Að kasta krónunni fyrir aurinn?

Lilja Björg Ágústsdóttir

Nýlegt svar heilbrigðisráðuneytis við erindi Brákarhlíðar, hjúkrunar- og dvalarheimilis í Borgarbyggð, eru vonbrigði fyrir byggðarlagið. Þessi viðbrögð endurspegla á vissan hátt skilningsleysi á aðstöðu samfélaga í hinum dreifðu byggðum til að halda úti fullnægjandi þjónustu fyrir íbúa sem eru komnir á efri ár. Erindið var fyrst viðrað við ráðuneytið árið 2016 og fól í stuttu máli annars vegar í sér beiðni um að bæta við fjórum nýjum rýmum í húsakynnum Brákarhlíðar og hins vegar að fjölga hjúkrunarrýmum og fækka þá á móti dvalarrýmum, eitt á móti einu. Um er að ræða mun hagkvæmari útfærslu bæði fjárhagslega og framkvæmdarlega heldur en að byggja upp ný rými frá grunni.

Kjarninn í svari heilbrigðisráðuneytisins var sá að því var hafnað að útbúin verði ný hjúkrunarrými í Brákarhlíð. Því til stuðnings er vísað til fjárlaga og í þá staðreynd að heilbrigðisumdæmi Vesturlands sé eitt best setta heilbrigðisumdæmi landsins með tilliti til fjölda hjúkrunarrýma. Einnig kemur það fram að ráðuneytið sé til í að breyta þeim dvalarrýmum sem heimilið hefur nú rekstrarleyfi fyrir í hjúkrunarrými en með því skilyrði að tvö dvalarrými verði sett á móti einu hjúkrunarrými.

Brákarhlíð í lykilhlutverki í samfélaginu

Brákarhlíð er framsækið heimili sem spilar lykilhlutverk í samfélaginu okkar í Borgarbyggð og lagður hefur verið mikill metnaður í að byggja upp þá aðstöðu sem sem þar er í dag. Heimilið er vel rekið fjárhagslega, starfsfólkið er gott og aðstaðan til fyrirmyndar. Það sem hefur varpað skugga á starfið síðustu ár er að til staðar hafa verið biðlistar, bæði eftir hjúkrunar- og dvalarrýmum, og hefur sú staða komið upp að eldri íbúar hafa þurft að leita til annarra sveitarfélaga til að fá viðhlítandi þjónustu fjarri sínum nánustu sem er ekki ásættanlegur kostur í stöðunni. Á biðlista eftir dvalarrými eru nú 7 einstaklingar og eftir hjúkrunarrými 12, þar af 5 sem eru með samþykkt flutningsmat frá dvalarrými yfir í hjúkrunarrými. Samkvæmt hugmyndafræðinni sem fram kemur í svari ráðuneytisins þá á að fórna tveimur dvalarrýmum á móti einu hjúkrunarrými sem veldur því að heimilismönnum í Brákarhlíð fækkar og þar með standa fullbúin rými auð.

Aðstöðumunur í dreif- og þéttbýli

Sú stefna að gera öldruðum einstaklingum kleift að dvelja heima hjá sér eins lengi og mögulegt er, er í grundvallaratriðum mjög góð en aðeins ef að önnur viðeigandi þjónustuúrræði eru til staðar. Í hinum dreifðari byggðum er oft á tíðum erfiðara og mun fjárfrekara að halda úti heimahjúkrun en þá skiptir enn meira máli að grunnþjónustan sé til staðar til að taka á móti þeim einstaklingum sem ekki geta dvalið heima og fengið nauðsynlega þjónustu. Þetta er raunverulegt vandamál sem fjölkjarna samfélög með öfluga byggð í dreifbýlinu glíma við og erum við í Borgarbyggð engin undantekning. Þá hefur læknaþjónusta í  miklum mæli færst til höfuðborgarinnar sem gerir það að verkum að aðgengi notenda á landbyggðinni að þeirri þjónustu versnar.

Að kasta krónunni fyrir aurinn

Það hlýtur að vera frumskylda allra sem sinna störfum fyrir hið opinbera, hvort sem það er á vettvangi ríkisins eða sveitarfélaga að fara vel með opinbert fé. Horfa þarf á þörfina á hverju svæði fyrir sig og leitast við að finna lausnir sem henta bæði dreif- og þéttbýlinu í framkvæmd. Ljóst er að þeir einstaklingar sem þurfa á hjúkrunarrými að halda verða ekki minna veikir þó að þeir fái ekki pláss á viðeigandi stofnun og þá kemur það í hlut ríkisins að sjá þeim fyrir heimaþjónustu. Í landsstórum sveitarfélögum getur sú þjónustu verið erfið í framkvæmd og mjög fjárfrek og því nýtist þjónustan ekki eins vel og í þéttbýlinu.  Í ofangreindu erindi Brákarhlíðar til ráðuneytisins er ljóst að stofnkostnaður við fjölgun rýma í Brákarhlíð myndi kosta aðeins um fjórðung af kostnaði við uppbyggingu á hjúkrunarrými frá grunni samkvæmt kostnaðarmati sem stjórnendur kynntu til stuðnings beiðni sinni. Því má spyrja sig hvort ríkisvaldið sé með þessari afstöðu sinni og afgreiðslu að kasta krónunni fyrir aurinn?

Ég vil hvetja heilbrigðisráðherra og viðkomandi ráðuneyti til að endurskoða afstöðu sína og nýta þetta tækifæri til að fjölga rýmum í Brákarhlíð. Með því eru tekin mikilvæg skref og sýndur raunverulegur vilji til að leysa þá stöðu sem víða er uppi í þessum málaflokki á landsbyggðinni.

 

Lilja Björg Ágústsdóttir

Höf. er forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar