Af fasteignagjöldum í Borgarbyggð

Guðsteinn Einarsson

Núverandi meirihluti og bæjarstýra gorta nú af lækkuðum fasteignagjöldum í Borgarbyggð árið 2022, lækkun sem var 0,01% af fasteignamati.

Þessi mikla og/eða stórfenglega lækkun leiddi til þess, að samkvæmt heimilsbókhaldinu á mínu heimili, þá hækkuðu fasteignagjöld af íbúðarhúsi fjölskyldunnar um tæplega tvöfalt verðlag milli ára eða 10,3% þegar verðlagsvísitala hækkaði á sama tíma um 5,7%.

Ef horft er til núverandi kjörtímabils 2018 til 2022 þá hækkuðu fasteignagjöld af íbúðarhúsi fjölskyldunnar um 36% á meðan neysluvísitalan hækkaði um 15,9%. Hækkunin á kjörtímabili núverandi meirihluta er því nokkuð yfir tvöfaldri hækkun neysluvísitölu.

Það þarf að stoppa þessa óheillaþróun í skattlagningu á íbúana. Meirihluti bæjarstjórnar og bæjarstýra geta ekki sótt dýpra og dýpra í vasa íbúa sveitafélagsins til þess að fjármagna endalaus afglöp og galnar hugmyndir þeirra um rekstur, fjárfestingar og viðhald eigna Borgarbyggðar.

 

Borgarnesi, 31. janúar 2022

Guðsteinn Einarsson.