Af Brákarhlíð og fráflæðisvanda Landspítala

Ingibjörg Hallbjörnsdóttir

Móðir mín er 88 ára gömul, búsett í Borgarnesi og hefur fengið vistunarmat fyrir hjúkrunarrými. Hún er nú á biðlista eftir slíku á Brákarhlíð og ekki fyrirsjáanlegt hvenær hún getur fengið þar vistun – engin svör fást um það og ekki eru heldur neinar upplýsingar um lengd biðlistans.

Nýverið birtist frétt í Skessuhorni um að náðst hefðist samkomulag milli stjórnar Brákarhlíðar í Borgarnesi og heilbrigðisráðuneytisins um fjölgun hjúkrunarrýma á Brákarhlíð. Í samkomulaginu felst að fimm dvalarrýmum heimilsins verður breytt í fimm hjúkrunarrými fyrir Landspítala og því til viðbótar fær Brákarhlíð tvö ný varanleg hjúkrunarrými. Breytingar dvalarrýmanna fimm í hjúkrunarrými munu taka gildi eftir því sem rými losna á Brákarhlíð. Með öðrum orðum, í hvert sinn sem hjúkrunarrými losnar, þá fær Landspítalinn það, en ekki móðir mín þó svo hún búi í næsta húsi og hafi fengið vistunarmat. Landspítali á fyrir fjögur hjúkrunarrými á heimilinu og verður því samtals með níu af þeim 35 rýmum (samkvæmt vefsíðu Brákarhlíðar eru þau 35) sem heimilið hefur yfir að ráða eða ríflega fjórðung. Það er afar hátt hlutfall af því sem er til ráðstöfunar og væri áhugavert að vita hlutfallið hjá öðrum dvalar- og hjúkrunarheimilum í umdæmi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.

Fréttina mátti skilja á þann veg að það væri sérstakt fagnaðarefni stjórnenda Brákarhlíðar að þessir samningar hefðu náðst þrátt fyrir að hjúkrunarrýmin séu aðeins tvö og hvergi komi fram að einstaklingar með lögheimili í sveitarfélaginu njóti forgangs í þau. Kannski er það fagnaðarefni fyrir fjárhag Brákarhlíðar og vissulega hlýtur það að vera svo fyrir ráðuneytið og Landspítalann. Fyrir einstaklinga í bráðri þörf fyrir hjúkrunarrými í sveitarfélaginu er það hins vegar ekki þannig. Ekki leikur neinn vafi á því að Landspítalinn mun nýta þau hjúkrunarrými sem samið hefur verið um til hins ítrasta þó í fréttinni kæmi fram að ef svo væri ekki myndi Brákarhlíð geta nýtt þau en þó aðeins til hvíldarinnlagna. Endurteknar fréttir af fráflæðisvanda Landspítalans gefa ekki tilefni til slíkrar bjartsýni.

Mamma er með minnisglöp, langt gengið krabbamein í munni sem gerir að verkum að hún á erfitt með að nærast og er um flesta hluti ósjálfbjarga. Hún fær þó þjónustu frá heilsugæslunni á morgnana virka daga og dagvist í Brákarhlíð sem ber að þakka en á kvöldin og um helgar þarfnast hún einnig umönnunar og hana höfum við aðstandendur hennar tekið að okkur þrátt fyrir nokkra fjarlægð frá heimili hennar. Þó við fjölskyldan séum öll af vilja gerð erum við ekki það sérhæfða heilbrigðisstarfsfólk sem hún þarf svo sárlega á að halda.

Mamma fylgdi samviskusamlega þeirri stefnu stjórnvalda að búa heima sem lengst án mikillar aðstoðar. Þegar veikindi hennar fóru að ágerast seinni part sumars og engar lausnir voru í sjónmáli var mér sagt frá því af nefndarmanni í færni- og vistunarmatsnefnd umdæmisins að hjúkrunarrými væri laust á Skjólgarði á Höfn og hvort að það gæti verið lausn í stöðunni þar sem systir okkar væri búsett þar. Okkur þótti þetta heldur kaldar kveðjur til mömmu og hálfgerðir hreppaflutningar um 530 kílómetra leið. Kannski verður endirinn þó sá að við verðum að sætta okkur við að þangað fari hún eftir að hafa búið alla sína ævi á því landsvæði sem nú er nefnt Borgarbyggð. Okkur hefur reyndar ítrekað verið sagt af starfsmönnum heilsugæslunnar að ef mamma gæti ekki reist höfuð frá kodda væri ekkert annað í stöðunni en fá sjúkrabíl og senda hana á sjúkrahúsið á Akranesi hverju svo sem sá gjörningur átti að skila til lengri tíma. Komi upp sú staða munum við óska eftir því að hún verði send á Landspítalann og í framhaldinu í biðhjúkrunarrými á Brákarhlíð.

Það er í sjálfu sér göfugt markmið að aðstoða stjórnvöld í þeirra vanda þrátt fyrir að fórnarkostnaðurinn verði mun meiri en ávinningurinn. Í samtölum við forsvarsfólk Brákarhlíðar höfum við fengið þau svör að enginn hafi lýst yfir óánægju með þessa samninga og er það reyndar umhugsunarefni en ég tek þá að mér að vera fyrst til þess.

 

Ingibjörg Hallbjörnsdóttir

Höfundur er brottfluttur Kolhreppingur