Að þessu viljum við vinna næstu fjögur árin

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Innan fárra daga verður kosið um trausta sveitarstjórn og stöðugleika í rekstri sveitarfélagsins.

Framsóknarflokkurinn er flokkur án öfga – hvorki til vinstri eða hægri, við erum flokkur með skýr markmið um hvernig ná eigi árangri og bæta samfélagið. Undirstaða árangurs er gott skipulag og stöðugleiki, skýr forgangsröðun verkefna og björt framtíðarsýn.

 

Húsnæðisáætlun

Við Framsóknarfólk vitum hvað við viljum gera betur fyrir Borgarbyggð. Þar má helst nefna vilja til að skapa jarðveg fyrir frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi og byggingu leiguíbúða. Forsendur fyrir því að hægt sé að ráðast fyrir alvöru í kynningu og markaðssetningu á búsetukostum Borgarbyggðar er að grunnþættir innviða séu til staðar. Við stefnum að lækkun gatnagerðargjalda og gerð húsnæðisáætlunar fyrir sveitarfélagið, stórátak í uppbyggingu á leiguhúsnæði í Borgarnesi, Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi.

 

Íþróttir, tómstundir og heilsa

Eitt af stóru stefnumálum okkar í Framsóknarflokknum snýr að eflingu íþrótta, tómstunda og félagsstarfs. Framsóknarfólk trúir því að góð þátttaka allra aldurshópa í fjölbreyttum tómstundum og íþróttum hafi forvarnargildi, breyti samfélaginu til hins betra og auki lífsgæði íbúa.  Við viljum því hefjast handa við undirbúning að skipulagi og byggingu á fjölnota íþróttahúsi í Borgarnesi.

 

Skólamál

Við leggjum áherslu á metnaðarfulla menntastefnu í leikskóla, grunnskóla og upp í framhaldsskóla. Hér þarf að stórefla sérfræðiþjónustu skólanna til að standast reglugerðir og koma til móts við ólíkan hóp nemenda. Í sérfræðiþjónustu þarf að felast annars vegar stuðningur við nemendur og fjölskyldur þeirra og hins vegar stuðningur við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra. Sveitarfélögin verða í samstarfi við ríki að bregðast við fyrirliggjandi kennaraskorti og tryggja nýliðun kennara með bættum kjörum og góðu starfsumhverfi til framtíðar.

 

Eldri borgarar

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að þjónusta við eldri borgarar verði eins góð og kostur er og að fólk geti búið heima hjá sér eins lengi og unnt er. Sveitarfélagið þarf í samstarfi við ríkið að bregðast við skorti á hjúkrunar- og dvalarrýmum. Huga verður sérstaklega að félagslegum þáttum og lýðheilsu. Góð aðstaða til félagsstarfs og tómstunda fyrir eldri borgara verður að vera góð. Liður í því er að íbúar 65 ára og eldri fái frían aðgang í sund og íþróttamiðstöðvar sveitarfélagsins.

 

Þjónusta við öryrkja og fatlaða

Þjónusta við öryrkja og fatlaða þarf að einkennast af sveigjanleika og frelsi og miðast við ólíkar þarfir einstaklinganna. Huga verður sérstaklega að því að tryggja að nægt framboð sé á góðu félagslegu húsnæði. Gera þarf gangskör í að bæta aðgengismál í sveitarfélaginu og huga sérstaklega að því við gerð nýrra gangstétta og gatna.

 

Fjármál og stjórnsýsla

Grundvallar atriði er að kjörnir fulltrúar setji sig vel inn í fjármál sveitarfélagsins. Fagleg afgreiðsla nefnda og sveitarstjórnar er nauðsynleg til að vinna embættismanna og starfsmanna sveitarfélagsins geti verið góð og geti gengið greiðlega fyrir sig.

Það er alþekkt að framgangur þeirra mála sem eru háð valdi og vilja ríkisstjórnar hverju sinni helgist ekki síst af góðu samstarfi og vilja þingmanna og sveitarstjórnarfulltrúa, sem þurfa að vera óþreytandi að berjast fyrir sín sveitarfélög. Þar erum við Framsóknarmenn með góðan hóp fólks, velviljaðan bæði Borgarbyggð og hefur metnað fyrir uppbyggingu á landsbyggðinni.

 

Hér að ofan hef ég aðeins farið yfir hluta af þeim málum sem við viljum vinna að á næsta kjörtímabili. Við í Framsókn leggjum áherslu á mikilvægi góðrar samvinnu í sveitarstjórn. Málefnaleg umræða sveitarstjórnarfulltrúa ásamt vilja til að efla sameiginlegan slagkraft til góðra verka skilar íbúum bestum árangri til framtíðar.

Listi Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar er skipaður samheldnum hópi fólks með ólíkan bakgrunn sem býr yfir víðtækri þekkingu og hefur vilja til þess að vinna af krafti fyrir alla íbúa sveitarfélagsins.

 

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Höf. skipar 1. sæti á lista Framsóknarflokks í Borgarbyggð.