Að mæta hverjum degi

Arnaldur Máni Finnsson

#sjöfimmtudagar – þriðji pistill

Afstaða okkar til hvers dags skiptir máli. Og í raun til allra hluta. Það þýðir á sama tíma ekki að hver og einn dagur skipti öllu máli, eða allir hlutir, en virðið liggur í því að hver dagur er möguleiki, allir hlutir geta borið í sér virði, allar manneskjur eiga sér sögu. Eins og tilefnið var boðað, þá legg ég hér orð í belg því að föstutíminn á sér sögu og samhengi, þó nú til dags fasti varla nokkur kristinn maður í vestrænu samfélagi, en fastan nær frá öskudegi og fram að páskum. Föstutíðin er fjörtíu dagar, líkt og Kristur átti í eyðimörkinni, en talan fjörtíu er víða í menningarsögunni tengd hugmyndinni um hreinsunartímabil. Ég hef rætt um birtingarmyndir „föstunnar“ í meinlætum samtímans, átakstímabil sem hver og einn velur sér, til heilsueflingar.

Fastan er í eðli sínu fyrst og síðast hugmynd um meðvitund og tengingu við hefð, siði og andlega iðkun í trúarlegu samhengi. Fjölmargir fasta enn á mat og drykk vegna trúar sinnar, en það er miklum mun algengara hjá múslimum í vestrænum samfélögum í dag. Einhvern veginn hlýtur hugsunin að stangast á við heilagan mælikvarða neysluhyggjunnar þegar öllu er á botninn hvolft. Við reynum ekki einusinni að skilja um hvað fastan snérist – eða snýst – hjá öllum þeim hundruðum milljóna sem fasta á hverju ári, án þess að mögla. Af hverju gerir fólk þetta?

Að skipta um gír við og við

Í fyrravor vann ég með hópi fólks sem fastaði í takt við trúarsiði í íslömsku samhengi og eitt og annað kom á óvart. Það getur auðvitað alltaf víkkað sjóndeildarhring manns að kynnast nýrri menningu en það sem kom á óvart var líka það að þetta varð ekki að einhverjum „merkimiða“ sem ætti að hefja viðkomandi yfir aðra. Það var ekki verið að býsnast yfir því að nú væri einn „Guði svo þóknanlegur“ að geta ekki þegið vatnsglas, en hinir þá auðvitað „hálf-syndugir“ í samanburðinum. Þá velti ég því fyrir mér hvort við værum kannski því helst háð að finnast við eiga að geta allt alltaf; það að vera sjálfviljugur máttlaus og orkulaus gengur einhvernveginn ekki upp í íslenskri hugsun. En þá er nokkurs að minnast. Við gefum okkur kannski of margt. Reglur um föstuna eru margvíslegar og snúa helst að því að frá sólarupprás til sólseturs sé matar ekki neytt. Því vakna fjölskyldur eldsnemma og útbúa næringarríkan mat og borða vel fyrir daginn. Svo er aftur stór máltíð þegar sól er sest. Það má alveg borða kjöt. Og í íslam er það einnig svo að þau sem vinna erfiðisvinnu mega nærast (takmarkað) yfir daginn. Innihald föstusiðarins er því fyrst og síðast andlegt og snýst um sjálfsögun og styrkingu viljans, um leið og það bíður heim rými til dýpri andlegrar tengingar. Við getum kallað það að „skipta um gír“ ef við viljum, en um leið þá verður til samkennd og samtenging sem viðheldur þörfinni fyrir að eiga og gera eitthvað saman. Í því er kannski stóri munurinn falinn, að þar með er „átakið“ ekki eitthvað persónulegt sem öðrum kemur ekki við heldur sameiginleg reynsla sem skerpir meðvitund okkar um eigin líðan sem og heilsu annarra. Og á meðvitund og samkennd er alltaf þörf.

Áreynslan kveikir á meðvitund um reynslu annarra

Það er eitthvað fallegt við að fjölskylda vakni saman fyrir allar aldir til að borða saman fyrir daginn. Föstuhefðir kristninnar byggðu síður á þessum siðum sem ég kynntist í fyrra heldur voru blanda af hagkvæmnissjónarmiðum og hefðum. Kjöt var af skornum skammti að vori á meðal almennings, en hin eiginlegu meinlæti voru og eru í kaþólsku samhengi í raun fyrst og síðast andleg og líkamleg áskorun sem fram fer innan klaustranna. Það væri gaman að rannsaka hvort frásagnir séu til í sögum íslenskum af því hversu alvarlega fastan hafi verið tekin hér á nítjándu öldinni. Og þar kemur inn hitt samhengið. Kjötleysi sem fasta er kannski bara tenging við veruleika þeirra sem lifa við fátækt. Og matarleysi frá sólarupprás til sólseturs er enn þann dag í dag af sama meiði, tenging við veruleika þeirra sem ekkert eiga. Hvernig væri að neita sér um eitthvað þessa helgina? Pæla jafnvel í því hvernig það væri að geta sjaldan eða aldrei veitt sér eitthvað sem manni finnst alveg sjálfsagt svona dags daglega? Merkilegt nokk, þá gæti þannig tilraun kveikt samkennd með þeim sem líða skort.

Arnaldur Máni Finnsson

Höf. er sóknarprestur á Staðastað.