Að gera gott betra

Logi Sigurðsson

Sveitarstjórnarkosningar eru framundan og öll viljum við frambjóðendur, hvar á lista sem við erum, sannfæra þig lesandi góður um að okkar listi sé sá sem best sé að treysta fyrir stjórn sveitarfélagsins okkar næstu fjögur árin. Þá birtast pennagreinar í hrönnum, einmitt eins og þessi hér þar sem ég set fram nokkra punkta um það sem mér er hugleikið að vinna að komist okkar listi til áhrifa (og reyndar líka þó hann komist það ekki).

Margt hefur verið vel gert í gegnum árin og engin ástæða til einhverra kúvendinga í rekstri sveitarfélagsins, þó alltaf megi gera betur.

Ekki er nokkur vafi á að atvinnulíf í héraðinu er í miklum blóma, en þar er ekki minnst að þakka gífurlegum vexti í ferðaþjónustu sem hefur fætt af sér stórbrotna uppbyggingu. Nægir þar að nefna dæmi eins og Húsafell, Reykholt, Deildartungu, Varmaland og Borgarnes. Þetta er jákvætt en jafnframt er það trú mín að við þurfum stöðugt að vera vakandi fyrir sem mestri fjölbreytni í atvinnutækifærum. Við þurfum að laða til okkar fyrirtæki, stór og smá, vera á undan með skipulag og sjá til að öll aðstaða sé eins og helst verður á kosið. Í því sambandi ber að nefna til dæmis nettengingu með ljósleiðara og þriggja fasa rafmagn. Nauðsynlegt er að þrýsta á stjórnvöld að hraða lagningu þriggja fasa rafmagns, en það skiptir mörg fyrirtæki og landbúnað í sveitarfélaginu gríðarlega miklu máli. Mikilvægt er að horfa til sveitarfélagsins alls í þessum efnum. Styrkja líka byggðaklasa eins eins og Hvanneyri, Kleppjárnsreyki, Varmaland og Bifröst svo eitthvað sé nefnt. Aukin atvinna á þessum stöðum myndi þá renna styrkari stoðum undir grunnþjónustu sem oft hefur barist í bökkum á þessum stöðum eins og flestum mun kunnugt. Ekki nægir að horfa til fjölgunar fyrirtækja í sveitarfélaginu því íbúðarhúsnæði vantar. Það er mikilvægt að sveitafélagið vinni að því að byggt verið upp íbúðarhúsnæði á svæðinu.

Borgarbyggð er heilsueflandi samfélag. Vinna þarf að því af krafti, halda áfram með göngu- og hjólastíga og koma upp útiæfingasvæðum með tækjum. Styrkja þarf við íþróttaiðkun barna og unglinga. Efla þarf tómstundarútu frekar en hún er mikilvægur þáttur fyrir börn í dreifðari byggðum sveitarfélagsins.

Horfa þarf til eflingar fjölskyldusviðs sveitarfélagsins (félagsþjónusta, barnavernd, sérfræðiþjónusta skóla) og vinna að því að þessar aðilar ásamt heilsugæslu efli enn frekar samstarf til snemmtækrar íhlutunar þar sem hennar er þörf. Þá þarf að huga að fjölbreytni í atvinnutækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu, bæði úti á hinum almenna vinnumarkaði og á vernduðum vinnustöðum Borgarbyggðar. Betur má gera í forvörnum og þannig mætti áfram telja.

Hér er aðeins minnst á örfá atriði sem hugur minn og félaga minna stendur til fyrir næsta kjörtímabil. Listinn er mun lengri en hér ætla ég þó að hætta – í þeirri trú að fyrir fleirum sé farið eins og mér, þ.e. að nenna ekki að lesa mjög langar pennagreinar.

Og þó….eitt enn: Kjóstu réttan lista!

 

Logi Sigurðsson

Höfundur skipar 3. sæti á lista Samfylkingar og óháðra í Borgarbyggð