Af Bláu könnunni

Axel Freyr Eiríksson

Ein af þeim sögum sem hafa fylgt mér síðan ég var barn er sagan um Bláu könnuna. Sagan, sem er eftir Alice Williamson, fjallar um litla bláa könnu sem leiðist uppi á hillunni sem hún er á. Hún hittir fyrir fjöldan allan af fólki sem á leið hjá og biður það um að hjálpa sér niður, henni er neitað um bón sína í hvert sinn, alveg þangað til að svarti kötturinn með rauðu augun mætir á svæðið. Og þeir sem hafa lesið alla þessa bók vita hvernig það stefnumót endar, tómleikinn sem þið hafið fundið við flettingu þessarar bókar er eðlilegur. Það sem slær mig mest þegar ég fletti bókinni er að kannan er svo glöð þegar hún er komin af stað þegar kötturinn ýtir henni niður, hún brosir alla leiðina niður. Svo þegar hún liggur brotin á gólfinu sjáum við votta fyrir tárum. Kötturinn myrðir könnuna og við sem lesum bókina stöndum hjálparlaus og horfum á.

Bláa kannan er sú fyrsta í röð smábarnabóka sem kallast því skemmtilega nafni „Skemmtilegu Smábarnabækurnar“ og er undirritaður sammála því að hluta til sökum þessarar bókar. Græni hatturinn er ekki að hjálpa til. Ég hef lesið flestar bækurnar sjálfur þegar ég var ungur að árum og svo fyrir strákana mína. Buni Brunabíll, Hamingjusami maðurinn og vörubíllinn hans eru í uppáhaldi, Litla rauða hænan er ansi sterk líka. En aftur að Bláu könnunni, hvers vegna er ég að skrifa um hana? Eftir lestur á henni standa eftir spurningar; hvers vegna vildi kannan fara niður og hvers vegna vildi enginn hjálpa henni? Og stóru spurningarnar! Hvaðan kom allt þetta fólk? Hvar er Bláa kannan? Ég er ekki einn um þessar hugrenningar. Á vefnum er að finna ítarlega greiningu á þessu verki Alice Williamson, sú grein ber heitið; „Heimspeki eymdarinnar“ eftir Arngrím Vídalín, aðjunkt í íslensku og bókmenntafræðing. Bláa kannan er túlkuð af greinarhöfundi sem eins konar kristsmynd. Hann segir boðskap hennar tekið fálega meðal þeirra sem valdið hafa (fólkið sem Bláa kannan talar við) til að breyta heiminum (sem í þessu tilviki er hilla), hún reynir að ná til fólksins í kringum sig en er að lokum svikin og tekin af lífi. Á öftustu síðu er hún svo risin aftur upp til æðri tilveru, svona eins og Jesú. En er kannan Jesú?

Önnur pæling sem greinarhöfundur býður upp á er öllu sennilegri og mér hugnast hún betur, hún „fittar billið“ betur. Sú túlkun tengir Bláu könnuna við þá stórkostlegu mynd Brazil eftir Monty Python-liðan Terry Gilliam. Tómleikinn sem lesandinn finnur við lestur bókarinnar passar nákvæmlega við tilfinninguna þegar við sjáum persónu Jonathan Pryce heiladauðan í lokin. Það sem við sáum í myndinni voru hinstu hugrenningar aðalpersónunnar, alveg eins og þegar við sjáum Bláu könnuna stráheila á síðustu blaðsíðunni. Bláa kannan óskar sér burtu á betri stað en raunveruleikinn er svo miklu kaldari. Bláa kannan er dauð og verður aldrei meir. Terry Gilliam hefur, eins og Arngrímur skrifar svo réttilega, örugglega haft Bláu könnuna sem fyrirmynd fyrir þessa mynd sína. Það getur ekki annað verið. Bláa kannan fjallar um falsvon, um upprisu og betri tíð sem kemur ekki. En samt, ég mun örugglega lesa Bláu könnuna aftur. Þetta eru alvöru bókmenntir, alvöru stöff, ekki bara um Hagamús sem týnist frá mömmu sinni.

Aðrar bækur sem gætu snúist um annað en þær virðast vera, eru dýpri en þær virðast vera: Piparkökudrengurinn, Hamingjusami maðurinn og vörubíllinn hans og Litla rauða hænan.

 

Góðar stundir,

Axel Freyr Eiríksson