Að leiðarlokum

Gunnlaugur A. Júlíusson

Þann 1. maí 2016 hóf ég störf sem sveitarstjóri Borgarbyggðar. Þann 12. nóvember 2019 var undirrituðum fyrirvaralaust sagt upp störfum á óformlegum kvöldhittingi fjögurra kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Með því að vera sagt upp störfum utan formlegs sveitarstjórnarfundar var tekinn frá mér möguleikinn að tjá mig um málsatvik á fundi sveitarstjórnar sem væri hljóðritaður og umræður birtar opinberlega eins og umræður annarra slíkra funda. Sveitarstjóri hefur samkvæmt sveitarstjórnarlögum málfrelsi á formlegum fundum sveitarstjórnar. Þannig var íbúum sveitarfélagsins einnig gert ókleift að fá upplýsingar um báðar hliðar málsins. Því hafa eðlilega vaknað ýmsar spurningar í héraðinu um ástæður þess að sveitarstjóranum var komið úr starfi með þvílíkum hraði að það mátti ekki bíða eftir formlegum fundi sveitarstjórnar. Vegna málsatvika hafa fyrrnefndir kjörnir fulltrúar því einir verið til frásagnar um málsatvik fram til þessa.

Eðlilegt er að ýmsar spurningar vakni hjá íbúum sveitarfélagsins þegar sveitarstjóra sveitarfélagsins er vikið úr starfi fyrirvaralaust. Sem dæmi um slíkar spurningar má nefna:

  1. Var sveitarstjórinn ölvaður þegar hann átti ekki að vera það?
  2. Hafði hann misfarið með fjármuni sveitarfélagsins?
  3. Hafði hann sýnt af sér óviðurkvæmilega framkomu?
  4. Hafði hann unnið á móti hagsmunum sveitarfélagsins?

Það er vægt sagt ekkert fýsilegt að hafa slíka orðræðu og slíkar vangaveltur á bakinu. Í kjölfar uppsagnarinnar þróuðust mál þannig að það reyndist nauðsynlegt að leysa úr ágreiningi um málsatvik og túlkun ráðningarsamnings fyrir dómstólum. Niðurstaða þess liggur nú fyrir og felur hún í sér nokkur fjárútlát fyrir sveitarfélagið. Í tengslum við meðferð málsins fyrir dómstólum þurfti ég að sitja undir ýmsum ummælum, sem skráð eru og liggja fyrir í dómsskjölum um alla framtíð, þar sem m.a. vegið var að æru minni og starfsheiðri.

Þegar ljóst var að það kom upp ágreiningur um túlkun ráðningarsamnings sem þyrfti að leysa úr fyrir atbeina dómstóla, þá taldi ég ekki rétt að tjá mig um hvernig málsatvik litu út frá mínu sjónarhorni, meðan málaferli stóðu yfir. Þegar þau eru að baki og niðurstaða þeirra liggur fyrir, þá tel ég mig skulda íbúum sveitarfélagsins að upplýsa málsatvik öll eins og þau líta út frá mínu sjónarhorni og samkvæmt minni upplifun. Það eru jú þeir sem borga brúsann.

Gríðarlegt vinnuálag
Á þeim tíma sem ég starfaði fyrir Borgarbyggð kynntist ég fjölmörgu góðu fólki í sveitarfélaginu. Ég tel það hafa verið eitt af gæfusporum á mínum starfsferli að hafa fengið tækifæri til að starfa fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.

Ég gekk að því vísu í upphafi að það yrði mikið vinnuálag fyrstu misserin í starfi fyrir Borgarbyggð þegar ég væri að setja mig inn í starfið og ná utan um það verkefni sem beið. Það gekk eftir. Síðan kom í ljós að vinnuálagið minnkaði ekkert þrátt fyrir að misserin liðu eitt af öðru. Ég fór því að halda daglegar vinnuskýrslur frá áramótum 2017/2018. Í ljós kom að vinnutími var á bilinu 260-300 klst. á mánuði. Ég sendi fulltrúum í byggðarráði þessar upplýsingar í tölvupósti um áramótin 2018/2019 til upplýsingar. Ég fékk engin viðbrögð við póstinum utan að fulltrúi minnihlutans brást við með því að segja í svarpósti að það þyrfti að vera á varðbergi um að vinnuálag mætti ekki keyra úr hófi fram.

