Aðgengi Akurnesinga að Jaðarsbakkalaug

Hallbera Fríður Jóhannesdóttir

Jaðarsbakkalaug er perla. Hún er sundlaug tæplega 8.500 íbúa Akraness. Þar er frábært og elskulegt starfsfólk og hreinlæti til fyrirmyndar. Hún er að jafnaði vel sótt af almenningi og þar fara fram sundæfingar og sundkennsla 700 nemenda Grundaskóla. Sundkennarar og þjálfarar þurfa oft að vinna við krefjandi aðstæður. Veðrið leikur þá og nemendur þeirra stundum grátt en ótrúlegt hversu hugmyndaríkir þeir eru að virkja krakkana svo engum verði kalt. Varla boðlegar aðstæður og því löngu orðið tímabært að byggja yfirbyggða sundlaug.

Hingað til hefur gengið nokkuð vel að kennarar, nemendur og almenningur komist af í sátt og samlyndi. En nú eru blikur á lofti og tekist hefur að búa til vandamál sem ekki var áður.

Þegar fastagestir Jaðarsbakkalaugar mættu að morgni 26. ágúst sl. blasti við þeim skjár með stundaskrá vegna sundkennslu. Þar kom fram frekari þrenging á þeim tíma sem hægt er að synda, en pottarnir og gufan áfram opin. Allir hafa skilning á því að það tekur tíma og pláss að kenna 700 börnum sund. Hins vegar er almenningi meinaður aðgangur að klefum laugarinnar og vísað í gömlu klefa knattspyrnufólksins og það er erfiðara að sætta sig við. Klefana er búið að mála og fyrir ofan snagana eru litlir læsanlegir skápar undir verðmæti. Sá galli fylgir þó gjöf Njarðar að eins lykill gengur að öllum skápunum! Nokkrir hankar eru til þess að hengja handklæðin á en engin aðstaða til að geyma sjampó. Engin aðstaða fyrir mæður með lítil börn. Ekki er hægt að loka dyrunum og plasthengi þar fyrir flaksar til í trekknum og þá glittir í gamla kroppa. Plastmottur eru á gólfum, alltaf blautar, og leiðin að pottunum liggur eftir ganginum þar sem gestir geyma skóna sína. Ekki líkar öllum að þurfa að ganga þessa leið á sundfötum auk þess sem nokkrir eiga erfitt með gang. Einhverjir hafa maldað í móinn en fátt er um svör. Þó koma þau svör að börnin eigi að koma í fyrsta sæti og að einhverjum líði illa vegna afskiptasemi gesta í klefunum. Þessi breyting sé vegna óska foreldra barna í Grundaskóla og að þetta sé svona mjög víða í sundlaugum og þeim jafnvel lokað á meðan skólasund er í gangi.

Þetta er gert án fyrirvara, án samráðs við notendur og án formlegrar samþykktar. Eina sem undirrituð fann var bókun í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 19. febrúar um; ,,ósk frá foreldrafulltrúum Grundaskóla að sundlaugin á Jaðarsbökkum verði lokuð fyrir almenningi meðan á sundkennslu stendur.“

Jaðarsbakkalaug er sundlaug allra bæjarbúa og fram hjá því er ekki hægt að líta. Þeir sem helst verða fyrir barðinu á ofangreindri framkvæmd er eldra fólk, sem heilsu sinnar vegna stundar laugina að morgni til og hefur gert í fjölda ára, vegna þess að sá tími dagsins hentar því best. Ekki eru allir sem synda, en sundkennarar hafa verið liðlegir við þá sem þess óska. Þar hefur fólk synt nokkrar ferðir og gert liðkandi æfingar. Allt liður í að halda heilsu og þreki – í íþróttabænum Akranesi. Nú er þetta fólk orðið annars flokks gestir, ýtt út í horn í hráslagalega klefa. Tími til sundiðkunar sífellt takmarkaðri og látið að því liggja að almenningur sé orðin ógn við líðan barna. Íslensk sundlaugarmenning er einstök og hver hefur ekki orðið vitni að vandræðagangi útlendinga við að afklæðast fyrir framan aðra? Ætlum við virkilega að koma því inn hjá börnunum okkar að það sé óþægilegt að vera í sama klefa og eldra fólk? Hjá nemendum Grundaskóla sem hingað til hafa flest farið ein í sund um leið og þau mega, 10 ára gömul?

