Af framboðsmálum í Hvalfjarðarsveit

Áskell Þórisson

Þegar líður á kjörtímabil er eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvort eigi að breyta til í sveitarstjórn í næstu kosningum. Tíminn er fljótur að líða en næstu sveitastjórnarkosningar verða í maí á næsta ári. Það skiptir máli hvernig staðið er að framboði og hvernig það er undirbúið.

Þegar ég kom fyrst í Hvalfjarðarsveit öttu tvö framboð eða flokkar kappi um hylli kjósenda. Síðan dofnaði áhuginn á sveitarstjórnarpólitíkinni og í kosningunum 2022 var svokallað persónukjör. Mér fannst í byrjun að persónukjör gæti verið heppileg leið en er nú kominn á aðra skoðun.

Með miða í kjörklefann

Kannski má kalla persónukjör „vasamiðaleið“ en fyrir síðustu kosningar voru margir með miða með nöfnum í vasanum þegar þeir fóru inn í kjörklefann. Nokkrir létu samborgara sína vita um áhuga sinn á að komast í sveitarstjórn en þeir voru klárlega færri en hinir sem létu slíkt eiga sig og reiddu sig á að vera komnir á góðan miða. Ég fékk einn slíkan og reyndi að leita mér upplýsinga um fólkið á honum en eftir á að hyggja voru þær upplýsingar ekki alltaf kórréttar eða nákvæmar.

Fulltrúar í sveitarstjórn, þar sem persónukjör hefur verið viðhaft, eiga ekki sambærilegt bakland og þar sem kosið hefur verið á milli lista. Það skiptir máli að fulltrúi í sveitarstjórn geti leitað í sína heimahöfn og rætt við þá sem völdu hann á lista. Í svona samvinnu og samráði liggur styrkur sem skiptir máli þegar teknar eru ákvarðanir á sveitarstjórnarfundum.

Rætt saman fyrir fund

Ég minnist þess frá Akureyri að fyrir bæjarstjórnarfundi komu félagar í flokksfélögunum saman og ræddu við fulltrúa sína í bæjarstjórn um það sem var á dagskrá bæjarstjórnarfundar næsta dag. Ég gef mér að þannig sé þetta yfirleitt í þeim sveitarfélögum þar sem eru listakosningar.

Ég er nokkuð viss um að persónukjör er fínt í fámennum sveitarfélögum þar sem allir þekkja alla – og íbúarnir þurfa ekki að fara með miða með nöfnum á kjörstað. Í litlu sveitarfélagi hafa allir gengið saman í skóla, fermst saman og unnið saman í ungmennafélaginu. Menn þekkja styrkleika hvers annars og þurfa enga aðstoð til að velja gott fólk.

Breytingar á íbúasamsetningu

Eftir að Melahverfið og Krosslandið komu til sögunnar fjölgaði þeim sem búa í Hvalfjarðarsveit án mikilla – ef nokkurra – tenginga við sveitirnar. Hvalfjarðarsveit er að breytast hratt úr sveit í frekar þéttbýlt samfélag með tvo íbúakjarna sem geta haft aðra afstöðu til hlutanna en sveitirnar. Ég er nokkuð viss um að nýir íbúar í Krosslandinu hafa aðra sýn á sameiningu við Akranes en þeir sem búa í sveitunum og ég er ekki frá því að þetta muni sjást greinilega í kosningunum á næsta ári. Nýir íbúar þekkja sjaldan til þeirra sem fyrir sitja á fleti. Ekki má gleyma Grundartanga sem er mikilvægur atvinnuveitandi en hann skiptir fólki líka niður í fylkingar og einkum þegar kemur að umhverfismálum.

Ég tel að breytingar á íbúasamsetningu og fjölgun íbúa í Hvalfjarðarsveit kalli á a.m.k. tvo framboðslista sem þurfa að kynna sig rækilega fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Við sem kjósum verðum að fá að vita um stefnumálin hjá þessum listum sem eiga að halda framboðsfundi, gefa út bæklinga og halda úti síðum á samfélagsmiðlum. Fólkið á listunum á líka að skrifa stuttar málefnalegar greinar og fá þær birtar í Skessuhorninu, Bændablaðinu og eigin heimasíðum svo dæmi séu nefnd.

Tveir eða fleiri listar í framboði

Lýðræðið kallar á fjöruga framboðsfundi þar sem menn takast á um stefnur og strauma. Lýðræðið byggir á því að allir kosningabærir taki þátt í samfélaginu – kjósi, starfi með flokkum, framboðum og taki þátt í opinberum nefndum. Lýðræðið flaug ekki í fang fólksins. Forfeður okkar þurftu að hafa mikið fyrir því. Ef fólk sýnir ekki lýðræðinu áhuga getur það koðnað niður á stuttum tíma. Ég er ekki viss um að fólk hrífist af því sem getur komið í staðinn.

Reynslan hefur kennt mér að það þarf yfirleitt að ýta við fólki þegar kemur að framboðum. Sjálfur mun ég beita mér fyrir stofnun framboðs fyrir kosningarnar 2026 og óska eftir einu af síðustu sætunum! Það er til fullt af frambærilegu fólki til að fylla baráttusætin. Eitt framboð kallar á fleiri. Það er lítið varið í sjálfkjörinn lista. Dæmi úr öðrum sveitarfélögum sanna það.

Einhverjir þeirra sem sitja í núverandi sveitarstjórn þurfa að halda áfram – jafnvel að búa til eigin lista. Það er slæmt ef allir í núverandi sveitarstjórn yfirgefa vettvanginn og að sveitarstjórnin 2026 – 2030 verði skipuð nýliðum. Heilsa og fjölskyldumál geta vissulega komið í veg fyrir að sveitarstjórnarfólk geti haldið áfram en það er eitthvað mikið að ef enginn úr fráfarandi sveitarstjórn vill gefa kost á sér. Ekki er hægt að mæla með því að allir í nýrri sveitarstjórn séu eingöngu nýliðar.

Hæft fólk með framtíðarsýn

Hvalfjarðarsveit er öflugt sveitarfélag og hér verður hæft fólk með framtíðarsýn að standa í brúnni á framboðum/listum vorið 2026. Það er ekki verið að vinna með neina smápeninga í Hvalfjarðarsveit, samanber það að nýja íþróttahúsið – sem kostar eitthvað um tvo milljarða – rís án þess að tekin sé króna að láni. Auðvitað sýnir þetta líka trausta fjármálastefnu sem er ágætt, en ég hefði reyndar viljað sjá grunnskóla og íþróttahús í Melahverfinu en það er önnur saga.

Nú þarf að fara að huga að stofnun framboða og fara í gang af krafti ekki seinna en næsta haust. Hvers vegna svona snemma? Er ekki nóg að hefjast handa þegar vorar 2026? Nei, ekki ef á að vanda til verka og ætlunin er að þeir sem stýra sveitarfélaginu þekki til þeirra málaflokka sem sveitarstjórnin þarf að glíma við. Gott væri að byrja undirbúninginn með umtalsverðri kaffidrykkju í september á Degi íslenskrar náttúru. Val á lista getur beðið þar til sól er komin sæmilega hátt á loft.

Nú ættu þeir sem búa í Hvalfjarðarsveit að hugsa málið.

 

Áskell Þórisson

Höf. er fyrrv. ritstjóri Bændablaðsins, býr í Ægissíðu við Innnesveg.

ask@simnet.is – s. 896 3313