Ég setti mér fljótlega þrjú forgangsmarkmið í starfi til að styrkja stjórnsýsluna. Þau voru að styrkja Umhverfis- og skipulagssviðið, ráða mannauðsstjóra og ráða lögfræðimenntaðan einstakling sem bæjarritara (sviðsstjóra stjórnsýslusviðs). Tvö fyrstu markmiðin gengu eftir. Það fékkst á hinn bóginn aldrei umræða um hið þriðja, ráðningu lögfræðimenntaðs einstaklings í starf bæjarritara. Þegar ég ræddi um nauðsyn þess við kjörna fulltrúa eftir kosningar 2018 var því tekið með þögninni. Það var því áhugavert að sjá að um tíu mánuðum eftir að ég lét af störfum, hóf slíkur starfsmaður störf hjá sveitarfélaginu. Ég sagði margoft við fulltrúa meirihluta sveitarstjórnar að ég væri ekki að vinna réttu störfin sem sveitarstjóri sökum undirmönnunar í stjórnsýslunni. Viðbrögð við því voru engin.

Þó komu forseti sveitarstjórnar og formaður byggðarráðs eitt sinn til mín og sögðust hafa ákveðið að láta mig vinna meira út á við. Viðbrögð mínu voru að þetta væri fínt en spurði þó hver ætti þá að vinna þau störf sem ég hefði á mínu borði. Því var ekki svarað og ekki minnst á þetta framfaraskref framar. Með tölvupósti um miðjan júní 2019 óskaði ég eftir samtali við fulltrúa meirihlutaflokkanna í byggðarráði um mín mál og mál sviðsstjóra stjórnsýslusviðs. Þeim tölvupósti var ekki svarað.

Í þau fjögur sumur sem ég starfaði hjá sveitarfélaginu tók ég aldrei sumarfrí í meira en eina viku samfellt utan sumarið 2019 þegar það átti að heita að ég næði tveimur vikum í sumarfrí. Ótekið sumarfrí safnaðist þannig upp en hvað átti að gera? Það var aldrei slaki á verkefnum sveitarfélagsins á sumrin. Jafnvel voru þau meiri en ella vegna framkvæmda og undirbúnings verkefna fyrir komandi haust og vetur. Ég setti það því í forgang að aðrir starfsmenn gætu tekið sitt lögbundna sumarfrí á þeim tímum sem þeim hentaði best.

Að vera saman í báti (eða ekki).
Eitt af því sem ég fékk að heyra fyrir Héraðsdómi Vesturlands var að ég hefði ekki verið í sama báti og sveitarstjórnin á seinna kjörtímabilinu án þess að það væri skýrt nánar með einstökum dæmum þar um. Það átti líklega að þýða að ég hefði ekki verið samstíga áherslum kjörinna fulltrúa og jafnvel unnið á móti þeim. Þetta eru alvarlegar ásakanir, vægt sagt. Um það er að segja að ég og kjörnir fulltrúar áttum gegnumsneitt mjög gott samstarf eftir kosningar 2018. Ég og forseti sveitarstjórnar og formaður byggðarráðs töluðum saman nær því daglega og stundum oft á dag ef svo bar undir. Ég var einnig búinn að segja að þær mættu hringja í mig hvenær sem væri sólarhringsins þegar þær teldu þörf á. Eina málefnið, þar sem ég og kjörnir fulltrúar vorum ekki samstíga, var afstaða í starfsmannamálum. Ég varði starfsfólkið út á við þegar þörf reyndist á og sagði það vera skyldu mína sem yfirmaður þess. Það kom fram á ýmsan hátt. Ég hafnaði því að láta „orðið á götunni“ hafa áhrif á ákvarðanir í starfsmannamálum. Vitaskuld var hins vegar tekið á málum innávið ef þörf krafði. Ég var t.d. eitt sinn gagnrýndur fyrir að hafa skotið opinberlega skildi fyrir starfsfólkið, svo sem með skrifum í Skessuhorn. Þeirri umræðu lauk með að ég sagðist endurtaka það allt ef þörf reyndist á.

