Að skila sínu atkvæði

Valgarður Lyngdal Jónsson

Kosningabaráttan hér á Akranesi hefur verið bæði skemmtileg og málefnaleg og er óhætt að segja að hún hafi farið kurteislega fram. Frambjóðendur allra flokka hafa komið fram fyrir hönd sinna flokka og bæjarins okkar með jákvæðni og bjartsýni í fyrirrúmi. Umræðan hefur einkennst af því að bærinn okkar stendur vel og það hefur verið ró og yfirvegun yfir stjórn bæjarfélagsins á liðnu kjörtímabili. Ég er stoltur af því að við stóðum sterk saman í gegnum erfiða tíma á meðan heimsfaraldur Covid gekk yfir. Akraneskaupstaður var í fararbroddi meðal sveitarfélaga með því að grípa til öflugra og mikilvægra viðspyrnuaðgerða gegn félagslegum og efnahagslegum áhrifum faraldursins. Það er langt því frá að við höfum enn bitið úr nálinni með áhrif faraldursins á samfélagið til lengri tíma litið. Atvinnuleysi hefur þó minnkað hratt og við höfum komið fjármálum bæjarins á góðan stað.

Áfram skal haldið

Við í Samfylkingunni höfum lagt áherslu á að fara vel með almannafé og sýnt ábyrgð við stjórn bæjarins. Við höfum byggt fimleikahús, reiðhöll og leikskóla, lagt göngustíga og lagað götur. Bygging er hafin á einni glæsilegustu íþróttamiðstöð landsins við Jaðarsbakka og höfum við sett okkur langtímamarkmið um þá uppbyggingu. Við höfum skipulagt ný hverfi og staðið að uppbyggingu á þéttingar- og þróunarreitum í bænum. Við höfum byggt fjölbreytt húsnæði, því í bænum okkar býr fjölbreyttur hópur fólks með margþættar þarfir. Framtíðarsýnin sem birtist í nýju aðalskipulagi til ársins 2033 er skýr. Þar setjum við okkur metnaðarfull markmið um gæði bygginga og hverfa, um umhverfis- og loftslagsmál og lýðheilsu. Við munum fylgja þessu vel eftir á næstu árum til að tryggja það að hér eflist áfram mannvænt samfélag sem leggur áherslu á lífsgæði og vellíðan bæjarbúa. Stjórnun bæjarfélags gengur einmitt fyrst og fremst út á það að auka lífsgæði íbúanna.

Mikilvæg ár framundan

Næstu ár verða mjög spennandi. Bærinn okkar er í örum vexti og við verðum að tryggja að uppbyggingin verði bæði fjölskylduvæn og nútímaleg, þannig að hún bæti lífsgæðin, en ógni þeim ekki. Við skulum halda áfram að stuðla að nútímalegri og framsækinni uppbyggingu atvinnulífs í bænum, því okkar eigið atvinnulíf er forsenda fyrir sjálfbærum vexti samfélagsins. Stofnanirnar okkar hafa lagt hart að sér við að ná fram hagkvæmni í rekstri og við verðum að tryggja að þær fái notið afrakstursins, því ávaxtanna skulu þeir njóta sem unnu fyrir þeim. Við þurfum að bæta kjör barnafjölskyldna og gera það sem skiptir þær mestu máli, huga að aðbúnaði barnanna okkar og menntun þeirra í skólum, leikskólum og frístundastarfi.

Við þurfum að stuðla að jöfnum tækifærum allra Skagamanna, fatlaðra sem ófatlaðra, hinna eldri og hinna yngri, innfæddra sem aðfluttra. Það á að vera gott að búa á Akranesi og við verðum að tryggja að svo verði um ókomna tíð.

Ágæti lesandi, ég hvet þig til að mæta á kjörstað og nýta þinn atkvæðisrétt!  Við jafnaðarmenn á Akranesi viljum vinna fyrir þig, fyrir fjölskyldu þína og farsæld hennar, fyrir fjölbreytt og nútímalegt atvinnulíf, fyrir heilsu þína, velferð og umhverfi.

Kæru Skagamenn, við óskum eftir ykkar stuðningi.

XS – Að sjálfsögðu!

 

Valgarður Lyngdal Jónsson

Höfundur skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akranesi.