Að læra að sitja

Bjarnheiður Jóhannsdóttir

Pælingar til barnamálaráðherra Ásmundar Einars Daðasonar

Um daginn fór ég á nokkra fundi með alþingismönnum í kjördæmaviku, sem ég geri við hvert tækifæri. Enda eru fundirnir gott tilefni til að láta í ljós skoðanir sínar og uppfræða Alþingismenn um aðstæður sem þau þurfa að vita af.

Á einum fundinum sat ég með barnamálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni og gat ekki setið á mér, þegar fundarfólk var búið að tala um skerðingar og greiningar barna smá stund. Ég bað hann um að hugsa skólakerfið upp á nýtt, þannig að hætt yrði að líta á börn sem eru greind með ADHD, einhverfu, lesblindu og svo framvegis sem einhverja gallaða vöru. Þetta eru annars konar form af hæfileikum og getu.

Mér til mikillar gleði tók Ásmundur vel í orð mín og í kjölfarið fylltist ég vonar. Því ég, þessi 55 ára gamla kona, sem lærði að sitja 2 ára, þegja 4 ára og fara að fyrirmælum 6 ára, tók út fyrir skólafélaga mína á öllum skólastigum, sem voru vanmetin, bæld og jafnvel niðurlægð, fyrir það eitt að geta ekki setið kyrr.

En það er alveg magnað að hugsa sér að alla skólagönguna séum við látin einbeita okkur að því að sitja kyrr. Hvað næst fram með því?

Jú, nútímamaðurinn er rétt um það bil að drepa sig á því að sitja kyrr. Reyndar deyr fólk á hverjum degi úr þeim sjúkdómi. Og fyrir marga nemendur er þetta alls ekki góð leið til að meðtaka þekkingu. Þessi aðferð brýtur niður fólk og lætur það upplifa sig sem tapara í lífinu, því það nær ekki að tengjast við þekkingu sem matreidd er á þennan hátt.

Ég hef kennt fullorðnu fólki af og til í 25 ár, aðallega frumkvöðlafræðslu og einnig í myndlistaskóla. Þær eru óteljandi ungu sálirnar sem ég hef hitt á þrítugsaldrinum, jafnvel eldri, trúandi því að þau geti ekki lært. Þegar allt sem þurfti var að lofa þeim að læra standandi, með mússík í eyrunum eða með verklegum hætti. Ein ung kona tók einu sinni til við að dansa fyrir okkur mismunandi tegundir af sameindum í efnafræði. Það ár lærði hver einasta manneskja í hópnum grunn muninn á basískum og súrum steinefnasamböndum. Hún afsakaði sig eftir á, enda eflaust oft fengið orð í eyra í gegnum tíðina, en þetta var stelpa með góðan skilning á sjálfri sér og gott bakland og þorði þess vegna að láta ljós sitt skína, í þeirri vissu að hún sjálf mundi meðtaka þekkinguna svona.

Það er sem betur fer margt að breytast í kennsluaðferðum, umræðan í skólastofunni orðin gagnvirkari, aðferðirnar ekki eins óþægilegar og oft hvetjandi. En ennþá eiga allir að sitja, meira og minna allan daginn.

Eins og það sé lífið!

Og hvað fáum við? Fólk sem þekkir ekki orðaforða veðurs, landslags, hreyfingar og útiveru. Kann ekki að fá tilfinningalega útrás með því að takast á við veðrið, skóginn, hæðir og hóla. Skilur ekki að bókleg þekking sé einungis ein tegund þekkingar og finnst það oft vera harla misheppnað fyrir að geta ekki komist í gegnum bók án þess að æða um húsið með Skálmöld í eyrunum á meðan það les. Eða hlusta á bókina og teikna á meðan. En það er hæfileiki. Það er annars konar heilastarfsemi. Og við þurfum fjölbreytileika. Til dæmis er sá hæfileiki margra einhverfra að gera alltaf hlutina eins og í sömu röð ákaflega verðmætur í prófunum, forritun og ýmsum raunvísindum.

Svo er það þessi hæfileiki að læra með líkamanum. Hæfileiki til að taka inn þekkingu á annan hátt. Hæfileiki til að skapa, greina, gera við, byggja og taka sundur, skilja efniseiginleika, vélar, kerfi; Í raunveruleikanum, en ekki á blaði/skjá. Þessi hæfileiki er jafn mikilvægur og verðmætur.

Á sama tíma og við sitjum öll kyrr, meira og minna, tala ráðamenn fjálglega um að það eigi að efla verknám og hvetja börn til að fara í það. Í hvert sinn sem ég heyri einhvern fara með þessa möntru, hugsa ég: En bara ekki þín börn, eða? Því það virðist ekki felast neinn frami í því, miðað við ríkjandi viðhorf.

Mér heyrist Ásmundur reyndar vera að fara í rétta átt. Mér sýnist hann skilja samhengið milli þess að kenna fólki endalaust að sitja kyrrt og þegja og þess að verða „barn með margþættan vanda“. Börn með margþættan vanda eru oft börn fólks sem þreifst ekki heldur í umhverfinu sem við höfum búið til. Sársaukinn og höfnunin orðin upplifun kynslóða.

Fyrir mig, þetta 55 ára barn sem lærði að sitja kyrr 2 ára, þegja 4 ára og fara að fyrirmælum 6 ára, gekk skólagangan frábærlega. En ég er líka orðin veik af allri kyrrsetunni. Eins og ótrúlega margir í nútímanum. Þannig að kyrrsetan var ekki mér í hag, þegar allt er talið saman.

Nú er ég loksins að læra að standa upp, fara út í miðju verki, hreyfa mig, spjalla við hænurnar mínar, fá vindinn í fangið og ganga mér til niðurstöðu í verkefnum dagsins. Sá lærdómur kostaði ýmsar meðferðir og lyf, sem kyrrsetufólk þarf að taka með tímanum, því það er banvænt að sitja og kyrrsetja líkamann.

Þessi grein sem ég er hér að ljúka við, óx af tveimur gönguferðum, skrepptúr í búðina, spjalli við nokkra góða vini og einni sundferð. Tíminn í burtu frá skjánum var mun uppskerumeiri en tíminn við hann.

Þurfum við ekki eitthvað að skera upp þessar hugmyndir okkar um hvernig best sé að búa til hæfa, fróða og kröftuga einstaklinga af öllu tagi? Ási, eins og hann er kallaður í Dölunum, vonandi nær að koma hreyfingu á þetta hættulega kyrrláta skólakerfi. Við hin þurfum líka að taka á árunum.

 

Bjarnheiður Jóhannsdóttir

Jörva, Haukadal