Skýrsla Capacent
Vorið 2019 var ákveðið að fá fyrirtækið Capacent til að gera úttekt á vinnulagi og starfsemi Umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar annars vegar og hins vegar þeim hluta stjórnsýslunnar, sem sá einna mest um samskipti við íbúana. Meginmarkmiðið var m.a. að kortleggja hvernig hvernig aðgengi íbúa sveitarfélagsins væri að þessum hluta af starfsemi sveitarfélagsins. Umhverfis- og skipulagssviðið hafði yfirleitt komið einna verst út úr árlegri viðhorfskönnun meðal íbúanna. Því var ákveðið að hafa það í ákveðnum forgangi í þessari yfirferð. Upp kom sú hugmynd að setja upp ábendingargátt á vef sveitarfélagsins þar sem íbúarnir fengu tækifæri til að koma á framfæri ábendingum um framkvæmd stjórnsýslu sveitarfélagsins undir nafnleynd. Ég taldi mig vita að það gæti orðið vandasamt að fara með það sem út úr slíku kæmi, þar sem ábendingar voru undir nafnleynd. Ábendingagáttin var sett upp síðla sumars 2019. Það dróst fram yfir sumarfrí bæði vegna sumarfría starfsfólks og einnig var verið að uppfæra heimasíðu Borgarbyggðar. Það verk hafði nokkurn forgang því kjörnir fulltrúar voru orðnir óþreyjufullir um að hún liti dagsins ljós. Starfsmenn Capacent komu upp eftir og tóku viðtöl við starfsmenn og funduðu með þeim. Starfsmönnum var skipað í hópa þar sem fulltrúar Capacent kynntu sér viðhorf þeirra og starfsánægju eftir ákveðnu kerfi. Nokkrir fulltrúar byggðarráðs óskuðu einnig eftir samtali við fulltrúa Capacent.

Bráðabirgða skýrsla Capacent lögð fram
Ég fæ skýrslu Capacent senda í tölvupósti föstudaginn 25. október 2019. Mér brá nokkuð þegar ég las skýrsluna yfir. Það kom til af nokkrum ástæðum. Ég taldi mig ekkert óvanann að lesa úr slíkum skýrslum og að vinna áþekk verkefni. Mér fannst því margt ábótavant við vinnulag og efnistök skýrslunnar miðað við hvað hún kostaði. Í fyrsta lagi var hún þunn í roðinu að mínu mati enda þótt það sé alltaf einstaklingsbundið mat. Í öðru lagi voru á henni verulegir gallar. Sem dæmi má nefna að í henni var birt úttekt á þeirri heimasíðu sveitarfélagsins sem búið var að loka. Í þriðja lagi og því alvarlegasta að mínu mati var birting niðurstaðna úr ábendingagátt þeirri sem sett var upp og áður var minnst á. Þar höfðu vissulega komið fram ýmsar gagnlegar og hófstilltar ábendingar. En einnig höfðu verið settar þar inn margháttaðar ávirðingar og stóryrði sem beindust að tilteknum starfsmönnum sveitarfélagsins, allt undir nafnleynd. Að mínu mati var það ótækt að birta nafnlausar skammir sem beindust að tilteknum starfsmönnum undir nafni sveitarfélagsins því þá væri sveitarfélagið að gera ávirðingarnar að sínum.

Ég hitti starfsmann Capacent stuttlega síðdegis þennan dag og fór yfir nokkur atriði skýrslunnar með honum. Ég benti m.a. á að röng heimasíða hefði verið rýnd og við ræddum einnig það sem kom út úr ábendingagáttinni. Ég taldi nauðsynlegt að milda það í stað þess að birta skammaflauminn orðréttan. Að öðru leyti lét ég bíða að rýna skýrsluna nákvæmlega þar til hefði verið bætt úr þeim ágöllum sem augljósastir voru að mínu mati.

