Af höfundarréttarvörðu grasi

Jón Gíslason

Ánægður er ég með metnaðinn hjá Reykjavíkurborg, engin meðalmennska þar a ferðinni.  Að kaupa höfundarréttarvarið gras (að vísu ekki sérlega fallegt) til skreytingar er klárlega punkturinn yfir i-ið. Líklega er höfundarréttarvarið gras „hannað“ af einhverjum ræktanda, kannski líka erfðabreytt, og flokkast þar með undir hönnun, og það er ekki nema sjálfsagt mál að borga vel fyrir hönnun. Annað mál  með það sem guð skapaði, það er ekki höfundarréttarvarið og því í lagi að fara hvernig sem er með það og borga lítið. Að vísu er dálítið illa gert að flytja inn strá frá Danmörku þetta árið, þar varð uppskerubrestur og því skortur á heyi, en markaðslögmálin hljóta að ráða hvar þau strá lenda sem upp komust. Danskir bændur geta bara keypt íslenskt hey í staðinn.

Þrennt veldur mér þó dálitlum áhyggjum. Í fyrsta lagi hvarflar það að mér að stráin kunni að bera þroskuð fræ og guð má vita hvar þau lenda. Það hlýtur að vera óþolandi ef höfundarréttarvarið erfðaefni lendir í höndunum á t.d. óvönduðum garðyrkjufræðingi. Í öðru lagi veit ég ekkert hvort svona dúnmelur þolir íslenska vetrarríkið,  kannski óþarfi að hafa áhyggjur af því, alltaf hægt að kaupa  meira af þessu. Í þriðja lagi velti ég fyrir mér heilbrigðiskröfum við svona innflutning.  Ef ég vil flytja inn kattargrey þarf hann alls konar heilbrigðisvottorð og svo að vera vikum saman í einangrun (ég þori ekki að minnast á stærri og gagnlegri dýr þó þau standi hjarta mínu nær). Stráunum hefur væntanlega fylgt vænn skammtur af jarðvegi, uppfullum af lífverum sem eru misvelkomnar hingað til lands. Skyldi þetta hafa farið í einangrun? Eða sótthreinsun? Eða skyldi MAST vita af þessu yfir höfuð?

Til hamingju Reykjavík!

 

Jón Gíslason, Lundi.

Fleiri aðsendar greinar