Ætla Snæfellingar að fórna Skógarströnd og Hnappadal?

Reynir Ingibjartsson

Ég var að skoða svæðisskipulag Snæfellsness til ársins 2026. Þar kemur glöggt fram að fyrrum sveitarfélögin; Skógarstrandarhreppur og Kolbeinsstaðahreppur, eru hvergi nefnd á nafn sem hluti Snæfellsness. Hálfur Álftafjörður er utan þess og áberandi fjöll og kennileiti s.s. Skyrtunna, Hestur og Sáta eru aðeins að hálfu leyti á Snæfellsnesi. Hvergi er minnst á Hnappadal en Heydalsvegur reyndar skilgreindur sem ,,rólegur” ferðamannavegur eins og leiðin yfir Jökulháls.

Fyrir nokkrum árum var samþykkt með minnsta meirihluta bæði í Skógarstrandarhreppi og Kolbeinsstaðahreppi að sameinast í austur og suður. Skógarströnd tilheyrir nú Dalabyggð og Kolbeinsstaðahreppur Borgarbyggð. Öldum saman voru þó þessir hreppar hluti Snæfellsness eins og konungurinn sjálfur – Snæfellsjökull. Það er því einfaldlega rangt að skilgreina nú Snæfellsnes án þessa hluta nessins. Sögulega, menningarlega og landfræðilega eru Kolbeinsstaðahreppur og Skógarstrandarhreppur hluti af Snæfellsnesi og svo á að sjálfsögðu að vera áfram.

Hvað segja íbúarnir í þeim hluta Snæfellsness sem nú er kallað Snæfellsnes? Finnst þeim þetta bara allt í lagi? Og hvað segja þeir sem nú eiga búsetu á Skógarströnd eða í Kolbeinsstaðahreppi? Finnst þeim allt í lagi að vera komnir suður í Borgarfjörð og inn í Dali? Og hvað segja hinir brottfluttu? Er bara allt í lagi að ræturnar séru fluttar í aðrar byggðir?

Nú hafa ýmsir allt í einu uppgötvað að Skógarstrandarvegur sé ekki bílum bjóðandi. Lengst af var hann þó öllum ráðamönnum gleymdur. En hvergi er samt minnst á Heydalsveg enda bara rólegur ferðamannavegur. Var þó á sínum tíma talinn kjörinn vetrarvegur þegar Holtavörðuheiðin tepptist. Er ekki kominn tími til að Snæfellingar – ráðamenn sem aðrir, beiti sér af alvöru í að gera þessa vegi sambærilega við aðrar leiðir á Snæfellsnesi? Það er í raun ótrúlegt að Vatnaleiðin svokallaða sem kom í stað Kerlingarskarðsins, hafi í reynd klofið frá, eystri hluta Snæfellsness að stórum hluta! Þar með gleymdust Skógarstrandarvegur og Heydalsvegur.

Löngum hafa stoltir Snæfellingar og Hnappdælir talið Eldborg til höfuðprýða Snæfellsness. Mótmælt var kröftuglega þegar einhverjir utanhéraðsmenn sögðu hana vera á Mýrum. Þeir sem áhuga hafa á jarðfræði koma langan veg til að ganga á Eldborg og berja hana augum. Skiptir Eldborg ekki lengur máli þegar verið er að vegsama Snæfellsnesið í bak og fyrir? Er jarðfræði Hnappadalsins og allar eldstöðvarnar þar, ekki einu sinni einnar messu virði? Og hvað með Brokey og Öxney og allar hinar eyjarnar sem tilheyra Skógarströnd? Þar voru þó íslenskar söguslóðir Eiríks rauða. Og ýmislegt er í Landnámu og Eyrbyggju um Skógarströnd.

Svona má lengi telja. Svæðisskipulagið sem hér er vitnað til, nær til ársins 2026. Áður en komið er að næstu skrefum – er ekki fyllsta ástæða til að endurskoða skilgreininguna – hvað er Snæfellsnes og skilja ekki Skógarströnd og Hnappadal eftir sem útrunna skika?

 

Reynir Ingibjartsson, höfundur korta og gönguleiðarbókar um allt Snæfellsnes.

Netfang: reyniring@internet.is.

Fleiri aðsendar greinar