Skýrsla nr. 2 og nr. 3
Eftir helgina fékk ég senda nýja útgáfu af skýrslunni. Hún var heldur skárri en fyrsta útgáfan. Rétt heimasíða hafði verið rýnd, bætt úr öðrum atriðum og hörðustu ávirðingarnar á hendur einstaka starfsmönnum heldur verið mildaðar. Ég las skýrsluna þá nákvæmlega yfir og tók saman viðbrögð mín við henni á þremur A4 blöðum sem ég sendi skýrsluhöfundi í tölvupósti. Þar komu bæði fram ábendingar um það sem mætti skýra og vinna betur. Nokkrum hlutum skýrslunnar hrósaði ég sérstaklega eins og gengur. Einnig fjallaði ég betur um ávirðingarnar sem beindust að einstökum tilteknum starfsmönnum og tók það fram að ég teldi birtingu þeirra óásættanlega. Ég fékk senda nýja og endurbætta útgáfu innan skamms. Þá taldi ég skýrsluna vera komna á það stig að hún væri nægjanlega vel unnin til að leggja hana fyrir byggðarráð. Það var svo gert á fundi þess fimmtudaginn 7. nóvember.

Byggðarráðsfundur 7. nóvember
Starfsmaður Capacent kom á byggðaráðsfund þann 7. nóvember og kynnti skýrsluna. Hann gerði það ágætlega og var ekki að heyra annað en að byggðarráð væri ánægt með skýrsluna eins og hún var lögð fram. Í máli starfsmanns Capacent kom fram, svona í framhjáhlaupi, að þetta væri þriðja útgáfa skýrslunnar. Það vakti ekki neina athygli að sjá á fundinum og ekkert spurt frekar út í það. Ekki var heldur óskað eftir að fá að sjá fyrri tvær útgáfurnar til að sjá hvaða breytingar hefðu orðið á henni frá upphaflegri útgáfu. Ég opnaði á, í umræðu um skýrsluna, að ég væri ekki sáttur við að birta í skýrslu sem þessari, nafnlausar ávirðingar á einstaka tiltekna starfsmenn, því þá væru þær komnar á ábyrgð sveitarstjórnar. Undir það sjónarmið var ekki tekið, vægt sagt. Leið svo helgin án þess að til tíðinda drægi.

Allt komið í uppnám
Eftir hádegi á mánudag er ég að vinna að einhverjum verkefnum á skrifstofu sveitarstjóra eins og gengur. Þá koma til mín forseti sveitarstjórnar og formaður byggðarráðs og er mikið niðri fyrir. Þær segja að það sé allt komið upp í loft út af skýrslu Capacent. Minnihlutinn í sveitarstjórn sé að undirbúa að leggja vantraust á sveitarstjóra fram á fundi sveitarstjórnar nk. fimmtudag. Það skyldi gert sökum þess að hann hefði haldið upplýsingum leyndum frá kjörnum fulltrúum með því að hafa ekki kynnt upphaflega útgáfu af skýrslu Capacent strax fyrir kjörnum fulltrúum. Þær sögðu síðan að það væri líklegt að það væri meirihluti fyrir vantraustinu því fulltrúi þriðja flokksins, sem myndaði meirihluta í sveitarstjórn Borgarbyggðar, myndi greiða atkvæði með því. Ég svaraði því til að að mínu mati hefði skýrslan verið það illa unnin í upphafi, að nauðsynlegt hefði verið að vinna hana betur, svo hún væri hæf til að fara fyrir byggðarráð til umfjöllunar. Þetta vinnulag er ekki óvanalegt að sveitarstjóri fari yfir slík vinnuskjöl í upphafi og láti lagfæra og betrumbæta það sem helst stakk í augu, áður en útkoman væri lögð fyrir kjörna fulltrúa. Ég hefði því verið að sinna starfsskyldum mínum með því að gera það sem ég hefði getað til að Capacent skilaði ásættanlegu verki fyrir þá fjármuni sem samið hafði verið um sem greiðslu.

