Að viðurkenna mistök sín

Sigurður Guðmundsson

Í gærkvöldi var haldinn fundur á Hótel Varmalandi að frumkvæði íbúa, fyrirtækja og sumarhúsaeigenda á svæðinu til að ræða gæði vatns úr Grábrókarveitu sem er í eigu og rekstri Orkuveitu Reykjavíkur (Veitur).

Vatnsgæði Grábrókarveitu eru ekki ásættanleg og hafa ekki verið það frá því að veitan var tekin í notkun fyrir að verða 20 árum síðan. Á þeim tíma voru miklar væntingar til þess að Grábrókaveita myndi leysa úr vatnsvandamálum á því svæði sem hún var lögð um frá Grábrók í Norðurárdal og niður í Borgarnes. Það að stórfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur, með alla sína sérfræðinga, byggði veituna og ræki hana átti að gulltryggja að veitan stæðist þær væntingar sem til hennar voru gerðar í upphafi.

Stuttu eftir að veitan var tekin í notkun fór að bera á gruggi í vatni hjá matvælafyrirtækjunum í Borgarnesi. Við þessu brást Orkuveitan og síðar Veitur við með aukinni síun og ýmsum tilfæringum til að reyna að bæta gæði vatnsins með einhverjum árangri, en ekki nægjanlegum, þar sem viðvarandi gruggskot koma með reglulegu millibili inn í hús, fyrirtæki og sumarbústaði sem tengdir eru inn á aðallögnina á leiðinni.

Þetta er óviðunandi ástand sem á rætur að rekja til þess að í upphafi valdi Orkuveita Reykjavíkur rangan vatnstökustað sem skilar gruggugu vatni til notenda. Í 18 ár hefur fyrirtækið gert ýmsar ráðstafanir í tilraunum til þess að geta nýtt vatnstökustaðinn áfram með óviðunandi árangri eins og kom berlega fram á fundinum á Hótel Varmalandi. Eftir fundinn í gærkvöldi þá efast ég stórlega um að Orkuveitu Reykjavíkur takist að bæta gæði vatnsins úr núverandi vatnstökustað þó að í gangi séu einhver tilraunaverkefni til að reyna að bæta gæðin enn meira.

Ég skora á Orkuveitu Reykjavíkur (Veitur) að viðurkenna mistök sín við val á vatnstökustað í upphafi og afskrifa núverandi vatnstökuholur og setja kraft í að finna nýja vatnstökustað. Ef það er ekki gert þá er hætt við að þessi staða verði óbreytt næstu árin og gæði vatns úr Grábrókarveitu verði óviðunandi. Það mun leiða til þess að þeir aðilar sem eru tengdir við hana núna munu leita allra leiða til að finna aðrar lausnir á sinni vatnsþörf og er sú þróun þegar byrjuð.

 

Sigurður Guðmundsson

Höf. er oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar