Að vita eða vera?

Arnaldur Máni Finnsson

Fjórði pistill #sjöfimmtudagar

Þegar mörg sjónarhorn eru til á atburð eða aðstæður þá er mikilvægt að muna að mismunandi sjónarmið eru ekki endilega andstæð. Það þarf aftur á móti skilning, virðingu og hugrekki til að lausn eða niðurstaða finnist – ef um vandamál er að ræða – sem innifelur sátt sjónarmiðanna. Stundum er það svo að því er haldið á lofti ofar öðru að trúariðkun feli í sér afneitun á rökhyggju og skynsemi. Þau sem trúi eða hafi þörf fyrir að trúa á æðri mátt, séu þá á öndverðri skoðun við þau sem horfast í augu við hlutina af hinu svokallaða raunsæi. Þetta er vinsælt. Oft kallað „gagnrýnin hugsun“ og teflt fram sem andstæðu þess að hafa trúarlega heimsmynd. En sundurgreinandi efahyggja sem setur manninn sem mælikvarða alls í nafni skynseminnar er varhugaverður útgangspunktur þegar kemur að því að leysa ágreining og skapa farsæld í lífi og starfi. Það bíður því nefnilega heim að vita betur ef maður veit allt.

Hvernig lítur forsendubrestur út?

Þegar ég var yngri þótti mér það stærsti kostur efahyggjunnar að þar væri forsendan sú að fyrir það fyrsta þyrfti maður að vita að maður veit ekki neitt. Þá fyrst gæti maður – með góðri samvisku – farið að þykjast vita og halda að maður viti, jafnvel láta eins og maður viti eitt og annað. Fyrst byrjar maður auðvitað á því að velta sér fyrst og síðast upp úr staðreyndum, trúverðugleika, sögu og samhengi, en síðan eins og ósjálfrátt fer maður að hafa skoðanir út frá þessari vitneskju sinni.

Og brátt gleymist forsendan, æðruleysi þess sem veit að hann veit ekki neitt hverfur. Þráin eftir uppljómunum dofnar, forvitni barnsins og undrunin yfir því sem stækkar heiminn og eflir skynjunina verður hluti af barnaskap, verður reynsla og saga sem okkur finnst við ekki þurfa endurtaka. Skynsemin kennir okkur af reynslu að það bíður hættunni heim að treysta, sársaukinn á greiðari leið að þeim sem eru opin, viðkvæm og varnarlaus. Og hver vill ekki vera sterkur?

Skynsemisdýrkunin er varnarháttur sem brynjar okkur frá því að vera gripin ótta þegar við skiljum ekki eitthvað. Æðruleysi er aftur á móti það að hrífast af því að maður getur ekki skilið allt, en það megi samt kveikja tilfinningar hjá manni eins og virðingu, traust og kærleika. Stundum skil ég ekki en trúi.

Fastan minnir mig á forsenduna „ég verð að vita að ég veit ekki neitt“ svo rannsóknin geti hafist; því fastan er rannsókn í sjálfu sér. Ég átta mig líka á að sá sem aðhyllist efahyggju af trúarlegri sannfæringu, en hefur ekki æðruleysið, er kominn í þversögn. Forsendan er brostin. Á föstunni er gott að núllstilla á æðruleysið og lægja hrokann.

Að tilheyra er ekki veikleiki

Í samtímanum erum við sífellt að fylgjast með fólki sem er að reyna ná stjórn á aðstæðum. Fréttamenn reyna að miðla skýrum myndum og fólk með skoðanir veltir upp andstæðum sjónarhornum. Kannski skiptumst við í fylkingar og hópa og ef til vill látum við tilfinningarök oftar en skynsemina stjórna hugsunum okkar og gerðum. Það er auðvitað þægilegast ef við værum bara oftar en ekki sammála um flest. Það er aftur orðið afstæðara en áður var að vald og virðing fari saman virðist manni. Hugmyndir okkar um vald hafa nefnilega breyst. Sá sem nýtur virðingar hefur nefnilega vald sem er oftar en ekki af siðferðislegum toga, en valdsmaðurinn sem gengur fram í hroka er komin óralangt frá hugmyndum okkar um hugrekki. Sá sem er óttalaus þarf ekki endilega að vera fífldjarfur, rétt eins og sá sem er hræddur þarf ekki heldur að vera örvæntingarfullur. Við verðum öll hrædd, við efumst öll og við þurfum öll að fá einhverja skynsemi í það sem okkur finnst ekki ganga upp rökfræðilega, ef við ætlum að geta sætt okkur við að aðstæður koma upp og hlutir gerast sem við getum ekki haft stjórn á. Það þarf ekki alltaf að vita hversvegna, þó manni finnist maður vera að gefast upp ef svarið er ekki rökrétt. Það að vera manneskja í samfélagi er að umfaðma þann veikleika sinn að þurfa að treysta á aðra, og það að tilheyra slíku samhengi er hið órökrétta undur sem verður að mæta í æðruleysi til að lifa af. Það er því ráð að fasta aðeins á efann og hafa hugrekki til að hleypa traustinu og trúnni að. Því það að vera manneskja er að muna að maður þarf ekki að vita allt til að vera til.

Arnaldur Máni Finnsson

Höf. er sóknarprestur á Staðastað.

Fleiri aðsendar greinar