Hvað vantraustið varðaði þá brást ég við með þeim hætti að segja að það væri bara eins og gengur, það yrði þá lagt fram og út úr því kæmi síðan einhver niðurstaða. Ég hefði ekki áhyggjur af því hver hún yrði. Það að taka umræðu um mál sem þetta í sveitarstjórn hefði hins vegar þann kost, að þá færi fram umræða um málið frá öllum hliðum þess, í stað þess að hún væri einskorðuð við takmarkaða þætti málsins, án þess að sjónarmið allra aðila kæmu fram og oft án þess að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir. Íbúar sveitarfélagsins hefðu þannig möguleika að fá nákvæmar upplýsingar um alla málavexti. Ég hefði t.d. aldrei verið beðinn um afrit af útgáfu I og útgáfu II af skýrslunni til að áhugasamir gætu séð hvernig hún hefði þróast. Svo var ekki heldur í þessum samræðum. Við ræddum stöðuna töluverða stund og þær sögðust hafa áhyggjur af henni. Þegar þær voru að fara vörpuðu þær fram þeirri spurningu hvort ég væri tilbúinn að segja upp starfi sveitarstjóra til að losa þær við frekari vandræði vegna þessa máls. Ég tók þessu sem gríni og sagðist ekki myndu falla á sverðið fyrir þær. Eftir samtalið þá sendi ég fulltrúum meirihlutaflokkanna þær skriflegu ábendingar og athugasemdir sem ég hafði sent starfsmanni Capacent svo þau hefðu á hreinu hvernig samskiptin hefðu verið milli mín og hans. Engin viðbrögð komu við tölvupóstinum.

Boðað til kvöldfundar
Eftir hádegi þriðjudaginn 12. nóvember fæ ég tölvupóst þar sem ég er beðinn um að koma á fund með kjörnum fulltrúum síðdegis þann sama dag. Ég var búinn að taka að mér að stjórna fundi í verkefninu „Heilsueflandi samfélag“ í Hjálmakletti þá undir kvöld þannig að ég óskaði eftir því að þessum fundi væri frestað fram til klukkan 20. Við því var orðið.

Að afloknum fundinum uppi í Hjálmakletti fer ég inn í ráðhús. Þá bíða þar eftir mér í fundarsal sveitarstjórnar; forseti sveitarstjórnar, formaður byggðarráðs, fulltrúi þriðja flokksins í meirihluta sveitarstjórnar og fulltrúi minnihlutans í byggðarráði. Það tilkynnir forseti sveitarstjórnar mér að ég njóti ekki lengur trausts sveitarstjórnar sem sveitarstjóri og muni þar af leiðandi ekki starfa lengur sem slíkur. Vilji þeirra standi til að við skrifum þarna á staðnum undir yfirlýsingu um starfslokasamning. Í henni skuli koma fram að báðir aðilar lýsi því yfir að um sameiginlega ákvörðun sé að ræða að slíta samstarfinu og við munum ekki tjá okkur frekar um málið. Þau séu reiðubúin til að standa við öll ákvæði ráðningarsamnings við starfslok.

