Aðeins meira um prófkjör Pírata í NV kjördæmi

Lilja Magnúsdóttir

Í Kvennablaðinu þann 6. september s.l. birtist grein Andrésar Helga Valgarðssonar „Um prófkjör Pírata í Norðvestur kjördæmi“.  Sem fyrrum meðlimur kjördæmisráðs Pírata í Norðvestur finn ég mig knúna til að leiðrétta ýmsar villur sem fram komu í þessari grein og bæta við örlitlum fróðleik.

Undirrituð var skipuð í kjördæmisráð Norðvestur eftir mikinn vandræðagang, þar sem fyrrum meðlimir ráðsins voru nánast allir komnir sjálfir í prófkjör. Þegar þar var komið sögu var lögsaga prófkjörsins komin til framkvæmdaráðs Pírata sem hafði tekið prófkjörsreglur og breytt lokuðu prófkjöri í opið. Það vakti undrun að undir þær nýju prófkjörsreglur skrifar framkvæmdaráð með Halldóru Sigrúnu Ásgeirsdóttur innanborðs sem þá þegar hafði tilkynnt að hún hyggði á framboð í þessu sama kjördæmi. Nú tók við vinna hjá nýju kjördæmisráði að snúa þessu við en aðildarfélögin, Píratar á Vesturlandi og Píratar á Vestfjörðum, náðu ekki saman, enda hagsmunir ólíkir. Píratar á Vesturlandi vildu takmarka kosningarétt við félagsmenn með kjörgengi í kjördæminu á meðan Vestfirðir vildu opið prófkjör fyrir alla félagsmenn á landsvísu. Meðlimir kjördæmisráðsins voru þrír, einn frá hvoru aðildarfélagi og svo oddamaður, kosningastjóri flokksins, sem kom með þá yfirlýsingu strax í upphafi að hann myndi ekki skerast í leikinn og taka af skarið, menn yrðu að leita lausna. Þegar enginn gaf eftir og allt stóð fast, stutt í kosningar og pressa komin á mannskapinn var þrautalendingin sú að hafa lokað prófkjör en opna staðfestingarkosningu, þar sem listinn yrði staðfestur eða felldur af skráðum Pírötum á landsvísu.

Þegar niðurstaða kosningarinnar varð ljós fór að bera á óánægju þeirra Vestfirðinga enda þeirra maður frekar svekktur með sinn hlut og vildi ofar. Kæra vegna smölunar fór í gang og símhringingar fóru að berast. Aðilinn í þriðja sæti sem og aðilinn í fjórða sæti fengu símhringingar frá kosningastjóra og meðlimum framkvæmdaráðs þess efnis að Gunnar Ingiberg gerði kröfu á að komast ofar á lista og menn voru beðnir um að færa sig til í hans þágu. Rökin sem notuð voru snérust um að koma Vestfjörðum ofar á blað. Gunnar Ingiberg er hinsvegar ekki Vestfirðingur, hann er ættaður úr Stykkishólmi og býr í Kópavogi.  Lögheimilið flutti hann reyndar á Ísafjörð „korteri“ fyrir prófkjör en þar er hann til sjós. Hafsteinn Sverrisson, sem fékk kosningu í þriðja sætið eftir endurútreikninga, er hinsvegar borinn og barnfæddur Ísfirðingur og bjó þar í tæp fjörtíu ár en það þótti ekki þess virði að skoða þá tengingu nánar.

Símhringingar, tölvupóstar og fundir þess efnis um að fólk myndi færa sig neðar á lista til að koma Gunnari Ingiberg ofar báru ekki árangur. Þingmaður flokksins, Birgitta Jónsdóttir, fór hamförum á leynilegri síðu flokksins þar sem hún sagðist þekkja mann og annan í heimabæ Þórðar Péturssonar, efsta manns á lista, sem gættu sagt sér hitt og þetta um manninn..

Framkvæmdaráð flokksins sat á kærunni í nokkra daga þar sem hún gleymdist í tölvupósthólfi ráðsins en Vestfirðir tóku að fjölmenna af listanum. Kópavogsbúinn, Gunnar Ingiberg, hélt sig til hlés og símhringingar gerðust tíðari.  Þegar staðfestingarkosning hófst, fór að bera á áróðri framámanna í flokknum þess efnis að mönnum bæri að hafna þessum lista. Fór þar fremst í flokki andlit flokksins, Birgitta Jónsdóttir og kosningastjóri flokksins Jóhann Kristjánsson. Undirrituð átti einmitt samtal við þann síðarnefnda sem fór hamförum í að útlista nákvæmlega hversu mikilvægt það væri að Gunnar Ingiberg kæmist ofar á listann, „til að ná sáttum meðal frambjóðenda“.

