Að ramma inn samning um að versla ekki í heimabyggð

Ómar Örn Ragnarsson

Það eru ekki mörg ár síðan það taldist til dyggða að versla í heimabyggð enda hefur það flokkast undir grunnþjónustu hvers sveitarfélags að hvað flestir vöruflokkar og þjónustuflokkar séu nálægir og aðgengilegir. Vöru- og þjónustuframboð er t.d. ákaflega marktækur mælikvarði um gæði hvers sveitarfélags og ekki bara gagnvart íbúaþjónustu heldur t.d. viðkomutíma ferðamanna. Almennt eru því slík gæði falin í því að hafa sem flest innan seilingar og maður hefði ætlað að sem flestir hefðu á því fullan skilning, en svo virðst þó ekki vera.

Mér fallast því nánast hendur yfir þeim fréttum úr ráðhúsi Borgarbyggðar að nánast öll þjónusta og vörukaup fyrir sveitarfélagið skuli vera úthýst út fyrir Borgarbyggð. …Já, þið heyrðuð satt og rétt frá. Embættismenn sveitarfélagsins og væntanlega sveitarstjórnarfulltrúar hafa semsagt ákveðið að nú skuli versla alla þjónustu og aðföng í gegnum Rammasamning Ríkiskaupa. En það eru fá fyrirtæki innan Borgarbyggðar sem eru aðilar að samningnum enda aðeins á færi stærri og efnaðra fyrirtækja að komast þar að.

Þegar er búið að gjöra erindið kunnugt til allra starfsmanna Borgarbyggðar er sjá um innkaup fyrir sveitarfélagið en við erum að tala um skrifstofur, skóla, leikskóla, mötuneyti, íþróttamiðstöðvar o.fl. Eða í stuttu máli mikla hagsmuni fyrir starfandi rekstraraðila á smáum markaði sem síst má við smækkun.

Það er líka athyglivert að embættismönnum/ sveitarstjórnarfólki Borgarbyggðar er í sjálfsvald sett hvaða innkaup og þjónustu-liði er hægt að undanskilja frá þessum einstaka rammasamningi. Það þarf ekki undra að Ríkiskaup bjóði undanþágumöguleika innan samningsrammans því ekki einu sinni Ríkið gengur að því sjálfgefnu að samningurinn verði til þess að hreinsa nánst öll viðskipti af heimamönnum. En ráðhús Borgarbyggðar gekk alla leið, tikkaði í öll boxin og skildi aðeins eftir liðinn „ferskar matvörur.“

Það táknar að á vegum sveitarfélagsins verður ekki hægt að kaupa þjónustu og vörur sem eru til staðar innan hagkerfis Borgarbyggðar svo sem þjónustu pípulagningarmanna, rafvirkja, múrara, blikksmiða, járnsmiða, tækniþjónustu, tölvuþjónustu, prentþjónustu o.fl. o.fl. Þá verður ekki heldur hægt að kaupa ritföng, ljósritunarpappír, rekstrarvörur, kornvörur og þurrvörur frá t.d. JGR til matargerðar í mötuneyti, bakkelsi frá t.d. Geirabakarí og áfram heldur listinn.  Þurfi að kaupa skúffuköku með kaffinu í Ráðhúsinu þarf að panta hana að sunnan, hversu skúffaðir sem heimamenn verða yfir þeim furðulegu viðskiptaháttum að skúffukakan mæti jafnvel brauðbílnum frá Geira á leið til Reykjavíkur, en Reykvíkingar kunna jú vel að meta bakkelsið úr Borgarfirðinum.

Er því ekki að undra að starfsmenn Borgarbyggðar sem meðal annars sjá um innkaup hafa margir komið að máli við mig og lýst megnri óánægju og ekki síst undrun með þessa framvindu. Atvinnurekendur hafa einnig haft samband og tjáð óánægju sína. Sumir hafa talað um að flytja lögheimili fyrirtækja sinna úr héraðinu en auðvitað er það móðgun að vera viljandi sniðgenginn í miðri baráttu um að halda úti eins miklu þjónustuframboði og auðið er í litlu sveitarfélagi.

Við sem erum í áhætturekstri erum samt fjarri því þeirrar skoðunar að það sé lélegur bisness að taka þátt í að gera byggðarlagið okkar betra með breiðu úrvali þjónustu og varnings sem er ekkert endilega að skila hagnaði úr hverri hillu. Hagnaður er nefnilega afstætt hugtak og stóri hagnaðurinn er auðvitað sá að finna að við séum að gera gagn með því að vera til staðar fyrir íbúa og aðra þá sem þurfa á vörum og þjónustu að halda.

