Af bandarískum fótbolta og matargerð

Axel Freyr Eiríksson

Árið er 1997 og vinur minn er nýbúinn að eignast Playstation tölvu. Við setjumst niður í herberginu á Einigrundinni og í er settur leikurinn Madden 97. Leikurinn snýst um bandarískan fótbolta og einu leikkerfin sem ég vel er Shotgun og Slant route. Shotgun er kerfi sem dreifir útherjunum út á völlinn og leikstjórnandinn stendur 5-7 yarda fyrir aftan sóknarlínuna, til að kaupa sér meiri tíma á meðan útherjarnir hlaupa á fullu gasi upp völlinn. Uppáhaldskerfi margra því það er svo hreint og beint sóknarkerfi, ef þú ert að leita að hliðstæðu kerfi í enskum fótbolta þá er kannski hægt að nefna uppáhaldskerfi Sam „the mouth“ Allardyce sem er „long ball“, no brains – all guts.

Hitt kerfið sem ég valdi var Slant route í ýmsum útgáfum. Slant kerfin byggjast að miklu leyti á því að tveir útherjar taka 45° beygju inn á völlinn í stað þess að hlaupa beint upp völlinn, er þetta oftast gert til að hrista upp í Cover 2 vörninni sem Tampa Bay Buccaneers undir stjórn Tony Dungy notuðu með miklum árangri, svo miklum að þeirra útgáfa af Cover 2 gengur undir heitinu Tampa 2. Rosalegt allt saman.

Eftir þessa fyrstu kynningu á bandarískum fótbolta fékk ég svolítinn áhuga á íþróttinni en sökum lítils áhuga hér heima og Game Pass var ekki til þá horfði ég lítið á fótboltann, las þeim mun meira um hann og það fyrsta sem ég vissi um bandarískan fótbolta var að Brett Favre var flottur gaur, enda nýbúinn að vinna Ofurskálina um árið með Green Bay Packers. Sá leikur var skartaði hvorki meira né minna en 6 frægðarhallarmeðlimum sem eru eftirtaldir: Ty Law, Curtis Martin, Brett Favre, Reggie White, Ron Wolf og síðast en ekki síst minn maður Bill Parcells. Kynnarnir í leiknum árið 1997 voru Pat Summerall (frægur kynnir) og maðurinn sem leikurinn sem ég spilaði á Einigrundinni er nefndur eftir – John Madden.

Afhverju er ég að tala um þetta? Nú, bandarískur fótbolti er að ryðja sér til rúms (loksins) hér á Íslandi og æ fleiri eru að fylgjast með. Fólk er byrjað að velja sér lið til að styðja og sjónvarpið er að bjóða upp á beinar útsendingar. Ofurskálin (Super Bowl) er að verða að skemmtilegum viðburði í lífi margra sem nota tækifærið til að hittast og skemmta sér til að horfa á leik ársins. Þessi leikur var ekki mikið fyrir augað stigalega séð, eiginlega algert þrátefli. Varnarlega séð var þetta stórkostlegur leikur. Þetta er svona mini-HM kvöld á hverju ári, því Kaninn kann þetta. Ég meina, þeir eru „World Champs“ – heimsmeistarar, sama á við um hafnarboltann sem notast við „World Series“.

Það er reyndar eitt sem pirrar mig óstjórnlega, ekki lítið reyndar. Það komst nefnilega frétt eða umfjöllun um Ofurskálina í hringrásina sem gefur svolítið skakka mynd af þessu öllu saman að mínu mati (þú mátt kalla mig Grinch eftir þetta, mér er drullusama). Fréttin fjallaði um hvar Íslendingar gerðu á Ofurskálakvöldinu. Svo ég sjóði þetta niður fyrir þig: Samkvæmt fréttinni er meirihluti NFL áhorfenda á Íslandi túristar með saumaklúbbakomplexa. Þeir hugsa meira um hvað þeir ætli að borða á meðan á leiknum stendur og þeim er skítsama um hver vinnur. Leið liðanna beggja í Ofurskálina er þeim hulin, eina sem þeir vita er að svínarifin þurfa að vera í stofuhita áður en þau fara á grillið og veðbankarnir segja að Patriots vinni, kannski Sous-Vida þeir rifin líka, það á eftir að koma í ljós.

Þá kemur sú spurning upp; túristi? Hvað meinar hann með því? Sko í þessu samhengi tala ég um túrista sem einstakling sem klæðist treyju með liðinu sem er að spila hverju sinni, hann heldur ekki með liðinu en gerir það þarna. Til dæmis sagðist einn halda með Atlanta Falcons en ætlaði samt að klæðast Brady treyjunni sinni, Tom Brady er leikstjórnandi New England Patriots. Þessi maður átti fleiri búninga.

En hvað um það, Patriots unnu og eru nú búnir að jafna mitt lið (Pittsburgh Steelers) í Ofurskálartitlum (6) og það með einungis einum leikstjórnanda og þjálfara síðustu 18 árin: Tom Brady og Bill Belichick, eins og Kaninn myndi segja: „how about them apples“.

Allavega, ég vona að fleiri taki það upp hjá sér að sitja og horfa á heilt tímabil af bandarískum fótbolta og ef það þarf mat yfir Ofurskálinni (leiðin að hjarta mannsins/ konunnar er víst í gegnum magann) þá er ég sáttur.

Kveðja,

Axel Freyr

Fleiri aðsendar greinar