Áróðurinn var gengdarlaus á facebooksíðum flokksins, bæði opinberum og óopinberum. Símtöl héldu áfram að berast um allt land. Fólk var beðið um að fella listann og ýmiskonar rökum slengt fram, efstu menn væru ekki þekktir innan grasrótarinnar í Reykjavík, það væri ekki nógu margar konur á listanum og það þyrfti að rétta við hlut Vestfirðinga. En fyrst og fremst var sú ástæða nefnd að smölun væri ekki liðin innan flokksins. Allavega ekki úr þeirri átt sem talin var hafa verið í baráttu efsta manns á listanum.

Að lokum fór það svo eftir úrskurð úrskurðarnefndar að listinn var felldur. Þess má geta að samkvæmt lögum Pírata þá er úrskurðarnefnd til þess eins að fjalla um mál þar sem brotið er á lögum Pírata á landsvísu. Kæran snérist ekki um landslög flokksins og með ólíkindum að þar réði mestu, ef rýnt er í textann, álit forritara flokksins sem áður hafði komið sinni skoðun á þessari kosningu á framfæri. Ólafur B. Davíðsson, tölfræðingur, sem einnig  var fenginn til að meta gögnin komst að annarri niðurstöðu en forritarinn en það var látið liggja á milli hluta.

Listinn var felldur með með tæplega 55% atkvæða. Hefði listinn verið samþykktur með slíkum meirihluta hefði sú kosning án efa ekki þótt sannfærandi sigur.  Já sögðu 119 en nei sögðu 153. Þarna munaði 34 atkvæðum.

Við tók undirbúningur fyrir seinni lotu kosninga og nú á landsvísu og símtölin héldu áfram að berast, ekki bara frá Birgittu Jónsdóttur heldur einnig fleirum. Nú skyldi koma Gunnari Ingiberg upp um sæti og hafa í hávegum dreifingu á listanum Vestfjörðum til handa.  Gunnar Ingiberg hlaut 2. sætið í seinni kosningunni. Og í raun toppsætið þar sem Eva Pandóra, sigurvegari kosningarinnar dvelur á fæðingadeildinni á Akureyri þegar þetta er skrifað og verður eðlilega fjarri kosningabaráttunni.

Þeir sömu og lýstu yfir óánægju sinni með einsleitan lista voru nú hæstánægðir þó fjöldi kvenna væri sá hinn sami og áður. Þeir sem kvörtuðu sáran yfir að vinnumenn grasrótarinnar hefðu ekki náð árangri voru líka hæstánægðir þó svo að Eva Pandóra hefði ekki komið nálægt grasrótarstarfi flokksins. Og þeir sem kvörtuðu yfir smölun voru alsælir með að þeirra eigin smölun bar tilætlaðan árangur og þeirra maður sigurvegari.

Nákvæmlega svona er prófkjörsbaráttan í norðvestrinu búin að vera hjá Pírötum og ekki öðruvísi.

Bara svona til að taka af allan vafa, þá eru víst líka til flokkseigendur Pírata eins og hjá öllum hinum stjórnmálaflokkunum, það vitum við núna sem höfum komið að þessu prófkjöri í kjördæminu okkar. Þegar upp er staðið er sami rassinn undir þessu öllu saman.

Ég óska hér með Evu Pandóru innilega til hamingju með árangurinn. Þó hún hafi ekki verið virk í grasrót Pírata í Reykjavík þá er hún vel að þessum sigri komin.  Því Píratar eru nefnilega stærri en bara Reykjavík og Birgitta Jónsdóttir. Gunnari Ingiberg óska ég líka til hamingju með að hafa náð að olnboga sig upp listann. Hann verður vonandi kyndilberi nýrra vinnubragða í stjórnmálum, þar sem lýðræði og gagnsæi verða í fyrirrúmi… eða hvað?

 

Lilja Magnúsdóttir

Höfundur er fyrrum meðlimur kjördæmisráðs Pírata í Norðvesturkjördæmi og fyrrum varamaður í stjórn Pírata á Vesturlandi.

Fleiri aðsendar greinar