Að víkka sjóndeildarhringinn

Hildur og Hulda Hrönn

Þriðja árið í röð auðgar Erasmus+ samstarfsverkefni tilveru nemenda í Grunnskólanum í Borgarnesi og nemenda í Základní Škola Karla Jeřábka í Roudnice nad Labem í Tékklandi. Í síðastliðinni viku dvöldu 15 nemendur frá Tékklandi hér, ásamt aðstoðarskólastjóra og tveimur kennurum. Dásamlegt veður alla vikuna og nemendur í valgreininni „Erlent samstarf“ í 8. og 9.bekk, gátu notið þess að sýna tékkneskum félögum sínum fallega bæinn sinn og einstaka ferðamannastaði í héraðinu.  Fram að heimsókn hafði samstarfið alfarið verið rafrænt á námsvef eTwinning verkefna, Padlet og Instagram.

Landnámssetrið bauð báðum hópunum á sögusýningarnar, Borgarbyggð bauð í sund og á sýningar í Safnahúsinu og hrossabændur á Sturlu-Reykjum fræddu hópinn um íslenska hestinn og nýtingu jarðvarma. Skólameistari MB tók á móti hópnum í Kviku.  Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Það gefur lífinu lit að fá tækifæri til að taka þátt Erasmus+ verkefni. Þroskandi að takast á við áskoranir sem fylgja samstarfi á ensku og rafrænum verkefnum. Á næsta skólaári er komið að okkur í GB að velja úr okkar hópi þá sem fá tækifæri til að heimsækja félaga sína í Roudnice nad Labem. Við hlökkum til að bæta því í reynslubankann.

 

Hildur Hallkelsdóttir og Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Greinarhöfundar ásamt nemendahópnum.