Æ sér gjöf til gjalda?

Óðinn Sigþórsson

Eins og velgengni er eftirsóknarverð er vandlifað með henni. Ofmat okkar sjálfra vill stundum kosta velgengnina sjálfa. Þá hverfur velgengnin okkur eins og dögg fyrir sólu.

Við kjördæmabreytinguna sem fyrst var kosið eftir árið 2003 myndaðist stórt kjördæmi margvíslegra og ólíkra hagsmuna, Norðvesturkjördæmi. Engu er logið þegar sagt er að ekkert annað kjördæmi hýsi ólíkari hagsmuni en okkar ágæta kjördæmi. Það leggur að mínu mati ríkar skyldur á herðar þeirra er fyrir það kjördæmi veljast til setu á Alþingi. Að geta samsamað sér við allar þessar ólíku aðstæður og á sama tíma áunnið sér traust þeirra ólíku sjónarmiða sem í fulltrúm annarra flokka og kjördæma búa.

Á síðustu tveimur kjörtímabilum, sem þó vara einungis í rúm fimm ár, höfum við sjálfstæðismenn á Vesturlandi lagt þingmannaliði Norðvesturkjördæmis til tvo trausta liðsmenn. Annar þeirra Haraldur Benediktsson þá alþingismaður frá árinu 2013 hlaut óskorað umboð til þess að leiða lista flokksins í kosningum fyrir rúmum fjórum árum.Í sömu kosningum hlaut einnig kosningu sem þingmaður kjördæmisins Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Með samstilltu átaki tókst að ná kjöri þessara þingmanna þó úr sama baklandinu væru komin í svo ólíku kjördæmi sem raun ber vitni. Haraldur hefur síðan verið fyrsti þingmaður kjördæmisins og sýnt líkt og í fyrri störfum að hann er maður framkvæmda, ekki síður en orða.

Frammistaða þeirra beggja hefur æ síðan verið með ágætum. Það var svo eftir síðustu kosningar að Haraldur Benediktsson ákvað af drengskap sínum að víkja til hliðar og lýsti stuðningi við að Þórdís Kolbrún yrði ráðherra í ríkisstjórn. Ég gagnrýndi Harald fyrir þetta þar sem löng reynsla er fyrir því að pólitískir greiðar eru sjaldan endurgoldnir. Hann sagði hinsvegar að hann hugsaði um liðsheildina og ætlaði að láta kynjasjónarmið ráða.

Nú hefur varaformaður flokksins lýst því yfir að hún hefur ákveðið að sækja að forystusæti Haraldar. Að forystumaður flokks sæki gegn sitjandi oddvita er ákvörðun sem þarf að eiga sér ríkar ástæður. Þær hafa ennþá ekki komið fram.  Þá er útlit fyrir að varaformaður flokksins hafi gert bandalag við annan frambjóðanda gegn sitjandi oddvita. Slíkt er fáheyrt ef rétt er. Nú horfa flokksmenn upp á að takist varaformanninum ætlunarverk sitt að fella Harald úr oddvitasæti mun slíkt veikja flokkinn í komandi kosningum og gildir þá einu hvernig sæti skipast að öðru leyti.

Svarið við þeirri stöðu sem upp er komin er því aðeins eitt:

Það er samstaðan um áframhaldandi setu Haraldar í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í komandi prófkjöri.

 

Óðinn Sigþórsson.

Höfundur er bóndi.