Ég hafnaði þessu án umhugsunar og lýsti því yfir að ég myndi ekki skrifa undir eitt eða neitt þarna á staðnum. Með því að fara að skrifa undir eitthvað á þessari stundu hefði ég verið að afsala mér öllum möguleikum á að leita réttar míns svo og möguleikum á að koma minni hlið mála á framfæri. Þar að auki fann ég ekki hjá mér neina þá sök sem réttlætti slík viðbrögð. Ég sagðist því telja nauðsynlegt að leita mér aðstoðar lögfræðings vegna þeirrar stöðu sem upp væri komin. Nokkur orðaskipti urðu um vinnulag við fyrrgreinda skýrslu og hvers vegna ég hefði ekki afhent fyrsta eintak til kjörinna fulltrúa. Ég endurtók það sem ég hafði sagt áður að ég teldi mig hafa verið að sinna starfsskyldum mínum með að tryggja eftir bestu getu að Capacent uppfyllti sinn hluta samningsins svo sem um vönduð vinnubrögð áður en skýrslan væri lögð á borð kjörinna fulltrúa. Allt þetta samtal var á hófstilltum og málefnalegum nótum. Ég tók síðan þannig til orða að ég þyrfti að skýra starfsfólki ráðhússins frá breyttum aðstæðum morguninn eftir. „Þú gerir það ekki án okkar nærveru,“ segir þá þriðji fulltrúi meirihlutaflokkanna. Ég spurði þá hvort ég væri kominn undir eftirlit. Því var ekki svarað. Síðan fór ég fram og inn í skrifstofu og hugsaði aðeins þá stöðu sem upp var komin. Mér fannst þó nauðsynlegt að koma tveimur atriðum á framfæri áður en leiðir skildu. Ég fór því fram í fundarsal aftur og stóð fyrir enda fundarborðsins. Fyrst fór ég yfir að mitt sjónarmið væri að þau gætu svo sem rekið sveitarstjórann en það myndi ekki leysa úr ýmsum þeim undirliggjandi vanda sem væri áfram til staðar. Í annan stað sagðist ég skilja það mjög vel, og jafnvel taka undir, að það væri brottrekstrarsök, ef þau hefðu komist að því að ég hefði verið að hagræða hlutum mér persónulega í hag í nefndri skýrslu. Staðreyndin væri hins vegar sú að mitt nafn eða mitt starfsheiti hefði aldrei komið fyrir í henni á neinu stigi málsins. Í vitnaleiðslu fyrir héraðsdómi kom fram hjá kjörnum fulltrúum Borgarbyggðar að ég hefði á þessari stundu sýnt af mér ógnandi framkomu sem er fráleit fullyrðing. Með það fór ég aftur inn í skrifstofu sveitarstjóra og fór að ganga frá skjölum og gögnum svo sem að taka saman og flokka þá pappíra sem lágu á skrifborði og voru í bókahillum.

Útgöngumarsinn
Eftir skamma hríð kom formaður byggðarráðs inn í skrifstofuna til mín í nokkru uppnámi út af framgangi mála. Ég hughreysti hana og róaði eftir því sem ég kunni og gat best. Síðan kom forseti sveitarstjórnar inn í skrifstofuna og rétti mér uppsagnarbréf hverju ég tók á móti athugasemdalaust. Við sátum síðan góða stund og spjölluðum saman, enda höfðum við ætíð unnið mikið og þétt saman það eina og hálfa ár sem liðið var frá kosningum. Þær upplýstu mig meðal annars um að fulltrúi þriðja flokksins í meirihlutanum hefði verið á móti því að ráða mig eftir kosningar. Hann hefði því notað tækifærið til að losna við mig strax og það gafst. Ég sagði þeim að ég hefði fyrir löngu verið búinn að átta mig á þessu viðhorfi út frá ýmsum sólarmerkjum. Við slitum síðan talinu þegar þeir tveir, sem sátu frammi í salnum, komu í dyrnar.

Ég fór síðan að flokka gögn og vinnuskjöl sem voru í skrifstofunni, henda því sem mátti henda og flokka annað og leggja í bunka. Útgáfu I, útgáfu II og útgáfu III af Capacent skýrslunni lagði ég vel merktar á borðið ef svo ólíklega vildi til að einhver skyldi vilja kynna sér þær. Þær eiga einnig að vera aðgengilegar í málaskrá sveitarfélagsins. Þegar ég ætlaði svo að ná í mín persónulegu gögn í tölvuna var búið að loka henni. Ég er svo í miðjum klíðum að ganga frá og taka saman mínar persónulegu eigur og bækur þegar fyrrgreindur þriðji fulltrúi kemur í dyrnar og segir: „Jæja, nú er þetta búið“. Ég spurði hvort hann væri að reka mig út. Því var ekki svarað. Ég lagði þá lykla ráðhússins á borðið, skildi bókahrúguna eftir á gólfinu og yfirgaf húsið.

