegt. Ég hef nefnilega alla tíð verið frekar spennu- og áhættusækinn. Og nú ætla ég að ljóstra upp um ýmislegt sem ég gerði á yngri árum en hef frekar viljað þegja yfir af ýmsum ástæðum.

Ég var til dæmis orðin nokkuð góð skytta um tíu ára aldur með flestar tegundir skotfæra sem lögleg voru og til í sveitinni, því við frændur stálumst nánast alltaf í byssurnar þegar við vorum skildir eftir einir heima. Þetta er reyndar það eina sem ég passaði sérstaklega vel upp á að börnin mín gætu ekki hermt eftir mér. En þetta hefði ég mögulega ekki verið að fikta við ef ég hefði haft aðgang að mótorhjóli og torfærubraut á þeim tíma.

Ég hnuplaði stöku sinnum snúð og kókómjólk úr kaupfélaginu í frímínútum, því það var spennandi. Ég skammaðist mín seinna fyrir það, en núna lít ég á þetta sem leiðina sem ég þurfti að fara til að verða að betri manneskju. En þetta hefði ég mögulega ekki verið að gera ef ég hefði haft aðgang að mótorhjóli og torfærubraut á þeim tíma. Strax eftir fermingu byrjaði ég svo að drekka áfengi og eyddi oft öllum mínum fáu krónum í það. Mér fannst það töff og spennandi. En þetta hefði ég mögulega ekki verið að gera ef ég hefði haft aðgang að mótorhjóli og torfærubraut á þeim tíma.

Svo þegar ég gat loksins eignast skellinöðru þá stalst ég til að keyra hana áður en ég var kominn með próf á hana og þá að sjálfsögðu bara þar sem mér sýndist, enda ekkert skipulagt svæði fyrir vélhjólaakstur í Borgarnesi þá frekar en núna. En eftir að Ómar frændi náði mér svo próflausum og hélt yfir mér eina af sínum hörkuræðum, þá þorði ég ekki að stelast meira og beið þangað til ég varð fimmtán og kominn með skellinöðrupróf. En ég drakk þá bara meira á meðan ég beið. En þetta hefði ég mögulega ekki verið að gera ef ég hefði haft aðgang að mótorhjóli og torfærubraut á þeim tíma.

Svo bræddi ég nú úr skellinöðrunni minni og ákvað að nota þann aur sem ég náði að eyða ekki í áfengi í að safna mér fyrir bíl. Það hafðist fyrir sautján ára afmælið og ég byrjaði að keyra bíl, oft alltof hratt og glannalega, og jafnvel innanbæjar, en þetta hefði ég mögulega ekki verið að gera ef ég hefði haft aðgang að mótorhjóli og torfærubraut á þeim tíma til að fá útrás.

Svo kom enn verri kafli hjá mér, því næst datt mér í hug að keyra fullur, því það var spennandi. Í dag finnst mér það eitthvað það vitlausasta sem ég hef gert. En þetta hefði ég mögulega ekki verið að gera ef ég hefði haft aðgang að mótorhjóli og torfærubraut á þeim tíma. Ég gæti talið fleira upp, en ætla að sleppa því.

En ástæðan fyrir því að ég er að skrifa þetta er sú að fleiri en hundrað manns í Borgarbyggð eru nú þegar félagar í íþróttafélaginu Mótorsportfélag Borgarfjarðar, þrátt fyrir enga aðstöðu eða annan áþreifanlegan stuðning frá Borgarbyggð. En ég ásamt 68 öðrum áhugamönnum (auðvitað eru konur menn) stofnuðum MSB 1. desember 2014. Við höfum síðan þá reynt eftir fremsta megni að finna og fá til afnota landsvæði fyrir mótorkrossbraut, en án árangurs. Við erum eina, ég endurtek, EINA íþróttafélagið innan UMSB sem hefur enga aðstöðu til að sinna nokkrum hluta af okkar áhugamálum og íþróttum. UMSB hefur samt sem áður reynt að aðstoða eftir þeirra getu við að fá aðstöðu, en ekki dugað.

Mér finnst við nefnilega endalaust lenda á veggjum vegna fordóma þeirra sem hafa önnur áhugamál en við og virðast engan veginn sjá sér fært að virða eða hlusta á rök okkar fyrir okkar áhugamálum. Ég vil benda á að ef fólk vill sjá skilgreiningu fyrir fordómum, þá er upplagt að slá leitarorðinu inn á Vísindavefinn.

Ég vona að þeir sem hafa hingað til komið í veg fyrir að við fengjum einhvern smá skika fyrir mótorkrossbraut eignist ekki börn, barnabörn eða barnabarnabörn, sem verða jafn áhættusækin og ég. Og því síður að einhver þeirra verði með ADHD, því hjá því yndislega fólki eru hömlurnar oft ekki nálægt því eins miklar og þær voru samt hjá mér. Og mjög margir sem stunda mótorkross eru með ADHD og fá oft nánast alla sína útrás þar.

Það er nefnilega þannig að við verðum að hætta að reyna að troða öllum í sama helvítis kassann. Við erum nefnilega svo víðs fjarri því að vera öll eins og höfum svo ofboðslega mörg og mismunandi áhugamál. Ég get lofað ykkur því að þegar við loksins fáum mótorkrossbraut í Borgarbyggð þá fækkar skemmdum, afbrotum, árekstrum við önnur áhugamál og mörgu öðru sem illa hefur farið hingað til.

Þetta skrifa ég sem Borgnesingur, enda einn af þeim síðustu sem eru í raun fæddir í Borgarnesi, þrátt fyrir að vera fluttur til Akureyrar, því ég á ennþá megnið af mínu fólki í Borgarnesi; börn og barnabörn, og í raun eruð þið öll mitt fólk, því mér er annt um ykkur öll.

Ég svaraði líka Geirlaugu vinkonu minni (sem hafði svo oft hlustað á okkur frá MSB á fundum hjá Borgarbyggð) þegar hún spurði af hverju við þyrftum endilega að vera að flytja til Akureyrar, að það væri einfaldlega vegna þess að þar væri mótorkrossbraut. Hún gat því miður ekkert sagt við því.

 

Bergur Þór Jónsson.

Höf. er fyrrverandi formaður MSB, áhugamaður um nánast hvað sem er og mögulega alltaf Borgnesingur.