Vegna eftirfarandi staðhæfingar sem birtist í frétt á heimasíðu kaupstaðarins 28. ágúst sl.: Almennt er reglan á Íslandi sú að í bæjarfélögum þar sem aðeins ein sundlaug er í boði þá er hún lokuð almenningi á skólatíma, ákvað ég að spyrjast fyrir.

Ég sendi tölvupóst á sundlaugar vítt og breitt um landið og spurði: „Er sundlaugin ykkar lokuð almenningi á meðan á skólasundi stendur? Ef ekki – verður almenningur að fara í aðra klefa en börnin?“ Ég hef fengið 16 svör þegar þetta er skrifað. Almenna reglan er að sundlaugum er hvorki lokað né almenningi vísað úr klefum.

Á Húsavík hafði lauginni verið lokað þar til fyrir fjórum árum en þá var því fyrirkomulagi hætt og þar eru allir sáttir. Í Árbæjarlaug og á Selfossi hefur verið hægt að hólfa búningsklefana að einhverju leiti. Í Laugardalslaug hefur umræða um sér klefa fyrir skólasund komið upp en ekki orðið af, ætti þó að vera pláss. Í Reykjanesbæ er Stapalaug lokuð til kl. 15:00 vegna skólasunds og í Sundmiðstöðinni eru sér klefar fyrir börn í skólasundi og sambærilegir klefar fyrir almenning. Og frá Hafnarfirði kom eftirfarandi svar: „Í Hafnarfirði deila skólabörn og almennir gestir búningsklefum lauganna þegar það er skólasund. Ávallt þegar skólabörn eru í búningsklefum á leið upp úr eða ofan í laug er gæsla í klefunum á vegum starfsmanna lauganna.“

 

Það var ekki vel staðið að þessum breytingum á aðgengi eldri fastagesta að búningsklefum Jaðarsbakkalaugar. Var t.d. tekið saman hversu mörg börn kvörtuðu undan gestum og hvers vegna afskiptin áttu sér stað? Var reynt á einhvern hátt að styðja við þau börn sem eru óörugg og líður illa í sundi en fyrir því geta verið margs konar ástæður? Skólafólk veit að í klefum sundlauga og íþróttahúsa á einelti sér oft stað. Getur ekki viðvera fullorðinna einstaklinga þar inni verið jafnvel verndandi fyrir fórnarlömb eineltis?

Lausnin sem mér finnst blasa við er sú að það sé ALLTAF GÆSLA inni í klefunum, þegar nemendur eru á leið ofan í laug eða upp úr. Þá er enginn óviðkomandi að skipta sér af börnunum. Ef starfsfólk laugarinnar nær ekki að sinna þessu verður skólinn að leggja til starfsmenn.

Að lokum þetta. Ég skora á þá sem tóku þessa ákvörðun að íhuga hana betur. Þetta er ákvörðun sem snertir líðan fleiri en nemenda Grundaskóla og snýr að aðgengi að sundlaug allra bæjarbúa. Hleypið fullorðna fólkinu aftur í klefa sundlaugarinnar og eflið gæslu. Þá þarf enginn að hætta að stunda þessa hollu hreyfingu.

Bæjarstjórnina hvet ég til að hefja undirbúning að byggingu nýrrar sundlaugar.

 

Hallbera Fríður Jóhannesdóttir

Höf. er sundiðkandi og kennari á eftirlaunum.