Að loknum fundi um samgöngumál

Reynir Eyvindsson

Það var haldinn fundur um samgöngumál á Akranesi miðvikudaginn 24. janúar. Fundurinn kemur í kjölfarið á facebook hópi sem Bjarnheiður Hallsdóttir hefur staðið fyrir. Hópurinn berst fyrir vegabótum á Kjalarnesi.  Það er gott mál, og ég er meðlimur í þessum hópi.

 

Þróun fundarins

Fyrsti framsögumaður var Eyjólfur Árni Rafnsson.  Hann vill setja gjaldhlið á allar leiðir frá höfðuðborgarsvæðinu. Það hefði verið gaman að sjá atkvæðagreiðslu um þetta mál, en það var því miður ekki. Hann lýsti svo framkvæmdaáætlun sem gerði ráð fyrir að byrja á tvöföldun Hvalfjarðaganga eftir 3 ár.  Það er algjör óþarfi.

Kristinn Jónasson talaði líka um gjaldtöku og nefndi það að Gísli Gíslason hefði sannfært sig um nauðsyn Hvalfjarðarganga. Þeir voru saman í vinnuhópi um samgöngumál á Vesturlandi.

Aðrir framsögumenn lögðu ekki áherslu á Hvalfjarðargöng og töluðu ekki um fjármögnunarleiðir.

Í lok fundarins var samþykkt ályktun sem endaði svona: „Skoðaðar verði allar leiðir sem flýtt geti þeim framkvæmdum enn frekar til að auka umferðaröryggi og greiða för.“

 

Túlkun fundarins

Þessi lokasetning ein og sér verður ekki skilin öðruvísi en að fundarmenn hafi verið alveg til í að borga vegatolla, miðað við framsöguerindin sem voru flutt. Þetta held ég hinsvegar að sé ekki rétt, en í hita augnabliksins og baráttuanda samstöðunnar, samþykkti fundurinn þetta.

Sem betur fer var núverandi samgönguráðherra Sigurður Ingi klár á því að þetta hafi verið óvinsæl tillaga á sínum tíma. Engu að síður virðast yfirlýsingar hans eftir fundinn ekki útiloka vegtolla.

 

Vegtollar

Nú er ég ekki endilega ósammála því að þeir sem noti vegakerfið borgi sérstaklega.  En að taka einn hóp út (nágrannasveitarfélög höfuðborgarsvæðisins) og láta hann borga, finnst mér út í hött.  Á þá að fara í samskot á Vestfjörðum næst þegar verður lagt bundið slitlag á einhverja af malarvegunum sem tengja saman byggðir fyrir vestan?

Ef menn vilja fara í aukafjármögnun til vegagerðar er einfalt að hækka bensín- og olíugjald.  Það er miklu sanngjarnara og einfaldara en að búa til þrjú ný gjaldhlið í kringum höfuðborgina.

 

Tvöföldun Hvalfjarðarganga, afköst

Það verður minni ástæða til að setja á vegtolla ef menn gera ekki alla hluti í einu.  2+1 þjóðvegur sem Heiða er að berjast fyrir, er þannig að þar sem erfitt og dýrt er að leggja veg, er hann einbreiður, en tvíbreiður á auðveldum köflum.  Svona vegur afkastar aðeins minni umferð en 2+2 vegur, en er miklu ódýrari.  Hann afkastar a.m.k. 20.000 bílum á sólarhring, sem er tvöfald meira en núverandi umferð.  Ef leggja á slíkan veg til Borgarness (og Akraness) er augljóst að Hvalfjarðargöngin verður sá kafli á leiðinni sem verða einbreið.  Það væri algerlega stórfurðulegt að byrja á að tvöflalda dýrasta kafla leiðarinnar!

 

Tvöföldun Hvalfjarðarganga, öryggi

Það hefur verið nefnt að göngin uppfylli ekki öryggisstaðla sem gilda í Evrópusambandinu (og ESS).  Það er rétt.  En það þarf ekki að tvöfalda þau fyrir það.  Reglurnar kveða á um að það þurfi flóttaleið.  Það skapast hætta í göngum ef það kviknar í.  Þá klárast súrefnið, og eiturgufur hverfa ekki út í loftið heldur haldast inni í lokuðu rýminu. Þess vegna þarf fólk að geta flúið í loftræst rými.  Þetta má gera með því að gera manngeng göng annaðhvort til hliðar við, eða undir núverandi göngum.  Einnig má grafa út rými þar sem það er þægilegt.  Þar getur fólk látið fyrirberast þangað til hættan er liðin hjá.  Það er augljóst að þessar aðgerðir eru a.m.k. 10 sinnum ódýrari en ný Hvalfjarðargöng.

 

Niðurlag

Það er mikilvægt að um leið að Skagamenn berjast fyrir vegabótum, að þeir haldi fókus, og láti ekki umræðuna þróast í óheppilegar áttir, þannig að annaðhvort tefjist nauðsynlegar framkvæmdir, eða við þurfum að halda áfram að borga vegtolla um ókomna framtíð.

 

Kveðja, Reynir Eyvindsson

Ps: Evrópustaðlarnir um jarðgöng:  http://www.reynire.internet.is/blogg/