Að þroska hæfileikann til að „njodda“?

Arnaldur Máni Finnsson

Þegar eitthvað er okkur framandi vill það verða að viðkynning okkar á hlutunum verði yfirborðskennd vegna skorts á forvitni. Þegar við eigum nóg með dagsins önn og njótum lífsins samt, þá erum við upp til hópa vel stödd og njótum þess sem er. En líka fyrst og fremst þess sem er, hér og nú, og misjafnt hvernig mannfólkið bregst við því þegar „núið góða“ er búið. Sól er sest, eða sýningunni lokið. Það er áhugavert að velta fyrir sér áhrifum og árangri af viðamikilli og flottri sýningu eins og þeirri sem lauk á dögunum og teygði anga sína víðsvegar um Snæfellsnes. Hún var unnin í samstarfi við hinn skilgreinda Svæðisgarð Snæfellsness og tókst vel, hvort sem að litið er til hagrænna áhrifa – þ.e. hvort að almenn ferðaþjónusta hafi notið góðs af – eða menningarlegra, þ.e. hvort framboð á gjaldfrjálsri menningarafþreyingu hafi tímabundið aukist svo verulega að það geti haft varanleg áhrif til lengri tíma.

Framandi orðalag og yfirborðskennt

Það er fíflalegt, afsakið orðalagið, ef við ætlum að „árangursmæla“ alla menningu og gerum ákveðna hluti sem samfélag, eingöngu á þeim forsendum að hægt sé að merkja við að ákveðin skilyrði séu uppfyllt að lágmarki og því sé við ástandið unandi. „Landsbyggð með lífsmarki“, mætti kalla slíka afstöðu og viðhorf. Rökin fyrir hinu og þessu þá bara að það sé nægileg stoðþjónusta við ferðamannaiðnaðinn, stærstu atvinnugrein á Íslandi, að landsbyggðin sé með lífsmarki; hægt að gista, borða og losa úrgang sem víðast. Fjöllin, dalirnir og hin stórbrotna náttúra sjái um restina, og viðunandi arður sé af bissnessnum.

Orðalag sem miðar í eina átt verður alltaf framandi á hinum enda skalans, rétt eins og menningarstarfsemi eða menningarstefnur sem falla í elítisma eða stofnana- og reglugerðarskrautskrift, skila litlu til fólksins á túninu, ef svo má segja. Ég skil jú lítið í rappslangrinu sem skýtur framhjá mér á mínu túni og uppí mínum stól, skiljanlega! Rétt eins og skellinöðru-ungviðið sem þeysist framhjá skúlptúrum sem metnir eru á milljónir skilur lítið í að þessu hafi verið komið fyrir í túnjaðrinum hjá þeim til að listin dafni. Það spyr sig kannski, „hvaða brotajárn er þetta“ – eða hvað veit ég? – þetta er nú fyrst og fremst myndlíking hjá mér. Henni er ætlað að benda á að á Umhverfingu nr. 3 tókst vel til með að heimafólk og aðkomnir leggðu saman til að af yrði menningarviðburður sem vonandi flestir íbúar Snæfellsness og Vesturlands, urðu á einhvern hátt varir við.

Að „libba“ með listinni

Í skapandi huga verður skilgreiningin á því til, hverjar forsendur þess eru að vaxa og dafna sem einstaklingur, eða njóta og miðla sem samfélag. Í samtímanum er vinsælt að „greina“ og „rýna“ – „meta ferli“ og þegar maður er á öndverðri skoðun við aðra, þá hafnar maður allri „meðvirkni“ og heldur áfram – á stofnanamáli – úrvinnslu og lausnamiðaðri nálgun. Eða eins og Króli myndi segja; „hætta kó-a o’ bara klá-rra o’ farra libba o’ lærra njohdd-ah“.  Eð’ eittkah.“

Af mínum stóli er þetta mikilvægast – það er og verður lærdómsríkt ferli í dag og á morgun að renna ólíkum heimum saman, ólíkum þörfum og væntingum. Umhverfing nr. 3 umbreytti Nesinu bróðurpart sumars í kraumandi listapott sem fólk kom langt að til að finna ilminn af; hér sýndu mörg af stærstu listanöfnum Íslands þá og nú – sumarlangt – en umbreyting á samfélagi og menningu verður ekki af slíku einu. Það er hugsanagangur okkar sem byggjum og búum í dreifðari byggð sem mótar okkar menningu. Það hversu stutt er til Reykjavíkur truflar ef til vill uppbyggingu þess menningarlífs og liststarfsemi sem ætti að vera sjálfsagður hlutur af takti hversdagsins hér á Vesturlandi. Listsýningar eða viðburðir eru ekki bara eðli sínu til þess eins að vera aðdráttarafl fyrir ferðamenn, svo að við sjálf höfum atvinnu af að þjónusta þá.Við verðum líka að lifa í og með listinni í kring.

Fögnum fjölbreyttri flóru

Það er mér því ofarlega í huga, eftir að hafa skipulagt og unnið að nokkrum af þeim sýningum sem stóðu uppi í sumar, fyrir hönd Menningarsjóðsins undir Jökli, að við ættum ekki að meta gildi slíks framtaks sem Umhverfing nr. 3 var, með því að telja upp á aukningu ferðamanna, eða stóru nöfnin sem sýndu einhversstaðar. Að þroska sig og nærsamfélagið í að njóta listar og menningar er langtímaverkefni, það verður ekki leyst með því að skreppa í bæinn til að fara í leikhús við og við. Listsýningar og verkefni spretta upp og auðga samfélag okkar hvort sem það er Reykholtshátíð eða Plan-B Festival, Frystiklefinn í Rifi eða Bókhlaðan í Flatey. En það er okkar að taka það inn sem hér búum, og því hvet ég þig lesandi góður að láta hástemmt orðalag úr sóknaráætlunum fæla þig frá „auknu menningarlæsi“. Ekki láta það stuða þig ef einhver segir „jó bara libba me’o njoddah“ og þykist góður. Flóran er fjölbreytt og við verðum að einbeita okkur að því að þegar framandi, forvitnilegir og fróðlegir viðburðir eru í nærumhverfinu, að við leggjum af mörkum til styrkja þá hugsun að það gagnist að skipta um sjónarhorn við og við. Það þroskar hæfileikann til að njóta, sem er jú líka bragðmesta agnið, ef beita á fyrir hamingjuna, að bíti á.

 

Arnaldur Máni

Fleiri aðsendar greinar