Fyrirtæki og starfsfólk þeirra sem borga skatta sína og skyldur til Borgarbyggðar fá nú því líklega ekki lengur að selja þjónustu né vörur til sveitarfélagsins. Ef sveitarfélagið þarf t.d. þjónustu pípara þá þarf að fá pípara frá Akranesi, kaupa smærri sem stærri aðföng frá höfuðborgarsvæðinu og þess má svo geta að sveitarfélagið þarf að greiða 3% þjónustugjald/ auka-álagningu af öllum innkaupum í gegnum rammasamninginn.

Fyrir rúmri viku síðan sendi ég því fyrirspurn í tölvupósti til sveitarstjóra, sviðsstjóra þjónustu- og stjórnsýslusviðs, forseta sveitarstjórnar og fulltrúa minnihluta í byggðaráði, þar sem ég tjáði mig um þessa einkennilegu ákvörðun og óskaði eftir viðbrögðum.  Aðeins barst svar frá fulltrúa minnihluta í byggðaráði en þó eru þetta embættismenn í fullu starfi við að svara erindum og fyrirspurnum sem þessum, jafnvel með óbragð í munni eftir að hafa svelgst á skúffuköku að sunnan.

Íbúar Borgarbyggðar hafa verið ákaflega sterkur kaupendahópur í heimabyggð og Borgfirðingar eru auðvitað ekkert annað en undirstaða flestra þeirra fyrirtækja sem hér starfa. Þeir eiga þökkina því þeir hafa skilning á hagsmunum okkar sem höldum út rekstri í byggðarlaginu. En hafa kjörnir fulltrúar sömu sýn og gildismat og íbúar?

Að þessir sömu íbúar skuli nú horfa á sitt eigið sveitarfélag og sína eigin kjörnu fulltrúa snúast gegn því gríðarmikla hagsmunamáli að halda úti sterku þjónustuframboði árið um kring er með algjörum ólíkindum. Eru bæjarfulltrúar og embættismenn yfirhöfuð að endurspegla einhverskonar samband við íbúa með því að svara ekki einu sinni fyrirspurnum um þetta mikla hagsmunamál sem ég vil m.a. kalla verndun á okkar innra hagkerfi og þjónustulegri bæjarmynd? Hafa sveitarstjórnarfulltrúar almennt það viðskiptavit að skilja innra hagkerfi sveitarfélagsins?

Í Borgarbyggð eru búsettir ca 3.800 íbúar eða sami fjöldi og býr í nokkrum götum í Grafarvogi. Rekstur sveitarfélagsins er frekar smár í sniðum og fjarri því háður rammasamningi sem er sniðinn að magn-kaupendum. Kannski er þetta örþrifaráð til að krafsa aðeins yfir vanáætlanir á framkvæmdum sveitarfélagsins, en hundruðir milljóna króna hafa farið í framúrkeyrslur á framkvæmdum og eru ekki öll kurl komin til grafar þar. En ég held að þarna muni koma í ljós að máltækið „að pissa í skóinn sinn“ muni eiga vel við.

Þegar allt kemur til alls þá er þetta ekki bara spurning um krónur og aura, þetta er spurning um að okkar litla innra hagkerfi hjálpist að. Vissulega voru fulltrúar okkar í sveitarstjórn ráðnir til að gæta aðhalds, og vissulega þurfa öll opinber viðskiptasambönd ákveðið regluverk, en hvað kostar hinn hugsanlegi sparnaður gagnvart samfélagslegum innviðum?

Á gervigreind úr Excel töflum að stjórna sveitarfélaginu eða mannleg greind með næmni og skynsemi til að sjá heildarmyndina? Ég treysti á að stjórnendur sveitarfélagsins muni endurskoða ofan í kjölinn þessa undarlegu ákvörðun sem gekk örugglega lengra en til var ætlast.

Kæru íbúar Borgarbyggðar!

Borgarfjörðurinn er dásamlegur staður til að búa á og hjálpumst að við að gera hann enn betri.

 

Borgarnesi 8.3.2021

Ómar Örn Ragnarsson

Höf. er íbúi og fyrirtækjaeigandi í Borgarbyggð.

Fleiri aðsendar greinar