Þar með var á enda runnið þriggja og hálfs árs viðburðaríkt starf fyrir Borgarbyggð.

Ágreiningur um túlkun ráðningarsamnings gerður upp fyrir dómstólum
Þegar heim var komið hringdi ég í fjölskylduna og tilkynnti þeim breytta stöðu. Í málflutningi fyrir Héraðsdómi Vesturlands var því hins vegar haldið fram af kjörnum fulltrúum að ég hefði farið að hringja út og suður frá skrifstofunni strax eftir að hafa fengið afhent uppsagnarbréfið. Það var nú enn ein þvælan sem borin var á borð í vitnaleiðslum. Morguninn eftir hófust á hinn bóginn síendurteknar hringingar til mín úr ráðhúsinu. Þannig var ég ítrekað beðinn um að standa að sameiginlegri yfirlýsingu með kjörnum fulltrúum um hvernig starfslokin hefðu borið að og hver væri ástæða þeirra. Ég hafnaði því eðlilega og minnti á að ég hefði einfaldlega verið rekinn. Ég hafði síðan samband við lögfræðing og sendi honum tiltæk gögn sem vörðuðu málið. Þar á eftir fékk ég leyfi hjá staðgengli sveitarstjóra að hafa bíl sveitarstjóra undir höndum í tvo daga svo ég gæti farið á milli stofnana sveitarfélagsins, kvatt starfsfólkið og þakkað fyrir góða viðkynningu. Það var ánægjuleg hringferð því ég hafði átt mjög gott samstarf við það góða og öfluga starfsfólk sem vann hjá Borgarbyggð á þessum árum. Á föstudeginum, daginn eftir fund sveitarstjórnar þar sem ég var formlega rekinn, heimsótti ég ráðhúsið, lauk við að taka saman mín persónulegu gögn og kvaddi starfsfólkið.

Ein af þeim ávirðingum, sem nefndar voru sem ástæða fyrir brottrekstrinum, og ég þurfti að sitja undir í réttarsal, var að ég hefði verið lélegur stjórnandi. Nú er enginn dómari í eigin sök og því skal ég ekki segja af eða á um réttmæti þessarar fullyrðingar. Á hinn bóginn veit ég, að á þeim tíma sem ég starfaði hjá Borgarbyggð, þá var stjórnsýsla sveitarfélagsins byggð upp af öflugu fólki, starfsandi var góður og starfsmenn lögðu sig fram af áhuga að veita íbúunum góða þjónustu og unnu sveitarfélaginu af áhuga og heilindum. Það komust færri að en vildu þegar störf voru auglýst.

Í ljós kom á næstu vikum að öllum óskum um samtal um túlkun og uppgjör á ráðningarsamningi var ætíð staðfastlega hafnað af kjörnum fulltrúum Borgarbyggðar. Því var ekki um annað að ræða en að fara hina formlegu leið fyrir dómstólum til að fá skorið úr um túlkun hans. Niðurstaða þeirrar vegferðar liggur nú fyrir, þremur árum síðar, með tilheyrandi fjárútlátum fyrir sveitarfélagið. Sú ákvörðun kjörinna fulltrúa Borgarbyggðar að stefna málinu í þann farveg, og sú orðræða, sem ég þurfti að sitja undir á leið málsins fyrir dómstólum, leiddi einnig til þess að ég taldi nauðsynlegt að skýra mína hlið þessa máls. Það kom til bæði vegna þess hvernig vegið var að æru minni og starfsheiðri í vitnaleiðslum, og skráð er um alla framtíð í skjölum málsins, og eins vegna þess að mínu mati eiga íbúar sveitarfélagsins rétt á að fá upplýsingar um málsatvik eins og þau líta út frá mínum bæjardyrum séð.

Með góðum kveðjum í Borgarbyggð,

Gunnlaugur Auðunn Júlíusson.
Höf. er MS í hagfræði og hamingjusamur leiðsögumaður.