Að segja sannleikann hálfan

Meirihlutafullrúar á Akranesi

Í síðasta tölublaði Skessuhorns birtist grein bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks sem bar yfirskriftina „Skýr skilaboð meirihlutans.“ Þá hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins jafnframt fjallað um sama efni á samfélagsmiðlum og kallað eftir skýringum meirihluta bæjarstjórnar.

Heila málið snýst um fund meirihluta bæjarstjórnar með Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra. Umræddur fundur átti að fara fram í félagsmálaráðuneytinu en á síðustu stundu var honum frestað og haldinn degi síðar á Akranesi. Umræðuefni fundarins var óformlegt samtal um þjónustuaukningu í málefnum barna sem er í samræmi við hugmyndir sem ræddar hafa verið í bæjarstjórn á þessu kjörtímabili og eru í samræmi við áherslur félags- og barnamálaráðherra. Einnig var rætt um stöðu stofnframlaga er varðar uppbyggingu á félagslegu íbúðarhúsnæði en það er mál sem allir bæjarfulltrúar eiga að þekkja til.

Undanfarin ár hafa hinir ýmsu bæjarfulltrúar sótt marga fundi í ráðuneytin án þess að fulltrúar minnihluta hafi verið kallaðir til. Þetta þekkja allir bæjarfulltrúar og sérstaklega þeir sem sátu í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.

Í grein sinni halda bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins því fram að samstarfið í bæjarstjórn sé ekki gott og að meirihlutinn sé ekki að fara eftir stefnu sinni hvað varðar gott samstarf.

Öllum getur orðið á mistök, óformlegi fundurinn með ráðherra sem var ráðgerður þann 23. júlí síðastliðinn var afboðaður og færður upp á Akranes daginn eftir. Þá mátti álíta þann fund sem formlegri fund og boða fulltrúa minnihlutans og eftir á að hyggja voru það mistök að boða ekki bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á þann fund með ráðherra. Þann 25. júlí sl. áttu formaður bæjarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokksins samtal þar sem formaður bæjarráðs baðst einlæglegrar afsökunar á þessum mistökum, upplýsti oddvitann um fundarefnið og lofaði að hlutir sem þessir myndu ekki endurtaka sig. Samtalið átti sér stað einum degi eftir fundinn, áður en bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins setja inn fréttir af fundinum á samfélagsmiðla og löngu áður en grein þeirra birtist í Skessuhorni. Því er augljóst að tilgangur greinarskrifanna er að teyma alla bæjarfulltrúa Akraness inn í átakapólitík.

Það er miður að bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins finnist ekki samstarfið í bæjarstjórninni gott. Á þessu kjörtímabili hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sinnt varaformennsku í fagráðum Akraneskaupstaðar, formennsku í starfshópi um mötuneytismál og formennsku í þróunarfélagi Grundartanga og það er að okkar mati dæmi um gott samstarf. Þau mistök sem áttu sér stað hvað varðar boðun á umræddan fund með félags- og barnamálaráðherra endurspegla ekki raunveruleikann um gott samstarf og í þeim felast engin skilaboð.

Það er von okkar að allir flokkar í bæjarstjórn Akraness einbeiti sér áfram að málefnunum. Það er jafnframt von okkar að sú átakapólitík sem einkennt hefur landspólitíkina og í höfuðborginni, sé ekki að hefja innreið sína á hér á Akranesi. Það er ósk okkar að við vinnum áfram í sameiningu að góðum verkum.

 

Bæjarfulltrúar meirihluta bæjarstjórnar Akraness.

Elsa Lára Arnardóttir, Ragnar B. Sæmundsson, Valgarður Lyngdal Jónsson, Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir og Bára Daðadóttir.